Dollarastyrjaldirnar miklu

Erna Ýr ÖldudóttirErlent, Erna Ýr Öldudóttir, Olíuviðskipti, Orkumál, Úkraínustríðið, Utanríkismál2 Comments

Þýdd umfjöllun eftir Oleg Nesterenko, sjá nánar neðst.

Það er auðvelt fyrir fulltrúa Vesturlanda að fylkja sér um frásögn NATO af uppruna vopnaðra átaka í Úkraínu. Að hafa ekki uppi óþægilegar efasemdir eða láta reyna á forsendurnar sem stýra almenningsálitinu.

Að stíga út fyrir þennan vitsmunalega þægindaramma, er mikilvæg æfing fyrir þá sem leita sannleikans, en hann getur verið verulega frábrugðinn orðræðu ráðandi afla.

Ekki verður farið út í alla sögulega þætti deiluaðila í þessari greiningu, sem vissulega eru mikilvægir og hafa leitt til árekstra sem heimurinn er að fást við í dag. Ég vil draga fram hið dulda en raunverulega ríkjandi hlutverk lykilaðila í þessum átökum: Bandaríki Norður-Ameríku.

Ekki er allt sem sýnist, ekkert stríð sögunnar byrjaði af nokkurri einni ástæðu. 

Kjarninn í öllum stórum átökum er marglaga, með fjölmörgum orsökum og undirmarkmiðum innan ramma aðalmarkmiðsins, sem nær oft langt út fyrir stríðið sjálft.

Kveikjan, samkvæmt yfirlýsingum deiluaðila, er aðeins endurspeglun á hápunktinum, toppurinn á ísjaka djúpstæðs ágreinings, sem ekki verður leystur með diplómatískum hætti, heldur hið gagnstæða: Diplómatísk lausn hans yrði hindrun á að ná fyrirfram ákveðnum og vandlega huldum markmiðum.

Lýðræði komið á fót

Í grundvallaratriðum halda Bandaríkin og restin af Vesturlöndum því fram, að orsök vopnaðra átaka í heiminum, að frumkvæði þeirra, sé stofnun réttarríkis, einstaklingsfrelsi, sameiginlegt frelsi og lýðræði, í ríkjum harðstjórnar, einræðis og villimennsku.

Engar áhyggjur, lýðræðið er á leiðinni!

Með því að greina samanlagt meira en fimmtíu styrjaldir og vopnuð inngrip frá lokum Síðari heimsstyrjaldar, beint eða óbeint fyrir tilstilli Bandaríkjanna og/eða fylgitungla þeirra, fæst þessi lokaniðurstaða:

  • Annað hvort eru Bandaríkin óhemju léleg í að ná fyrirfram ákveðnum markmiðum sínum - vegna þess að þau nást aldrei;
  • Eða þá að sannar orsakir stöðugrar eyðingar annarra heimshluta hafa ekkert með yfirlýst markmið að gera.

Fjölmörg dæmi eru um „framkvæmd“ þessara markmiða, en lokaniðurstöður þeirra eru vel þekktar. Við getum nefnt stríðin í Kóreu og Kína, Gvatemala, Víetnam og Kambódíu, Írak, Bosníu og Serbíu, Afganistan, Líbýu og Sýrlandi.

Svo ekki sé minnst á „óbein“ afskipti Bandaríkjanna eins og sprengjuárásir á óbreytta borgara á Kúbu, í Kongó, Laos, Grenada, Líbanon, El Salvador, Níkaragva, Íran, Panama, Kúveit, Sómalíu, Súdan, Jemen og Pakistan.

Þessi listi er engan veginn tæmandi, vegna þess að hann tekur ekki tillit til fjölmargra dulinna aðgerða úti um allan heim til að koma á „lýðræðislegum gildum og mannréttindum“.

Lesendum brygði í brún, ef þeir sæju uppgjör á lífsgæðum hinna „frelsuðu“ samfélaga fyrir og eftir að ferli „lýðræðisvæðingar“ lýkur.

Viðgangur Bandaríkjanna

Bandaríska þjóðin sjálf er hlý og vingjarnleg. Það vita allir sem hafa átt viðkynningu og samskipti við fulltrúa hennar. Þar með talinn ég sjálfur, sem er svo heppinn að þekkja fjölda Bandaríkjamanna, prýdda mannkostum og gildum sem ég ber hlýhug til og djúpa virðingu fyrir. Þó verður því ekki neitað að hugsanafrelsi yfirgnæfandi meirihluta bandarísku þjóðarinnar, veltur á áratugalöngum ríkisáróðri. Honum er mokað í gegnum nánast allar mögulegar upplýsingaleiðir, sem beinlínis er stjórnað af bandaríska „djúpríkinu“ og hagsmunagæslumönnum þess. Þessir aðilar sækjast eftir eigin markmiðum fyrir hönd bandarísku þjóðarinnar.

Göfugar ástæður vopnaðra inngripa Bandaríkjanna í heiminum, eins og þær eru kynntar fyrir Bandaríkjamönnum, eru ekki mikið frábrugðnar þeim sem auglýstar eru á alþjóðavettvangi.

Andstætt frásögnum sumra gagnrýnenda Bandaríkjanna, er hin raunverulega ástæða endurtekinna stórfelldra fjöldamorða - það er erfitt að kalla vinnubrögð þeirra annað - er ekki sem slík grundvallar lokamarkmið um heimsyfirráð, heldur það að halda yfirráðum.

Í raun er aðalástæðan miklu raunsærri: Til að Bandaríkin þrífist.

Ekki einungis veltur tilvist ríkisins á þessu, heldur einnig innviðanna sem afla ofurgróða fyrir elítuna annars vegar, og hins vegar til að lifa af sem módel með lífskjör sem landið aflaði sér eftir lok Kreppunnar miklu. Hún endaði með því að Síðari heimsstyrjöldin braust út og hergagnaiðnaðurinn endurlífgaði bandarískt efnahagslíf.

Þetta er einfaldlega útilokað án hernaðar-efnahagslegs, eða réttara sagt, hernaðar-fjármála drottnunar yfir heiminum.

Það er engin söguleg tilviljun að hernaðarfjárlög Bandaríkjanna, sem kölluð eru útgjöld til varnarmála, séu meira en þriðjungur af samanlögðum útgjöldum alls heimsins til varnarmála. Þetta er afgerandi þáttur í því að verða að viðhalda fjármálayfirráðum á heimsvísu.

Hugmyndin um að þrauka með heimsyfirráðum var sett fram í lok Kalda stríðsins af Paul Wolfowitz, varnarmálaráðherra Bandaríkjanna, með Wolfowitz-kenningunni. Hann leit á Bandaríkin sem eina stórveldið sem eftir var í heiminum, og meginmarkmiðið væri að verja þá stöðu: að fyrirbyggja að nýr keppinautur birtist aftur, annaðhvort á yfirráðasvæði fyrrum Sovétríkjanna eða annars staðar, þar sem hann myndi ógna stöðunni eins Sovétríkin gerðu áður.“

Djúpar stoðir átakanna í Úkraínu

Hlutverk háfleygrar orðræðu er að höfða til tilfinninga vestræns almennings, til að afla samþykkis. En skoðum hinar raunverulegu ástæður, djúpu stoðirnar í nýjasta ágreiningnum sem þjónar tilvist Bandaríkjanna: Átökin í Úkraínu.

Þessar djúpu, innbyrðis háðu stoðir eru þrjár:

  • Viðhald heimsyfirráða bandaríska fjármálakerfisins,
  • Veiking efnahags ESB með hámarks eyðileggingu á samskiptum Rússlands og ESB
  • Veruleg veiking á stöðu Rússlands innan ramma framtíðarátaka við Kína.

