Eftir Ingibjörgu Gísladóttur - greinin birtist fyrst í Morgunblaðinu 31. 0któber 2022
„Ég skrifa þessa grein í þeirri eigingjörnu von að tvennan Moggi og sterkt mjólkurkaffi muni halda áfram að veita mér ánægju.“
Hinn 23. október mátti lesa í Morgunblaðinu hugleiðingu Ögmundar Jónassonar um ilminn af lífinu þar sem hann lýsir því hvernig tilhlökkunin yfir því að setjast niður með kaffibolla og dagblað hverfi er hann opnar blaðið og les um að forsætisráðherra Breta tali um möguleikann á að heyja takmarkað kjarnorkustríð og ráðherrar hins herlausa Íslands kinki kolli. Það eru eðlileg viðbrögð. Á árum áður var ég áskrifandi að DV. Þá var ég yngri og hafði gaman af slúðri og uppsláttarfréttum, en nú er það Mogginn, sakir vandaðrar fréttamennsku (oftast) og hófstilltrar umfjöllunar sem hefur orðið fyrir valinu. Ég geymi mér jafnvel Sunnudagsblaðið svo ég hafi eitthvað að lesa með sunnudagskaffinu.
Tilhlökkunin er þó blendin núorðið því sumir fréttamenn þess virðast hafa tekið RÚV sér til fyrirmyndar og látið af hlutleysi í fréttavali og frásagnarhætti. Ég tók fyrst eftir þessari breytingu á Mogganum eftir að Trump var kjörinn forseti 2016. Þá breyttist RÚV strax í fréttastöð demókrata og þar sem ég er hvorki höll undir ný-marxisma né heimsyfirráð Wall Street/Davos þá hafa málin þróast svo að ég hef misst alla löngun til að hlusta á fréttir þaðan, það veldur mér hreinlega líkamlegum óþægindum.
Stundina hef ég ekki keypt frá illgirnislegum árásum blaðamanna þar á Sigríði Andersen og Fréttablaðið læt ég yfirleitt liggja, því fátt er í því bitastætt. DV kemur ekki lengur til greina svo þá er aðeins Mogginn eftir (og reyndar Bændablaðið) og því skrifa ég þessa grein í þeirri eigingjörnu von að tvennan Moggi og sterkt mjólkurkaffi muni halda áfram að veita mér ánægju.
Það er skortur á hlutleysi í umfjöllun um Úkraínustríðið og gildishlaðið orðaval sem fer í taugarnar á mér. Stríðsæsingur Bandaríkjastjórnar hefur náð hingað, gegnum Reuters og AP væntanlega. Sigrast skal á Rússum og alls ekki semja um frið, sama hversu margir falla í valinn eða flýja land. Tillögum Elons Musk um að Krímskagi, sem Katrín mikla lagði undir Rússland 1783 en Krúsjeff skráði úkraínskan á sínum tíma, þrátt fyrir að 75% íbúa væru rússneskir, yrði viðurkenndur hluti af Rússlandi, kosningar í Donbas yrðu endurteknar undir eftirliti SÞ og Úkraína lýsti yfir hlutleysi var hreint ekki vel tekið. Úkraína skal sigra Rússa og ná yfirráðum yfir bæði austurhéruðunum og Krímskaga.
Eftir Maidan-stjórnarskiptin 2014 var lagt í stríð gegn íbúum austurhluta Úkraínu og Minsk-friðarsamkomulagið ekki virt. Lög voru sett þar 2019 sem með viðbótum afnema rétt rússneskumælandi fólks til að tala tungumál sitt. Rússneskri menningu og Rússum skyldi útrýmt í Donbas-héruðunum, sem flokkast undir þjóðarmorð. Bæði leiðtogar Vesturlanda og fjölmiðlar þeirra hvetja flestir til þess, líka Morgunblaðið. Hatur gegn Rússum og öllu sem rússneskt er er allsráðandi, jafnvel á köttum þeirra og trjám.
Í bók Orwells, 1984, á Eyjaálfa í stöðugu stríði gegn öðrum heimshlutum og haturssamstöðufundir haldnir daglega, og stundum hatursvikur, gegn hugmyndafræði Emmanuels Goldstein. Er okkur ekki líka stýrt til að hata? Saddam, Bin Laden og Gaddafi voru drepnir en Assad, Trump og Pútín lifa enn. Hergagnaiðnaður BNA blómstrar. Af hverju að mæla fyrir friði þegar sala á vopnum bætir efnahaginn og skilar peningum í kosningasjóði?
Morgunblaðið ætti þó að geta mælt fyrir friði; þar eru engir slíkir hagsmunir á ferðinni. Menn þurfa bara að hætta að trúa stóru bandarísku fréttastofunum eins og nýju neti. Samkvæmt Gallup hefur tiltrú Bandaríkjamanna sjálfra á fjölmiðlum sínum aldrei mælst minni. Menn líta ekki á þá sem hlutlausa.
Vinsamlega hættið að láta stýrast af hatursáróðri hagsmunahópa í Bandaríkjunum. Ég vil gjarnan geta haldið vana mínum og sest niður með miðdegiskaffibollann minn og opnað Moggann með tilhlökkun.
One Comment on “Bænakvak til fréttamanna Morgunblaðsins”
Mikil er trú þín kona…
Heldur þú virkilega að Morgunblaðið sé einrátt um sína ritsjórnarstefnu? Blað sem selst ekki neitt, og fær aðeins smásponslu í styrk frá Ríkinu sem ekki nægir einu sinn fyrir ofurlaunum ritstjórans. Trúir þú því kannski líka að hinir aurarnir komi frá útgerðarmannsekkju í Vestmannaeyjum, eða uppgjafapoppara frá Selfossi?
Neibb. málið er ekki alveg svo einfalt, það þarf að kafa örlítið dýpra.