Þórdís og Tucker: hægrimenn í leit að illskunni

frettinPáll Vilhjálmsson, Pistlar2 Comments

Páll Vilhjálmsson skrifar:

Þórdís Kolbrún utanríkis sér illsku Rússa sem rauðan þráð í Úkraínustríðinu. Tucker Carlson segir Selenski forseta og stjórnina í Kænugarði einræðisseggi sem banna heilaga þrenningu: kristni, fjölmiðla og stjórnarandstöðu.

Bæði teljast Þórdís Kolbrún og Tucker til hægrimanna. Íslenski utanríkisráðherrann flokkast til frjálslyndra hægrimanna en bandaríski sjónvarpsmaðurinn er íhaldsmaður.

Pólitísk orðræða, sem skiptir heiminum í gott og illt, höfðar til trúarlegrar sannfæringar um að jarðlífið sé eins og eilífðin, skiptist í himnaríki og helvíti.

En mannlífið er grátt, hvorki alillt né algott.

Óþurft er rétt greining á Úkraínustríðinu. Stríðið var ekki knýjandi nauðsyn heldur afleiðing röð mistaka, sem hófust vorið 2008 þegar leiðtogar Nató buðu Úkraínu og Georgíu inngöngu i hernaðarbandalagið.

Nató er hernaðarbandalag kalda stríðsins þegar Evrópu var, með nokkrum rökum, skipt í gott og illt, kommúnískt einræði og borgaralegt lýðræði. Þriðji heimurinn, vel að merkja, stóð að verulegum hluta utan tvískiptingarinnar.

Til að fá endurnýjun lífdaga urðu stórríki Nató að finna nýja illsku í heiminum að berjast við. Um aldamótin hét illskan hryðjuverk múslíma, sem réttlætti innrásir i Írak og Afganistan. Eftir 2008 á illskan heima í Moskvu og heitir Pútín.

Meintir vinir góða fólksins á vesturlöndum afhjúpa falskar andstæður góðs og ills. Stjórnvöld í Írak og Afganistan reyndust ekki, þegar nánar var að gætt, holdtekja góðmennskunnar heldur spilltir leppar vestrænna hagsmuna. Útreiðin sem Selenskí-stjórnin fær hjá Tucker Carlson sýnir að íhaldsmenn til hægri eru raunsærri en frjálslynda hægrið, sem Þórdís Kolbrún tilheyrir.

Þeir eru fleiri hægra megin í pólitíkinni en Tucker sem sjá hvert stefnir. Í bresku hægriútgáfunni Telegraph eru tekin að birtast sjónarmið ekki jafn stríðsóð og áður. ,,Vestrið má óttast rökhyggju Pútíns," skrifar dálkahöfundur Telegraph Owen Matthews.

Matthews fer með frjálslyndu rulluna að Pútín sé voðalegur maður en bætir við að hann sé rökvís og bjóði nú upp á langt stríð er reyna mun á vestrænu þolrifin.

Matthews upplýsir óafvitandi eitt helsta einkenni frjálslyndu góðmennskunnar. Ef góða fólkið tryði í raun og sann trúarjátningunni um gott og illt myndi það ekki hafa neinar áhyggjur af lengd Úkraínustríðsins. Hið góða hlýtur alltaf að sigra að lokum. Trúarjátningin er aðeins yfirvarp tækifærismennsku, sem er dómgreindarlaus og grunnhyggin.

Í alþjóðasamskiptum gildir grunnlögmál allt frá dögum Pelópsskagastríðsins á fimmtu öld fyrir Krist. Ríki mun, segir lögmálið, ávallt grípa ítrustu úrræði til að verja tilvist sína. Stækkun Nató ógnaði tilvist Rússlands. Afleiðingin var Úkraínudeilan, sem mátti leysa með samningum allt frá 2008. Trúarhroka fylgir einatt blóðsúthellingar.

Góða fólkið vill ekki skilja raunsæislögmálið. Það er þjakað af frelsunarblindu hins sanntrúaða um gott og illt. Bitamunur en ekki fjár er á milli frjálslyndu trúarjátningarinnar á vesturlöndum og íslamskra harðlínuklerka. Í báðum tilvikum er raunsæi útilokað. Í menningunni almennt ber töluvert á frjálslyndri útilokun. Klerkarnir geta þó borið allah fyrir sig sem afsökun. Frjálslynda heimsku þýðir ekki að bera á borð.

Utanríkisráðherra ætti að hyggja að sinni vegferð. Ef haldið er áfram í blindni skiptir engu hvort forysta stærsta stjórnmálaflokksins á Fróni verði í höndum Þórdísar Kolbrúnar eða Kristrúnar Frostadóttur. 

2 Comments on “Þórdís og Tucker: hægrimenn í leit að illskunni”

  1. Munurinn á þessum tveimur liggur í miklum muni á visku, þar semTucker Carlson veit hver sannleikurinn er, meðan Þórdís utanríkisráðherra lifir í sínum fantasíu fasista BNA NATO lyga heimi (heilaþveginn íslenskur stjórnmála kjáni).

Skildu eftir skilaboð