Allir aðrir bandarískir þættir núverandi átaka í Úkraínu, eins og hagsmunagæsla hergagnaiðnaðarins, landvinningar nýrra orkumarkaða, verndun gríðarlegra bandarískra eigna í Úkraínu, spillingaráform, endurvakning rússófóbíu bandarískrar elítu, innflytjendastefna með Austur-evrópubúum o.fl. - virðast mér vera aðeins viðbætur, afleiður og afleiðingar af hinum þremur helstu orsökum sem upp eru taldar.

Fyrsta af þremur undirliggjandi stoðum átakanna í Úkraínu: Að viðhalda heimsyfirráðum bandaríska fjármálakerfisins.

Yfirráð bandaríska fjármálakerfisins á heimsvísu byggjast á nokkrum þáttum, þar á meðal er útrás bandarískrar lögsögu, bandarísk ríkisskuldabréf og bensíndollarinn.

Það er útilokað að átta sig á og skilja hinar sönnu ástæður, ekki aðeins átakanna í Úkraínu, heldur einnig orsakir næstum allra styrjalda sem urðu fyrir tilstilli Bandaríkja Norður-Ameríku, án nákvæmrar sýnar á nefnda þætti. Skoðum þau í smáatriðum.

Dollarinn og útrás bandarískrar lögsögu sem vopns í efnahagslegum hernaði

Hugtakið útrás bandarískrar lögsögu, er beiting bandarískra laga utan landamæra Bandaríkjanna. Það gerir bandarískum dómurum kleift að hefja málsmeðferð vegna atvika sem eiga sér stað hvar sem er í heiminum.

Grundvöllur fyrir lögfræðilegum inngripum er að bandarískur gjaldmiðill var notaður í viðskiptunum.

Þannig veitir kerfi utanríkislögsögu bandarískra laga bandarískum fyrirtækjum meiriháttar samkeppnisforskot. Þetta er kolólöglegt samkvæmt alþjóðlegum lögum um viðskipti, en fullkomlega löglegt samkvæmt bandarískum lögum.

Hvernig virkar það?

Útrás bandarískra laga skuldbindur erlend fyrirtæki sem notast við Bandaríkjadali í starfsemi sinni, til hlíta bandarískum stöðlum, og lúta eftirliti og stjórn bandaríska ríkisins. Þetta gerir þeim kleift að gera efnahags- og iðnaðarnjósnir löglegar, og framkvæma aðgerðir sem stöðva þróun keppinauta bandarískra fyrirtækja.

Þegar bandaríska dómsmálaráðuneytið ákærir, þurfa erlend fyrirtæki sem eru sótt til saka að „laga“ stöðu sína með því að taka á sig eftirlit í nokkur ár samfleytt samkvæmt „hlýðniáætlun“.

Til að koma á heimsyfirráðum eru ótal málaferli höfðuð án nokkurra efnislegra ástæðna, á meðan raunverulegur tilgangur er aðgangur að trúnaðarupplýsingum samkeppnisaðila og efnahagsleg afskipti.

Með því að girða svona niður um erlend fyrirtæki sem bandarískir aðilar fá áhuga á, með hótun um háar bandarískar sektargreiðslur, setur bandarískt réttlæti fórnarlömbin í þá stöðu, að geta ekki varist yfirtöku bandarískra fyrirtækja til að forðast alvarlegt fjárhagslegt tjón.

Bandarísk ríkisskuldabréf og benzíndollarinn

Í bókhaldi er til hugtakið slæmar skuldir.

Bandarískir ríkisvíxlar eru skuldabréf sem eru keypt og innleyst í Bandaríkjadölum og eru í meginatriðum slæmar skuldir .

Hvers vegna?

Í dag eru ríkisskuldir Bandaríkjanna komnar yfir 31 billjón dollara og halda áfram að bólgna um nokkra milljarða á dag. Þessi tala er talsvert hærri en árleg landsframleiðsla Bandaríkjanna. Þannig er megnið af verðbréfum sem gefin eru út af bandaríska fjármálaráðuneytinu afar vafasöm verðmæti, því þau eru háð endurgreiðslu í dollurum. Útgáfa hans er að mestu ekki studd af neinum haldbærum eignum.

Gjaldþol bandarískra ríkisskuldabréfa er þannig eingöngu tryggt með peningaprentun og trausti á Bandaríkjadal, sem byggir ekki á raunvirði hans, heldur á heimsyfirráðum Bandaríkjahers.

En hvað með Rússland?

Frá því að Vladimir Pútín komst til valda hefur Rússneska sambandsríkið hafið stigvaxandi sölu á bandarískum ríkisskuldabréfum. Síðan 2014, upphafsári átakanna sem Bandaríkjamenn framkölluðu í Úkraínu með valdaráni, hafa Rússar losað sig við nánast öll ríkisskuldabréf. Rússland var árið 2010 einn af tíu stærstu eigendum bandarískra ríkisskuldabréfa, með meira en 176 milljarða dollara. Árið 2015 var eignin komin í um 90 milljarða dollara, þ.e. heildarmassi þessara eigna hafði helmingast á fimm árum. Í dag er Rússland aðeins með um tvo milljarða bandaríska skulda, sem er afar lág upphæð, sambærileg við stærðfræðiskekkju á heimsmarkaði fyrir ríkisskuldabréf.

Ýmsum brá í brún við að sjá Rússland losa sig hratt við Bandarísk ríkisskuldabréf árið 2018.

Samhliða Rússneska sambandsríkinu er Alþýðulýðveldið Kína einnig smám saman að losa sig við þennan varasama skuldara. Árið 2015 átti Kína meira en 1270 milljarða dollara af bandarískum skuldabréfum, í dag er þessi upphæð undir 970 milljörðum, þ.e. fjórðungs lækkun á sjö árum. Skuldabréf Bandaríkjanna í eigu Kína eru í tólf ára lágmarki.

Samhliða því að losa sig við bandarísk ríkisskuldabréf hóf Rússneska sambandsríkið smám saman ferli til að losa heiminn úr benzíndollara-kerfinu.

Grimm hringiða er farin af stað. Losun benzíndollara-kerfisins veldur verulegu áfalli fyrir bandaríska ríkisskuldabréfamarkaðinn. Minni eftirspurn eftir Bandaríkjadal á alþjóðavettvangi mun sjálfkrafa valda gengisfellingu gjaldmiðilsins og í raun minnkandi eftirspurn eftir ríkisvíxlum í Washington. Það leiðir sjálfkrafa til hækkunar á vöxtum, sem gerir það ómögulegt að fjármagna núverandi skuldir bandaríska ríkisins.

Gagnrýnendur þess, að gengislækkun Bandaríkjadals gagnvart öðrum gjaldmiðlum muni valda miklu tjóni á bandarísku hagkerfi, halda því fram að veikari dollar muni leiða til verulegrar aukningar útflutnings. Það muni gagnast bandarískum framleiðendum og draga úr vöruskiptahallanum.

Hafi þeir rétt fyrir sér varðandi jákvæð áhrif gengisfellingar dollarans á bandarískan útflutning, hafa þeir í meginatriðum rangt fyrir sér varðandi óhjákvæmilega eyðileggingu ferlisins á bandarískt hagkerfi. Afstaða þeirra lítur fram hjá einu grundvallaratriði: Bandaríkin hafa verið á braut af-iðnvæðingar í marga áratugi. Jákvæð áhrif á útflutning verða sáralítil í ljósi gífurlegs vöruskiptahalla, sem þegar árið 2021 náði hámarki í sögu Bandaríkjanna. Gengisfelling dollars þýðir að kostnaður við innflutning á öllum stigum, mun valda algeru hruni.

Þannig er „uppgjör“ við tvo sökudólga í stöðunni - Rússland og Kína - lykilatriði fyrir framhaldslíf Bandaríkjanna.

