Þessir ómannúðlegu Danir og innflytjendastefna þeirra

frettinGeir Ágústsson, Pistlar1 Comment

Eftir Geir Ágústsson:

Kosningar eru handan við hornið í Danmörku. Mýgrútur flokka er í framboði og óvíst ennþá hvort hrúga vinstriflokka (þeir rauðu) eða hrúga hægriflokka (þeir bláu) nái meirihluta.

Tekist er á um ýmis málefni en eitt mál er lítið sem ekkert rætt: Málefni innflytjenda. Engin áberandi áhersla er hjá neinum flokki að bæta í fjölda innflytjenda til Danmerkur.

Ég er þá ekki að meina innflutning á vinnandi fólki sem finnur sér vinnu og stendur á eigin fótum. Í minni 15 manna deild í vinnunni eru fimm slíkir og þeim gengur vel. Raunar mjög vel. Þetta eru verðmætaskapandi einstaklingar með taugar til heimalandsins en finnst Danmörk bjóða upp á eitthvað sem býðst ekki þar, í bili.

Nei, ég er að meina innflytjendur sem þarf að halda uppi með opinberu fé.

Enginn flokkur er hávær um að fjölga þurfi slíkum.

Ekki af því Danir eru rasistar eða ómanneskjulegir, eins og barnalegir íslenskir þingmenn virðast halda fram. Danir vilja hjálpa, leggja af mörkum og allt það, jafnvel að því marki að það grefur undan getu þeirra til að gera slíkt til lengri tíma. Þeir vilja bara ekki hrúga fólki í blokkir og sjá kynslóðir af bótaþegum alast þar upp.

Aftur.

Því þannig er staðan víða. Heilu hverfin eru talin óörugg, glæpatíðnin er þar svimandi og íbúar þar - sumir hverjir af þriðju kynslóð innflytjenda - hafa lítinn áhuga á að tala við innfædda og hvað þá vinna með þeim. Þeir búa í hliðar-samfélögum bótagreiðslna og glæpa.

Ekki af því þetta er vont fólk. Nei, það fæddist bara inn í kerfi sem mótaði það. Kerfi sem Danir hafa gefist upp á og vilja ekki framlengja. Fé til að aðstoða þá sem þurfa aðstoð má verja betur.

Á Íslandi virðist vera töluverð pressa á að endurtaka mistök Dana, Norðmanna og Svía. Kannski skiljanlega. Það er ekki alltaf hægt að heimfæra slæma reynslu annarra á sjálfan sig. Kannski gengur betur næst! Við gerum þetta öðruvísi og betur!

En hvað sem því líður þá er innflytjendastefnan ekki kosningamál í Danmörku. Hún þarf að herðast og enginn heldur öðru fram.

Kannski Íslendingar þurfi að endurskoða samskipti sín við ómanneskjuleg Norðurlöndin, eða hvað?

One Comment on “Þessir ómannúðlegu Danir og innflytjendastefna þeirra”

Skildu eftir skilaboð