Björn Bjarnason skrifar:
Má helst skilja á þingmönnunum að það sé móðgun við þá að sérreglur gildi ekki að öllu leyti um þá sem senda þinginu umsókn um ríkisborgararétt.
Píratar héldu í vikunni áfram að jagast í Jóni Gunnarssyni dómsmálaráðherra vegna útlendingamála. Þeir stóðu meðal annars fyrir sérstakri umræðu um ríkisborgararétt þar sem þeir töldu sjálfsagt að útlendingastofnun setti umsóknir um ríkisborgararétt til alþingis í forgang við umsagnir sínar. Má helst skilja á þingmönnunum að það sé móðgun við þá að sérreglur gildi ekki að öllu leyti um þá sem senda þinginu umsókn um ríkisborgararétt.
Það er sérkennilegt að á löggjafarþinginu ríki sá andi innan stjórnarandstöðunnar að í því einstaka tilviki þar sem þingmenn stíga inn á vettvang stjórnsýslunnar skuli umsækjandi njóta sérréttinda við lögbundna umsögn máls, það séu með öðrum orðum ekki allir jafnir fyrir lögunum. Setja beri þá skör hærra við afgreiðslu umsagna sem snúi sér til alþingis. Þangað sé hraðleið í gegnum lögbundna öryggisgæslu við veitingu ríkisborgararéttar.
Nýlega birtist frétt í Morgunblaðinu um að aðeins tveir af þeim tólf sem alþingi veitti ríkisborgararétt í júní 2022 uppfylltu búsetuskilyrði og þar af hafði helmingurinn aldrei átt lögheimili hér á landi og a.m.k. einn hafði ekki sannað á sér deili auk þess sem verulegur vafi var um aldur viðkomandi. Þá hafði í einu tilviki biðtími vegna brota ekki verið liðinn og í öðru tilviki var einstaklingur sem fékk ríkisborgararétt á boðunarlista fangelsismálastofnunar.
Þegar Sigmundur Davíð Gunnlaugsson, formaður Miðflokksins, rifjaði fréttina um þetta upp í þingumræðunum þriðjudaginn 25. október var hrópað úr þingsal: Var það Bobby Fischer? Þarna þótti þingmanni í lagi að nafngreina einstakling en sé gengið eftir því hvaða einstaklingar njóta nú forgangs þingsins skjóta þingmenn sér á bak við regluna um að þeir megi ekki ræða mál einstakra umsækjenda. Reglan um Jón og séra Jón er notuð eftir hentisemi. Með vísan til hennar heimta þingmenn sérreglur fyrir „sína“ umsækjendur.
Þegar Bobby Fischer fékk ríkisborgararéttinn var öllum ljóst hvers vegna og hvað var í húfi. Allt gerðist fyrir opnum tjöldum. Nú snýst krafa stjórnarandstöðunnar um leynd og mismunun á vettvangi stjórnsýslunnar.
Píratinn Andrés Ingi Jónsson hefur gengið mjög hart fram í kröfugerð á hendur dómsmálaráðherra um sérmeðferð umsókna til alþingis. Hann sagði í þingsalnum 25. október:
„Hann [dómsmálaráðherra] gengur svo langt að mæta hingað eins og einhver falsfréttaveita og segir að hann ætli ekki að taka fólk fram fyrir í röð því að það séu tvær ólíkar raðir; önnur liggur inn til Útlendingastofnunar og hin hingað til þingsins. Ráðherrann lætur eins og hann megi stífla röðina til þingsins bara á skrifborðinu sínu. Þetta nær náttúrlega ekki nokkurri átt, forseti.“
Skýrari verður krafan um mismunun ekki. Jafnan var litið á afgreiðslu alþingis á ríkisborgararétti sem varnagla, öryggisventil í skýrt afmörkuðum og vel rökstuddum tilvikum. Af hverju var þessu snúið í andhverfu sína?
Píratinn Halldóra Mogensen sagði: „Já, mikil er skömm dómsmálaráðherra. Ég myndi bara segja það vera svívirðilegt.“ Hvaða stjórnarhætti virða þeir sem þannig tala? Augljósa svarið er: Þá sem reistir eru á geðþótta.