Benzíndollarar

Þegar Bretton Woods-samningarnir frá 1944 leystust upp árið 1971, fór alþjóðleg eftirspurn eftir Bandaríkjadal að dragast mjög hættulega saman fyrir bandaríska hagkerfið. Bandaríkin urðu að leita annarra leiða til að auka alþjóðlega eftirspurn eftir gjaldmiðlinum.

Leiðin fannst. Árið 1979 fæddist „benzíndollarinn“ sem hluti af samkomulagi Bandaríkjanna og Sádi-Arabíu um efnahagssamvinnu: „Olía fyrir dollara“. Sem hluta af þessum samningi, skuldbatt Sádi-Arabía sig til að selja olíu eingöngu í Bandaríkjadölum. Til viðbótar að endurfjárfesta umframforða af bandarískum gjaldeyri í bandarískum ríkisskuldabréfum og bandarískum fyrirtækjum.

Í staðinn tóku Bandaríkin á sig skuldbindingar og ábyrgðir fyrir varnarmál Sádi-Arabíu.

Í kjölfarið var „olía fyrir dollara“ samningurinn víkkaður út til annarra OPEC-ríkja, án frekari skuldbindinga fyrir Bandaríkin. Það leiddi til veldisvaxtar á útgáfu Bandaríkjadals. Smám saman varð dollarinn helsti viðskiptagjaldmiðill heims og aðrar vörur, sem tryggði honum sess sem varagjaldmiðill heimsins. Þetta veitti Bandaríkjunum óviðjafnanlega yfirburði og gífurleg forréttindi.

Nýlega urðum við vitni að stefnumarkandi slitum á samskiptum Bandaríkjanna og Sádi-Arabíu, sem stafar af nokkrum stórum þáttum. Þar á meðal er mjög verulegur samdráttur á hráolíuinnflutningi Bandaríkjanna, þar sem Arabía var stærsti birginn. Endalok stuðnings Bandaríkjamanna við Sádi-Arabíu í stríðinu gegn Jemen auk fyrirætlana Joe Biden Bandaríkjaforseta um að bjarga kjarnorkusamningnum við Sjíta-múlla Írans, svarna óvini Súnníta Saudi-Arabíu.

Joe Biden Bandaríkjaforseti og krónprins Saudi-Arabíu Mohammed bin Salman heilsuðust með hnefunum í fyrrasumar.

Þessi þreföldu „svik“ Bandaríkjanna voru áfall fyrir konungsríkið, sem tekur heiður mjög alvarlega í tvíhliða samskiptum. Stefnumarkandi ágreiningur landanna náði hámarki þegar stríðið hófst í Úkraínu. Yfirvöld í Sádi-Arabíu stóðu frammi fyrir tilvistarlegu vali: Að halda áfram að eltast við Bandaríkin, eða ganga í herbúðir helstu andstæðinga þeirra, Kína og Rússlands. Seinni kosturinn varð fyrir valinu.

Ólíkt Ameríku, sem vanrækti stefnumarkandi hagsmuni Sádi-Arabíu, jók Kína samvinnuna við Sádi-Arabíu. Þessi tvíhliða samskipti eru ekki takmörkuð við jarðefnaeldsneytisgeirann, heldur munu þau stækka verulega á sviði innviða, viðskipta og fjárfestinga. Ekki hið einasta er mikil kínversk fjárfesting í Arabíu stöðugt að aukast. Kína er um þessar mundir að kaupa næstum fjórðung af alþjóðlegum olíuútflutningi konungsríkisins, og ætlar ríkissjóður konungsríksins að ráðast í verulegar fjárfestingar í kínverskum fyrirtækjum í stefnumótandi geirum.

Samhliða þessu, í ágúst 2021, var undirritaður samningur um hernaðarsamvinnu á milli Sádi-Konungsríkisins og Rússlands.

Líkt og Rússland hefur Sádi-Arabía farið þá leið að hætta að nota dollara í fjárfestingum og viðskiptum við Kína.

Sameiginlegar og samstilltar aðgerðir Rússlands, Kína og OPEC ríkjanna á braut stigvaxandi af-dollaravæðingar náðu miklum skriðþunga þegar átök brutust út í Úkraínu. Gríman féll og skapaði öldu hamfara sem mun falla af fullum þunga á heimsyfirráð bandaríska fjármálakerfisins í framtíðinni. Seðlabönkum margra landa býðst nú að endurhugsa rökfræði forðasöfnunar og traust á bandarískum ríkisskuldabréfum.

Stríðsyfirlýsing gegn Bandaríkjadal

Hernaðaraðgerðirnar í Úkraínu gegn Rússlandi og komandi stríð á Asíu-Kyrrahafssvæðinu gegn Kína eru ekkert annað en hluti af viðbrögðum Bandaríkjanna. Þau líta á aðgerðir Rússlands og Kína gegn heimsyfirráðum bandaríska gjaldmiðilsins sem hina raunverulegu stríðsyfirlýsingu.

Rétt er hjá Bandaríkjunum að taka þessa vendingu grafalvarlega, þar sem að flóttinn mikli úr bandarískum ríkisskuldabréfum, ásamt stigvaxandi titringi í benzíndollarakerfinu vegna Rússlands og Kína, er ekkert minna en upphafið á endalokum fyrir Bandarískt hagkerfi eins og við höfum þekkt það frá lokum Síðari heimsstyrjaldarinnar - upphafið að endalokum Bandaríkjanna eins og við þekkjum þau í dag.

Lönd sem hafa vogað sér að ögra heimsyfirráðum bandaríska fjármálakerfisins áður hafa greitt dýru verð fyrir dirfsku sína.

Erfiðleikarnir eru að Rússneska sambandsríkið, eins og Alþýðulýðveldið Kína, eru herveldi sem ekki er hægt að ráðast beint á undir neinum kringumstæðum - það væri feigðarflan. Aðeins umboðsstríð og blendingsstríð geta átt sér stað gegn þessum tveimur löndum.

Í dag erum við í „rússneska áfanganum“, á morgun verðum við í „kínverska fasa“ árekstranna.

Það er mikilvægt að hafa í huga að atburðirnir í Úkraínu eru alls ekki fyrsta, heldur þriðja stórstyrjöld Bandaríkjadals  að ógleymdum tveimur „köldu“ dollarastríðunum.

Hvaða stríð eru það, önnur en þau sem við sjáum í dag?

Það eru stríðið í Írak og stríðið í Líbýu. „Köldu“ dollarastríðin tvö eru gegn Íran og Venezúela.

Fyrsta stóra dollarastríðið

Fyrsta dollarastríðið var Íraksstríðið. Leggjum frá okkur tilraunaglasið fræga, með ímynduðum miltisbrandi, sem Colin Powell, þá utanríkisráðherra Bandaríkjanna, hristi framan í Sameinuðu þjóðirnar þann 5. febrúar 2003, til að eyðileggja landið og myrða írösku þjóðina. Rifjum upp staðreyndir fjarri bandarískri fantasíu.

Í október árið 2000 tilkynnti Saddam Hussein Íraksforseti að hann væri ekki lengur tilbúinn að selja olíu fyrir Bandaríkjadali. Orka landsins yrði framvegis eingöngu seld í evrum.

Yfirlýsingin jafngilti því að undirrita dauðadóm hans.

Samkvæmt viðamikilli rannsókn á vegum American Civil Liberties Union og American Journalism Independence Foundation, gáfu bandarísk stjórnvöld á árunum 2001 til 2003 út 935 rangar yfirlýsingar um Írak. Þar af komu 260 þeirra beint frá George W. Bush. Af 260 vísvitandi röngum yfirlýsingum forseta Bandaríkjanna vörðuðu 232 þeirra tilvist gereyðingarvopna í Írak, sem ekki voru til.

