Málfrelsi – samtök um frjálsa og opna umræðu, lýðræði og mannréttindi efna til málfundar um stöðu tjáningarfrelsisins. Fundurinn verður haldinn í fyrirlestrasal Þjóðminjasafnsins laugardaginn 7. janúar og hefst kl. 14.
Þema fundarins er viðleitni stjórnvalda og stórfyrirtækja til að beita ritskoðun og þöggun til að hindra að óþægilegar upplýsingar komi fram, undir því yfirskyni að verið sé að vernda almenning.
Toby Young, aðstoðarritstjóri Spectator og formaður Free Speech Union á Bretlandi hefur verið afar gagnrýninn á aðgerðir stjórnvalda á tímum kórónuveirunnar og háð marga hildi gegn tilraunum til að þagga niður umræðu um málefnið. Síðastliðið haust var svo komið að Paypal greiðslumiðlunin lokaði reikningum hans vegna skoðana hans og í kjölfarið komst upp um fjölda slíkra aðgerða gagnvart einstaklingum og samtökum víðsvegar um heim. Toby Young fjallar um tjáningarfrelsi og persónulegt frelsi á tímum viðvarandi neyðarástands og ótta í erindi sem hann nefnir „How Pascal‘s wager has made slaves of us all“.
Ögmundur Jónasson fyrrum alþingismaður og innanríkisráðherra fjallar um ritskoðun og þöggun gagnvart málefnum stríðshrjáðra minnihlutahópa. Ögmundur hefur meðal annars í mörg ár tekið virkan þátt í að vekja athygli á málefnum Kúrda. Í erindi sínu fjallar hann um hvernig umfjöllun um baráttu þessa stríðshrjáða þjóðarbrots er markvisst þögguð niður af vestrænum stjórnvöldum.
Kristinn Hrafnsson ritstjóri Wikileaks fjallar um mál ástralska blaðamannsins Julian Assange, stofnanda Wikileaks, sem situr nú í einangrunarfangelsi á Bretlandi og bíður niðurstöðu í framsalsmáli Bandaríkjastjórnar gegn honum. Eins og alkunna er grundvallast málareksturinn á því að Assange varð fyrstur til að birta gögn sem afhjúpuðu stríðsglæpi Bandaríkjanna í Írak og Afganistan. Kristinn er nýkominn úr ferð um Mið- og Suður Ameríku til að afla málstað Assange fylgis.
Að erindum loknum svara frummælendur spurningum úr sal.
Aðgangur er ókeypis en við mælumst góðfúslega til þess að þeir sem ekki eru félagar í Málfrelsi láti eitthvað af hendi rakna félaginu til stuðnings.
Fundinum verður streymt hér: https://fb.me/e/590sNFp8Q
One Comment on “Samtökin Málfrelsi efna til málfundar um stöðu tjáningarfrelsisins”
Er Ögmundur á launum hjá Kúrdum? Hvað veit hann um Kúrda.
Kristinn hitti ég einu sinni, fyrir nokkrum árum síðan í “elítu” partíi. Hann vissi að ég væri sjómaður, og sem sannur fréttamaður á framabraut, spurði hann mig spjörunum úr.
Þegar hann áttaði sig á því að ég hafði ekkert illt um útgerðina sem ég vann hjá að segja, hafði hann engan áhuga á að tala við mig meira. Fyrir mitt leiti, þá treysti ég þessum mönnum ekki til að “frelsa oss frá illu”.