Kerson og Stalíngrad: uppgjöf eða gildra?

frettinErlent, Páll Vilhjálmsson, Pistlar, StjórnmálLeave a Comment

Páll Vilhjálmsson skrifar:

Syðsta héraðið í Úkraínu, sem Rússar hafa á valdi sínu, er Kerson. Aðdrættir Rússa fara yfir ána Dnípró. Brýr og ferjur eru undir stöðugum eldflauga- og stórskotaliðsárásum úkraínskra hersins. Það er ástæða brottflutnings borgara frá héraðinu og samnefndri borg.

Án birgðaflutninga yfir Dnípró fellur Kerson. Það yrði stóráfall fyrir Rússa að missa eitt af fjórum nýinnlimuðum héruðum til óvinarins. 

Úkraínumenn hafa dregið saman mikið herlið, 30 til 60 þúsund manns, til að hertaka Kerson. Á móti hafa Rússar flutt nýjar herdeildir í héraðið, samtímis sem óbreyttir borgarar eru ferjaðir austur, yfir til Rússlands.

Tvennt er í stöðunni. Í fyrsta lagi að Rússar undirbúi uppgjöf í Kerson. Nýtt herlið sé til að tefja framrás Úkraínuhers og leysa af hólmi bardagaþreytta. Sé það áætlunin má búast við skipulögðu undanhaldi næstu vikur.

Í öðru lagi gæti áætlun Rússa verið að nota Kerson sem tálbeitu fyrir meginher Úkraínu og sigra hann á vígvellinum.

Á þessu stigi stríðsins eru Úkraínumenn og Rússar með ólík markmið. Úkraínumenn leggja allt kapp á að vinna tilbaka sem mest land sem tapast hefur. Landvinningar herða liðsandann og eru forsenda fyrir áframhaldandi stuðningi frá vesturlöndum. Forgangur Rússa er aftur að tortíma úkraínska hernum og þvinga stjórnina í Kænugerði að samningaborðinu.

Liðstyrkur andstæðinganna er ókunnur. Í sumar var talið að Úkraínuher hefði milli 300 til 500 þús. menn undir vopnum. Rússneska innrásarliðið var talið um 200 þús. Eftir herkvaðningu Rússa í september bætast við að minnsta kosti 300 þús. hermenn, mögulega fleiri.

Úkraína er örlátari á blóð en Rússland. Tölur um fallna í liði Úkraínu liggja á bilinu 60 til 100 þús. Fallnir Rússar eru sennilega helmingi færri. Til að námunda fjölda særðra má margfalda tölu fallinna með þrem.

Innviðir Úkraínu eru undir stöðugum flugvéla-, dróna- og eldflaugaárásum. Innviðir Rússlands er að stærstum hluta utan vígvallar, mínus Kerch-brúin til Krím. Eyðilegging innviða torveldar hernaðaraðgerðir og veldur ómældum efnahagslegum skaða. Að ekki sé talað um þjáningar óbreyttra borgara.

Með yfirtölu á vígvellinum og óskerta innviði stefnir ótvírætt í rússneskan sigur. Stríð, á hinn bóginn, segja bæði sagan og sérfræðingar, eru óútreiknanleg. Stríðið í gamla Garðaríki er aðeins öðrum þræði slavnesk innansveitarkróníka. Hinum þræðinum er ófriðurinn um heimsfrásögn.

Stjórnin er Kænugarði stendur fyrir vestræna heimsfrásögn. Lykilorðin eru Bandaríkin, ESB og Nató. Austan megin víglínu talar Pútín fyrir margpóla heimi.

Í seinna stríði varð borgin Stalíngrad táknmynd tveggja heimsfrásagna. Stalíngrad, nú Volgograd, stendur á vesturbakka Volgu. Kerson borg liggur á vesturbakka Dnípró. Baráttan um Kerson mun ekki standa í fáeina daga heldur vikur og mánuði. Þegar kurlin í Kerson eru öll komin til grafar verður aðeins önnur heimsfrásögnin ofan jarðar. 

Eitt einkenni stríða er að þau byrja í pólitík. Endastöðin er einnig í stjórnmálum. Þeir sem kunna best hverju sinni að lesa tímanna tákn eru líklegastir til afreka. Biden, Johnson/Truss og Stoltenberg fara fyrir vestrænu frásögninni en Pútín margpóla heimi.

Margur er knár þótt hann sé smár.

Skildu eftir skilaboð