Froða Colin Powell, eftir 254 rangar staðhæfingar hans um sama efni, var aðeins hápunktur langrar og ítarlegrar mótunar innlends og alþjóðlegs almenningsálits fyrir óumflýjanlega eyðileggingu írösku ógnarinnar sem steðjaði að bandaríska gjaldmiðlinum .

Saddam Hussein framdi „glæp“ sinn í febrúar 2003 með því að selja meira en 3 milljarða tunna af hráolíu fyrir 26 milljarða evra. Mánuði síðar gerðu Bandaríkin innrás og gjöreyddu Írak. Hörmuleg eyðilegging sem varð á öllum innviðum landsins og mikill fjöldi látinna eru vel þekktar staðreyndir á meðal almennings. Enn þann dag í dag halda bandarísk yfirvöld því staðfastlega fram að innrásin hafi nákvæmlega ekkert haft að gera með vilja Íraka til að losna undan benzíndollarakerfinu.

Miðað við algjört refsileysi fyrir glæpi gegn mannkyni sem framdir eru af hverri ríkisstjórn Bandaríkjanna á fætur annarri, þá nenna þær ekki einu sinni að skálda upp ástæður sem verðskulda minnsta trúverðugleika í augum alþjóðasamfélagsins.

Staðreyndirnar eru vel þekktar og við gætum hætt þar. En til að gera ferlið við að „verja“ bandaríska hagsmuni enn skýrara, þar á meðal atburði líðandi stundar í Úkraínu, skulum við líka skoða hið næstsíðasta - annað dollarastríðið mikla - stríðið í Líbýu .

Annað stóra dollarastríðið

Sex ár voru liðin frá því að írösku ógninni var útrýmt - ný tilvistarógn við Bandaríkjadal birtist hjá manni sem neitaði að læra lexíuna af hörmulegum örlögum Saddam Hussein: Muammar Gaddafi.

Árið 2009, lagði Muammar Gaddafi, þá forseti Afríkusambandsins, Afríkuríkjunum til raunverulega peningabyltingu. Hún átti alla möguleika á að breyta örlögum álfunnar. Hugmyndinni var mætt af miklum eldmóð. Komist yrði hjá yfirráðum Bandaríkjanna með því að stofna afrískt myntbandalag. Útflutningur á olíu og öðrum afrískum náttúruauðlindum yrði aðallega greiddur með gulldínarnum, nýjum gjaldmiðli sem yrði borinn uppi af gullforða og öðrum verðmætum álfunnar.

Að fordæmi arabísku OPEC-ríkjanna, sem eiga sína sjálfstæðu olíusjóði, hafa afrísk olíuframleiðsluríki, fyrstir olíu- og gasrisarnir - Angóla og Nígería - hafið ferli við að stofna sína eigin þjóðarsjóði á kostnað olíuútflutnings tekna. Alls tóku 28 afrísk olíu- og gasframleiðslulönd þátt í verkefninu .

Gaddafi misreiknaði sig alvarlega og ekki einungis „jarðaði“ það gulldínarinn, heldur kostaði hann sjálfan lífið.

Hann gerði lítið úr þeirri staðreynd að annars vegar fyrir bandaríska ríkið og hins vegar fyrir „djúpríkið“ Wall Street og Lundúnaborg væri algjörlega útilokað að leyfa þessu verkefni að verða að veruleika.

Það myndi ekki aðeins setja bandaríska gjaldmiðilinn í tilvistarkreppu, heldur myndi það einnig svipta New York og Lundúnabankana venjulegu fjárstreymi upp á billjónir dollara, sem kemur frá útflutningi á hráefni frá Afríku. Þannig var Bretland fullkomlega samstíga Bandaríkjunum í löngun sinni til að eyða aflinu sem ógnaði velferð þeirra.

Eftir að „bandamenn“ ákváðu að eyða hinni nýju ógn höfðu þeir litlar áhyggjur af hinni undarlega tímasettu tilviljun í augum áhorfenda. Meira en 40 ára aðgerðaleysi gegn Gaddafi, sem komst til valda árið 1969. En um leið og hann kynnir byltingu í fjármálum fyrir Afríkusambandinu - brýst umsvifalaust út ný borgarastyrjöld í Líbýu.

Eftir glæpsamlega innrás í Írak, og eyðileggingu landsins á grundvelli vísvitandi og grófra lyga, sem bandaríska ríkið dreifði hjá Sameinuðu þjóðunum árið 2003 fyrir milligöngu Colin Powell um svokölluð gereyðingarvopn í eigu Saddams Husseins, voru Bandaríkin ekki tilbúin að endurtaka sama mynstur aðgerða. Þau neyddust til að auka fjölbreytni í framkvæmd innrásarinnar, til að setja sig ekki aftur of augljóslega í stöðu stríðsglæpamanna.

Á sama tíma og nýja „Arabíska vorið“ í Líbýu náði að algjörlega að kæfa hersveitir líbýska ríkisins, notuðu Bandaríkjamenn, sem enn voru í skugganum, fylgitungl og handbendi sín. Frakkland, Stóra-Bretland og Líbanon - veiddu upp úr gleymsku ályktun öryggisráðs Sameinuðu þjóðanna gegn Líbýu frá 1973 - fyrir meira en 35 árum - um að ráðast á og eyðileggja landið.

Sjálf framkvæmd þessa verkefnis braut í bága við eigin, nýsamþykkta ályktun Sameinuðu þjóðanna. Í stað þess að koma á flugbanni yfir Líbýu, eins og kveðið var á um í ályktuninni, átti sér stað bein loftárás á hernaðarleg skotmörk á jörðu niðri. Þessar árásir voru fullkomlega ólöglegar og brutu algjörlega í bága við alþjóðalög. Þeir sem greiddu atkvæði með aðlögun ályktunarinnar voru staðfastlega sannfærðir af höfundunum um að tilgangur aðgerðanna væri eingöngu að koma á flugbanni til að vernda almenna borgara, en ekki til að sigra Gaddafi og/eða eyðileggja herinn hans.

Þetta þýðir að Bandaríkin, í skjóli fylgitungla sinna, lugu enn og aftur að Sameinuðu þjóðunum, til að fá lagalegar forsendur fyrir því að hefja styrjöld samkvæmt skipulagðri áætlun um að eyða nýju ógninni við Bandaríkjadal.

Sú staðreynd, að hinir raunverulegu frumkvöðlar um að eyðileggja Líbýu árið 2011 voru Bandaríkin og enginn annar, var opinbert leyndarmál.

Síðan Wikileaks birti bréfaskiptin milli Hillary Clinton, fyrrverandi utanríkisráðherra Bandaríkjanna, og Sid Blumenthal, ráðgjafa hennar um þetta mál 2. apríl 2011, reis „leyndarmálið“ upp úr djúpinu. Clinton var lykilmaður í samsæri Vesturlanda gegn Muammar Gaddafi Líbýuleiðtoga og sérstaklega gegn hinum nýja samafríska gjaldmiðli - hinni beinu ógn við Bandaríkjadal.

Blumenthal ritaði til Clinton: „Samkvæmt trúnaðarupplýsingum sem fengnar eru frá þessum aðilum á Gaddafi-stjórnin 143 tonn af gulli, auk sambærilegra fjáreigna ... Þetta gull safnaðist fyrir uppreisnina og var ætlað að búa til sam-afrískan gjaldmiðil, byggðum á líbýska gulldínarnum“.

Eins og ég nefndi áður hefur ekkert stríð eina ástæðu. Um tilfelli stríðsins gegn Gaddafi gilti það sama: Ein af viðbótarástæðum þess var persónulegur metnaður Hillary Rodham Clinton fyrir því að gegna hlutverki „járnfrúar“ í bandarísku stjórnmálaumhverfi í aðdraganda komandi forsetakosninga. Þetta stríð jafngilti yfirlýsingu frá flokknum hennar: „Sjá, mér tókst að mylja heilt land mélinu smærra. Verið því viss um að ég er fullfær um að leiða kosningabaráttuna.“ Í apríl 2015 tilkynnti Clinton um framboð sitt til forseta og í júlí 2016 var hún formlega tilnefnd af Demókrataflokknum.

