Eftir Pál Vilhjálmsson kennara og blaðamann:
Giorgia Meloni er fyrsti kvenkyns forsætisráðherra Ítalíu. Hún mætti á litlum Fíat í embættistökuna. Meloni er umhugað um ítalskan iðnað, hún er kosin til að vinna í þágu ítölsku þjóðarinnar.
Nýr forsætisráðherra Ítalíu talar fyrir kristni, fjölskyldusamheldni og samfélagsgildum. Meloni gagnrýnir neysluhyggju og alþjóðlega forræðishyggju sem rænir þjóðir sjálfsvitund.
Sú ítalska er sögð öfgamaður. Þeir sem helst gagnrýna hana fyrir öfga kenna sig við frjálslyndi og fjölbreytni.
Frjálslyndið og fjölbreytnin krefst skilyrðislausrar hlýðni við alþjóðavæðingu sem þolir hvorki kristni né fjölskylduna og hatast við samfélagsgildi. Þeir frjálslyndu og fjölbreyttu átta sig ekki á að án kjölfestu trúar, fjölskyldu og sameiginlegra gilda er úti um samfélagsfriðinn.
Í ófriði, eðli málsins samkvæmt, er fátt um fína drætti hvað áhrærir frjálslyndi og fjölbreytni. Ófriður býr til hatrammar fylkingar, ekki umburðarlyndi og skilning.
Vestrænt frjálslyndi á upptök sín í andófi gegn gerræði og forréttindum þeirra fáu á kostnað alþýðu manna. Nú um stundir er það einmitt gerræði, t.d. skoðanakúgun og útilokun, sem einkennir meint frjálslyndi. Forréttindastétt frjálslyndra skipa æðstuprestar nýsannleika sem trúa að kynin séu þrjú, fimm eða seytján og að loftslagið sé manngert.
Í nafni nýsannleikans skal almenningur fylkja liði frá raunheimi inn í alþjóðavæddan bábiljuheim þar sem ímyndanir eru teknar fram yfir skynveruleikann.
Meloni sagði nei, takk, sama og þegið. Fyrir það er hún stimplaður öfgamaður.