Í seinna dollarastríðinu mikla var ekki aðeins framtíð Líbýu, heldur framtíð allrar álfu Afríku, fórnað á altari velferðar bandaríska hagkerfisins .

Allir þeir sem ógna bandaríska fjármálakerfinu skulu hverfa ef þeir eru ekki nógu burðugir til að berjast á móti.

Hins vegar, ef við erum að tala um styrk sem ekki verður beinlínis brotinn - eins og var gert í Írak og Líbýu - eru þróaðar og framkvæmdar óbeinar fjölþættar stórfelldar árásir. Ávallt í skugganum, til að sýna þann sem verður fyrir árásinni sem árásaraðila, til að veikja hann það mikið efnahagslega að sá síðarnefndi neyðist til að hætta við áform sín um að berjast gegn yfirráðum dollarans og neyðist til að einbeita sér að lausn annarra vandamála.

Önnur af þremur djúpum stoðum átakanna í Úkraínu: Veiking efnahags ESB með hámarks eyðileggingu á samskiptum þess við Rússland.

Valdarán í Úkraínu

Hámarks og langvarandi eyðilegging á samskiptum Rússlands og Evrópu, sérstaklega Þýskalands, þungamiðju evrópsks efnahagsveldis, er stefnumarkandi markmið Bandaríkjanna til að knýja fram veikingu helsta beina keppinautar Bandaríkjamanna á heimsmörkuðunum - Evrópusambandsins.

Ég vil undirstrika að ég er á engan hátt að gefa í skyn að þau landfræðilegu svæði sem bandarísk „hagsmunir“ miða við skorti lýðræði og persónulegt frelsi, sérstaklega í vestrænu formi.

Fullyrðing mín er sú að tilvist eða fjarvera þessara göfugu hugtaka sé á engan hátt hluti af eða orsök yfirgangs Bandaríkjamanna og sé ekkert annað en auglýst yfirvarp.

Það eru mörg sláandi dæmi um raunverulega blóðug einræðisríki, höfunda miðaldalöggjafar, sem trufla þau vestrænu ríki sem hverfast um Bandaríkin ekki hið minnsta. Þau eru jafnvel studd á virkan hátt af þeim síðarnefndu af þeirri einföldu ástæðu að þau lúta bandarískri utanríkisstefnu.

Eftir að hafa skipulagt og framkvæmt valdarán í skjóli „litabyltinga“ í Júgóslavíu árið 2000 og í Georgíu árið 2003, var „Appelsínugula“ byltingin skipulögð af Bandaríkjunum í Úkraínu árið 2004. Markmiðið var að steypa af stóli hófsamri miðju-hægri stjórn sem var að mestu hliðholl Rússlandi, og í framhaldinu stofnun „and-Rússlands“. Sett yrði á fót ný ríkisstjórn rússófóbískra öfgaþjóðernishreyfinga til að gera það mögulegt að fylgja stefnu sem uppfyllir bandarísk stefnumarkmið.

Viktor Yanukovych komst til valda í Úkraínu árið 2010, með alþjóðlega stefnu sem var vinsamleg Rússlandi. Þannig skapaðist þörf fyrir nýja „byltingu“. Með því að nýta sér fjöldamótmæli árið 2014, rændu Bandaríkin völdum og endurreistu í grundvallaratriðum rússófóbíska ofur-þjóðernissinnaða ríkisstjórn.

Valdarán Bandaríkjanna er engar getgátur, heldur margsönnuð staðreynd. Ekki aðeins hafa komið fram nokkrar yfirlýsingar háttsettra bandarískra embættismanna í þessum efnum frá upphafi stríðsins í dag. Alveg aftur til ársins 2014 finnum við beina staðfestingu á þessu. Sönnunargögn eins og upptaka af símtali sem rússneskar leyniþjónustur hleruðu og dreifðu, er samtal milli Victoria Nuland, aðstoðarutanríkisráðherra Bandaríkjanna í Evrópu og Evrasíu, og Jeffrey Ross Pyatt, sendiherra Bandaríkjanna í Úkraínu árið 2014. Símaupptaka þar sem Nuland og Pyatt útbýta stöðum í nýja úkraínska ríkisstjórn og gerir bandarísk stjórnvöld aðila að valdaráni.

Andstæðingar Rússlands vilja efast um áreiðanleika upptökunnar, en það er ómögulegt vegna þess að Victoria Nuland gerði alvarleg mistök. Í stað þess að þræta staðfastlega fyrir sannleiksgildi upptökunnar, þar hún móðgar meðal annars ESB, gaf Nuland út formlega afsökunarbeiðni og staðfesti þannig áreiðanleika upptökunnar.

Til viðbótar sagði hinn afar umdeildi George Soros í viðtali við CNN seint í maí 2014, að útibú stofnunar hans í Úkraínu „hafi gegnt mikilvægu hlutverki í þeim atburðum sem nú eiga sér stað í Úkraínu.“

Valdaránið og stofnun „and-Rússlands“ í Úkraínu, framkvæmt af Bandaríkjum Norður-Ameríku, gat ekki annað en kallað fram stefnumótandi mótvægisaðgerðir af hálfu Rússlands. Mótvægisaðgerðir sem við höfum vitað um síðan 2014 og náðu hámarki í febrúar 2022.

Skemmdarverk á efndum Minsk-samninganna

Ef farið yrði eftir Minsk-samningunum, sem myndu koma á varanlegum friði í Úkraínu, yrði það alvöru alþjóðapólitískt stórslys fyrir Bandaríkin, með víðtækum slæmum efnahagslegum afleiðingum. Misbrestur á efndum samninganna var í laumi mikilvægt atriði fyrir bandaríska hagsmuni.

Frá 2015 til 2022, innan ramma Normandí-formsins, tókst hvorki París né Berlín að þrýsta á Kænugarðsstjórnina þannig að hún myndi veita Donbass sjálfstjórn og sakaruppgjöf. Ástæðan var einföld, í nýjum forseta Úkraínu, ólígarkanum Petro Poroshenko, sem komst til valda í kjölfar valdaránsins 2014, voru djúpir hagsmunir Bandaríkjanna. Þá hagsmuni tókst að sameina hagsmunum nýju úkraínsku elítunnar.

Á hinn bóginn, eins og við munum sjá hér að neðan, var slíkur þrýstingur ekki hið minnsta hluti af áformum Vesturlanda.

Ljóst var að til þess að standa við Minsk-samningana þyrfti tafarlaust að gera út af við úkraínskar ofurþjóðernissinnaðar nýnasistahreyfingar – hinn „vopnaða hnefa“ bandarísks valdaráns Viktoríu Nuland. Leiðtogi ofurþjóðernissinnaðra vígamanna, Right Sector, Dmitry Yarosh, sagði beinlínis að hann hafni Minsk-samningunum. Hann taldi þá brjóta á stjórnarskrá Úkraínu, og hugðist halda áfram vopnaðri baráttu.

Veldisvöxtur hreyfinga öfgaþjóðernissinna hentaði bæði Poroshenko forseta, Bandaríkjunum og vestrænum samstarfsaðilum þeirra.

Nýlegt myndband, dagsett í nóvember 2022, sýnir fyrrum forseta Úkraínu, Petro Poroshenko, þar sem ræðir Minsk-samningana sem voru gerðir árið 2015. Hann viðurkenndi blátt áfram:

„Ég tel að Minsk-samningarnir séu vel skrifuð skjöl. Ég þurfti Minsk-samningana til að fá að minnsta kosti fjögur og hálft ár til að skapa úkraínska herinn, byggja upp úkraínskan efnahag og þjálfa úkraínska herinn ásamt NATO, til að búa til besta herafla Austur-Evrópu sem yrði þjálfaður samkvæmt NATO stöðlum.“

Samkvæmt þessari yfirlýsingu lykilmanns í Minsk-samningunum, höfðu hin raunverulegu markmið samningaviðræðnanna ekkert með hið auglýsta markmið að gera - leitina að modus vivendi - heldur voru þau eingöngu að kaupa þann tíma sem þurfti til að undirbúa stríð í heild sinni.

Tilkomumikið nýlegt viðtal, þar sem Angela Merkel, fyrrverandi kanslari Þýskalands, veitti útgáfu Die Zeit, er bara endurómur sannleikans sem Poroshenko boðaði. Enn ein staðfesting fékkst á því sem vestrænn almenningur hefur lokað augunum fyrir og heldur áfram að loka augunum fyrir. Það væri ákaflega skammsýnt að aðskilja uppljóstrun Merkel frá eigin „ábyrgðum“ sem hún veitti Yanukovych forseta árið 2014, sem urðu einn af grundvallaratriðunum í framkvæmd valdaránsins í Úkraínu.

Minsk-samningarnir voru í raun aðeins sjónarspil, sviðsetning og í raun skemmdarverk jafnvel áður en þeir voru gerðir.

Skemmdarverk á Nord Stream-gasleiðslunum

Orðrómur er á kreiki í vestrænu samfélagi um skemmdarverkið á rússnesku Nord Stream gasleiðslunum í Eystrasalti. Jafnvel án þess að taka tillit til illa ígrundaðra yfirlýsinga ýmissa bandarískra embættismanna undanfarna mánuði, sem sakfella þá sjálfa verulega. Við verðum að fara mörg ár aftur í tímann til að fullyrða að skemmdarverk Rússa á gasbirgðum til Evrópusambandsins geti ekki verið hluti af fljótfærni „í hita augnabliksins“. Það hentar vel útreiknuðum, stefnumótandi langtímamarkmiðum bandarískrar alþjóðapólitíkur.

Draumar Evrópu um hagstæða langtímasamninga um kaup á gasi gufuðu upp úr Eystrasaltinu.

Í sjónvarpsviðtali, þegar árið 2014, viðurkenndi Condoleezza Rice, þá utanríkisráðherra Bandaríkjanna, stefnumótandi mikilvægi þess að beina gas- og olíubirgðum til Evrópu, burt frá Rússlandi og yfir til Ameríku, með aftengingu rússneskra gasleiðslna: „...til lengri tíma litið, við viljum bara breyta skipulagi orkuþarfar [ESB]. Að gera það háðara Norður-Amerískum orkuvettvangi, á yfirburða gnægð olíu og gass sem finnast í Norður-Ameríku…“

Með sprengingunni á Nord Stream 1 og Nord Stream 2 gasleiðslunum var markmiðinu loksins náð.

Ég læt lesendum eftir að ákveða hvort það sé tilviljun eða ekki að þessi yfirlýsing bandaríska utanríkisráðherrans, kom einmitt árið sem valdarán skipulagt af Bandaríkjunum varð í Úkraínu. Árið sem Úkraína var tekin af Washington-valdinu. Það leiddi til algerrar stefnubreytingar í úkraínskum stjórnmálum, sem við sjáum afleiðingarnar af núna.

Það er alveg augljóst að annars vegar er slík eyðilegging á orkumannvirkjum ómöguleg á friðartímum. Enginn áróður veitir minnsta vafa rými um það hver geti verið sökunautur og meginhagsmunaaðili af slíkum fordæmalausum atburði;

á hinn bóginn breytir aftenging rússneskra gasleiðslna samstundis uppbyggingu orkuinnviða í Evrópu og beinir orkuþörfinni beint í átt að orkuvettvangi Norður-Ameríku, miðað við núverandi mettun framboðs við Persaflóa.

Bandarísk stórfyrirtæki hafa loksins fengið aðgang að stórum evrópskum orkumarkaði og samtímis getu til að stjórna framleiðslukostnaði samkeppnisiðnaðar gömlu álfunnar.

Skotið í fótinn

Staðreyndir efnahagslegs veruleika eru óhagganlegar: Ein af undirstöðum samkeppnishæfni evrópskra iðnfyrirtækja á heimsmarkaði í tengslum við beina keppinauta sína í áratugi, hefur verið ódýr orka frá Rússlandi tryggð með langtímasamningum.

Sjálfviljug slit núverandi evrópskra leiðtoga á aðgangi að þessari ódýru orku, gerir orðatiltækið „að skjóta sig í fótinn“ mjög viðeigandi fyrir þær aðstæður sem iðnaður ESB er í til skemmri og meðallangs tíma. Einnig til langs tíma, ef þessi stefna fær að standa og ekki verður róttæk breyting á.

Ein af „aukaverkunum“ orkuhungursneyðarinnar í Evrópu sem Bandaríkin munu nú fá að metta, verður afiðnvæðing ESB að hluta. Það mun beinlínis stuðla að hinum nýja bandaríska draumi um að enduriðnvæða Bandaríkin, sem hafa hnignað síðan á áttunda áratug síðustu aldar. Orkufrek evrópsk fyrirtæki munu leggja sitt af mörkunum. Þau munu ekki lengur getað haldið venjulegri starfsemi sinni úti á meginlandi Evrópu og munu leita nýrra leiða til að þróast í Ameríku, þar sem orkuverðið verður hóflegra.

Þegar í september 2022 hækkaði framleiðslukostnaður iðnaðarvara í Þýskalandi um 45,8%, sem er met síðan 1949, árið sem tölfræðikannanir Sambandshagstofu Þýskalands hófust. Ekkert lát er á þessari þróun.

Þær sífelldu tafir sem þýska ríkisstjórnin hefur staðið fyrir á undanförnum árum á vettvangi nánast allra samninga á sviði her- og iðnaðarsamstarfs við Frakkland, sem gætu leitt til umtalsverðrar þróunar sjálfstæðra varna Evrópu, bera vitni án nokkurs efa, um pólitíska drottnun Bandaríkjanna yfir Þýskalandi. Yfirlýsing frá Berlín í upphafi stríðsins í Úkraínu um áður óþekkta fjölbreytni og magn bandarískra vopna þarlendis, staðfestir aðeins enn og aftur ofangreint.

Jafnvel fyrir daga verulegra vopnaðra átaka í Úkraínu leiddi, þessi drottnun til nokkurra stórra bandarískra sigra til viðbótar, sem fólsut í verulegri veikingu evrópskrar samkeppnishæfni á sviði vopnastækkun markaðarins fyrir bandarískan hergagnaiðnað og umfram allt að eyða hættunni á að skapa sjálfstætt evrópskt varnarbandalag utan NATO, sem áður hefur verið rætt á vettvangi ESB.

Þrátt fyrir óumdeildan árangur í ferlinu við að veikja efnahag evrópskra keppinauta, gerði Bandaríski demókrataflokkurinn, sem sögulega hefur verið stuðningsmaður þess að ná markmiðum með vopnuðum átökum, strategísk mistök með því að neita að fylgja tilmælum Donald Trump. Hann lýsti yfir nauðsyn þess að jafna samskipti og semja frið við hefðbundinn andstæðing, Rússland, til að tryggja að landið verði ekki mikilvægur (orka og matur) stuðningur við helsta óvin Bandaríkjanna - Kína - á sama tíma og átök við Kína eru í kortunum.

Við lok átakanna í Úkraínu - þriðja mikla stríð Bandaríkjadals - verður óhjákvæmilega það fjórða - við Kína, hvernig það verður gert á enn eftir að koma í ljós.

Fjórða dollarastríðið mikla

Þriðja og síðasta af helstu djúpu stoðum atburðanna í Úkraínu, er veruleg veiking á stöðu Rússlands innan ramma framtíðarátaka við Kína, sem verður fjórða dollarastríðið mikla.

Við erum að tala um veikingu Rússlands, sem strategísks samstarfsaðila Kína, bæði á efnahagssviðinu, þar sem bæði löndin hafa raunverulega skörun, og á pólitískum, diplómatískum og hernaðartæknilegum sviðum.

En þrátt fyrir að Kína sé hreyfingarlaust með tilliti til aðgerða Rússa í Úkraínu, andspænis beinum hótunum um alvarlegar refsiaðgerðir frá sameinuðum Vesturlöndum undir forystu Bandaríkjanna, má greina bitran sannleikann: Kínversk-rússneska bandalagið hefur ekki haggast.

Eins og í tilviki átakanna í Úkraínu og áðurnefndra stríða, þá er mikilvægt að viðurkenna þá staðreynd að annars vegar er stríð Bandaríkjanna gegn Kína óumflýjanlegt. Hins vegar hinar raunverulegu orsakir framtíðarstríðs, sem aftur og að stórum hluta felast í löngun Kína til að komast út úr benzíndollarakerfinu - sem er „klassískt“ og algert casus belli frá sjónarhóli Washington.

Ýmsar staðreyndir gera það að verkum að Bandaríkjamenn þurfa að bregðast harkalega við, þar af má nefna þær helstu:

Árið 2012 hóf Kína kaup á hráolíu frá Íran og greiddi í yuan. Íran hafði þegar hafnað Bandaríkjadalnum, en olíusamningar þeirra hafa verið í Evrum síðan 2016.

Árið 2015 hóf Kína að gera framvirka samninga fyrir olíu í Shanghai Futures Exchange, en megintilgangur þeirra er framkvæmd viðskipta með skiptasamningum í yuan milli Rússlands og Kína, og milli Írans og Kína. Það er nýr stefnumarkandi þáttur kínverskrar alþjóðapólitíkur.

Árið 2017 varð Kína, með innflutningi á 8,4 milljónum tunna af hráolíu á dag, stærsti innflytjandi heims á hráolíu. Samtímis var undirritaður samningur við Seðlabanka Rússlands sem miðar að því að kaupa rússneska olíu í kínverskum gjaldmiðli.

Árið 2022, eins og við sáum áðan, gerði Kína samning við Sádi-Arabíu um kaup á olíu, einnig í yuan.

Þessi ferli, minnir mig, renna samhliða og hægfara stigvaxandi ráðstöfun bandarískra ríkisskuldabréfa, en upphæð þeirra í Kína hefur lækkað um fjórðung á síðustu sjö árum.

Greining á frumkvæði Himneska heimsveldisins í utanríkishagstjórn síðasta áratugar, sýnir glöggt fram á hraða, veldisvaxandi ógn við afkomumöguleika bandaríska hagkerfisins. Aðeins róttækar ráðstafanir bandarískra yfirvalda gegn kínverskum mótherja geta stöðvað, eða að minnsta kosti reynt að hægja á, ferlinu við að grafa undan undirstöðu efnahagslífs heimsins, eins og Ameríka hefur byggt það upp frá lokum síðari heimsstyrjaldar.

Samkvæmt þessum rökum er vopnuð árás Kína á Taívan algerlega nauðsynlegt fordæmi fyrir Bandaríkin. Allt verður gert til að tryggja að þetta frumkvæði Kínverja muni eiga sér stað.

Hins vegar skulum við vera raunsæ: Bandarísk stjórnvöld eru meðvituð um að til skamms tíma, á næstu árum, stafar  ekki mikil hætta af Kína fyrir efnahag þeirra, vegna þess að,

annars vegar gengur alþjóðavæðing kínverska gjaldmiðilsins hægt fyrir sig. Vægi hans í alþjóðlegum greiðslum er innan við 4%, sem er hverfandi miðað við vægi kínverskrar landsframleiðslu. Sama á við um hlut yuan í opinberum gjaldeyrisforða heimsins, sem enn er mjög lágt, innan við 3%, og sýnir litla hækkun.

Til viðbótar, miðað við risavaxið magn bandarískra ríkisskuldabréfa sem seðlabanki Kína hefur safnað, mun taka töluverðan tíma að losa sig við þau.

Svo ekki sé minnst á að til skamms og meðallangs tíma, bjóða markaðir ekki upp á trúverðugan valkost við bandarísk ríkisskuldabréf hvað varðar lausafjárstöðu.

tilvistarógn

Á sama tíma eru Bandaríkjamenn vel meðvitaðir um að til lengri tíma litið stafar raunveruleg tilvistarógn í þessari þróun. Miðað við reynslu síðustu áratuga er óhugsandi að Bandaríkin muni ekki grípa til fyrirbyggjandi aðgerða gegn upphafsaðila þessarar nýju ógnar.

Áralöng vinna Bandaríkjanna í Úkraínu, við að koma á rússófóbískri ofur-þjóðernissinnaðri ríkisstjórn, og þróa alla þá þætti sem eru nauðsynlegir til að Rússland lendi í aðstæðum þar sem það verður óhjákvæmilegt að fara í stríð, er samskonar vinna og Bandaríkin hafa unnið í Suðaustur-Asíu. Austur-Asía gegn Taívan, skemmdarverk á vonum um friðsamlega sameiningu samkvæmt „Sameinuðu Kína“ stefnu Peking. Vopnuð árás Kínverja á Taívan væri í sjálfu sér strategískt högg frá Bandaríkjunum.

Atburðarásin er í stórum dráttum svipuð og skemmdarverkin á Minsk-2 samningunum, sem var lykilatriði í að stuðla að svokölluðum „óréttmætum yfirgangi Rússa“.

Með því að nota Taívan til að ögra fram „óréttmætan yfirgang“ Kína, er meginmarkmiðið að hefja gríðarlegar refsiaðgerðir frá sameinuðum Vesturlöndum, með það að markmiði að steypa efnahag helsta bandaríska keppinautarins um koll. Rétt eins og Úkraína var notuð sem tæki til að fella efnahag næststærsta keppinautar Bandaríkjanna, Evrópusambandsins, með því að svipta iðnaðinn rússneskri orku.

Einn af lykilþáttum fyrirhugaðra refsiaðgerða verður augljóslega ekki samstillt „gagnárás“ af hálfu Atlantshafsbandalagsins í heild. Í ljósi veikingar stöðu gömlu Evrópu, ofþreytu af Úkraínudeilunni og að Evrópa er mjög háð kínversk-evrópskum efnahagstengslum. Að öllum líkindum munu Bandaríkin setja orkubönd á Kína, með því að loka Malacca-sundi, sem Kína notar fyrir tvo þriðju af innflutningi sínum á olíu og LNG.

Í gegnum átökin í Úkraínu hljóta sameiginlegar refsiaðgerðir vestrænna ríkja gegn Rússlandi að hafa gegnt meginhlutverki í áætluðu hruni rússneska hagkerfisins. Þannig átti að koma í veg fyrir stuðning Rússlands með orkusölu landleiðina til Kína, undir hótunum um nýjar refsiaðgerðir gegn Rússum, sem ríki með veikan efnahag getur ekki varist.

Upphafleg áætlun, sem átti að knésetja Rússa eftir nokkra mánuði, mistókst hrapallega vegna fjölda atriða sem sýndu sig á fyrstu mánuðum vopnaðra átaka í Úkraínu. Fyrir vikið fengu aðgerðir Bandaríkjamanna róttæka endurskoðun og endurvinnslu byggða á stefnu um langtíma niðurbrot.

Stríð Bandaríkjanna við Kína, er það á morgun?

Nú á virku stigi átaka gegn „varaaflstöð“ Kína í orku, her og matvælum, sem er Rússland, þarf að hefja lykilaðgerðir gegn Kína til skamms og meðallangs tíma – áður en Rússar jafna sig eftir væntanlega veikingu af völdum NWO.

Hins vegar, jafnvel án þess að taka tillit til ófyrirséðrar seiglu rússneska hagkerfisins gegn áfalli refsiaðgerða, og þrátt fyrir grobbna orðræðu Washington um hernaðaraðgerðir á tveimur vígstöðvum samtímis gegn Rússlandi og Kína: Greining á áætlunum í varnarmálum Bandaríkjanna sýnir fram á raunhæfan ómöguleika þess af kerfislægum ástæðum.

Árið 2015 endurskoðaði Pentagon Kalda stríðs-kenningu sína um að geta barist í tveimur stórstyrjöldum samtímis, í þágu þess að safna fjármunum til að tryggja sigur í einum stóru átökum.

Þar að auki, frá upphafi vopnaðra átaka í Úkraínu, hafa Bandaríkin fjárfest meira en 20 billjónum dollara í að viðhalda því og sent 20 þúsund hermenn til Evrópu til viðbótar við herliðið sem þar eru þegar er til staðar. Með tilliti til þess að styðja Taívan gegn Kína, eru bandarískir öldungadeildarþingmenn aðeins að ræða aðstoð upp á allt að 10 billjónir dollara á næstu 5 árum. Aðstoðin er tvisvar sinnum minni en sú sem Úkraína fékk fyrstu átta mánuði stríðsins.

Af þessum ástæðum er afar ólíklegt að upphaf vopnaðra átaka á Asíu-Kyrrahafssvæðinu af hálfu Bandaríkjanna muni eiga sér stað áður en stríðinu í Úkraínu er algjörlega lokið. Nema Kína taki frumkvæðið, og geri sér grein fyrir tímabundinni hernaðarveikingu andstæðingsins.

Í ljósi samlegðaráhrifa Kína og Rússlands, sem endurspeglast í kínversku „takmarkalausu samstarfi við Rússland“, birtist á sama tíma löngun knúin áfram af þörfinni á að gera Rússland „óvígt“ fyrir stríð við Kína. Það er óaðskiljanlegur hluti af nýju stefnunni gegn Rússlandi hjá Bandaríkjaher undanfarin ár.

Einungis sérlega árásargjörn utanríkisstefna Bandaríkjanna, studd af hernaðar- og fjármálayfirburðum heimsins, gerir Bandaríkjunum kleift að taka sér þessa stöðu.

Sérhvert annað ríki sem fremdi jafnvel aðeins brot af þeim glæpum sem taldir eru upp af hógværð í þessum pistli, yrði flokkað af „alþjóðasamfélaginu“ sem hangir í pilsfaldi Bandaríkjanna, sem glæpa- og fantaríki og yrði beitt „lögmætum“ viðskiptabönnum, þyngri en viðskiptabönnin á Norður-Kóreu, Írans og Kúbu samanlagt.

Úkraína sem forgengilegt verkfæri

Aðalástæða þess að atburðarásin leiddi ekki til upphafs stríðsátaka á milli Rússlands og Úkraínu fyrr, jafnvel í forsetatíð Baracks Obama á tímabilinu 2014-2017, er stefnumörkun Hvíta hússins á þessu tímabili, sem byggðist á setningunni: Yfirráð yfir Úkraínu gegn Rússlandi er ekki öryggismál fyrir Bandaríkin.

Frá dögum Obama hefur stefna Bandaríkjanna breyst, en þrátt fyrir ýmsar yfirlýsingar hefur stefnumörkun þeirra gagnvart Úkraínu ekkert breyst.

Úkraína er aðeins notuð sem forgengilegt verkfæri til að veikja rússneskt vald, sem málaliðaland NATO, að minnsta kosti á tímabilinu fram að framtíðarárekstrum við Kína og á sama tíma til að lágmarka efnahagsleg samskipti Rússlands og Evrópu.

Þegar sú stund rennur upp að bandarísk stjórnvöld telja að „arðsemi fjárfestingarinnar“ í átökunum í Úkraínu sé nægjanleg, eða þegar þau átta sig á því að líkurnar á ná henni séu of litlar, verða stjórnvöld í Kænugarði yfirgefin. Á sama hátt og afgönsk stjórn Ghani og Kúrdar í Írak og Sýrlandi voru yfirgefnir eftir að hafa að hluta uppfyllt þau verkefni sem Ameríka fól þeim, þvert á loforð um Kúrdaríki. Loforð sem batt aðeins þá sem treystu.

Af þessum ástæðum, og einnig að teknu tilliti til þeirrar staðreyndar að þrátt fyrir fordæmalausar refsiaðgerðir Vesturlanda, heldur Rússland áfram að viðhalda heilbrigðu ríkisfjármálum, með minniháttar skuldum, jákvæðum vöruskiptajöfnuði og engum fjárlagahalla. Átökin í Úkraínu geta ekki endað öðruvísi en með sigri Rússlands, í einni eða annarri mynd.

Á meðan hefur sigur fyrir rússneska sambandsríkið tilvistargrunn; fyrir Bandaríkin, eins og áður hefur verið nefnt, ekki.

P.S

Aðgerðir Bandaríkjanna undanfarna áratugi, og þær sem óumflýjanlega munu eiga sér stað næstu áratugi, eru tjáning kapítalismans í sínu hreina og þar af leiðandi óhjákvæmilega illkynja ástandi. Afleiðingin er að valda hættulegum skjálftum, grundvallarbresti og ógn við heimsmarkaðshagkerfið. Tilgangur þess er fyrst og fremst að finna jafnvægi; tjáning kapítalismans er afar fjarri frjálslyndum forsendum Adam Smith og dálítið barnalegum hugmyndum um að markaðurinn stjórni kapítalistunum.

Bandarískar ríkisstjórnir hver á fætur annarri, vopnaður hnefi „djúpríkisins“ og fyrirtækjavaldsins, sönnuðu ekki aðeins kenningar Karls Marx, hataðs óvinar þeirra. Líka Fernand Braudel í heild, sem kvað kapítalismann vera leitina að því að losna við samkeppnishömlur, takmarka gegnsæi og stofnun einokunar, en því verður einungis náð með beinni aðkomu ríkisins.

Þar sem ég er hvorki stuðningsmaður sósíalískra né kommúnistakenninga, heldur að fylgist ég með núverandi bandarísku efnahagsmódeli, er erfitt fyrir mig, að bera ekki virðingu fyrir réttmæti nálgunar Bandaríkjanna á kapítalisma.

Átökin á yfirráðasvæði Úkraínu eru aðeins birtingarmynd á millistigi í baráttu Bandaríkjanna fyrir lífi sínu í núverandi mynd, sem er útilokað án varðveislu og stækkunar einokunar og einpóla heimsyfirráða.

Á þessu stigi átakanna er hægt að setja fram nokkrar grundvallaryfirlýsingar.

Hámarks versnun á samskiptum Rússlands og Evrópusambandsins og þar af leiðandi veruleg efnahagsleg veiking beins keppinautar, ESB, er frábær árangur fyrir Bandaríkin.

Bandarísk utanríkisstefna varð fyrir áfalli vegna tveggja ófyrirséðra grundvallaratriða sem eru að breyta ásýnd heimsins óafturkræft:

Í fyrsta lagi sýndi Rússneska sambandsríkið sig óvænt óviðjafnanlega þolnara en búist var við. Efnahagsþrýstingur frá sameinuðum Vesturlöndum olli engan veginn fljótfærnislega margboðuðum efnahagssamdrætti, af embættismönnum þeirra.

Fyrir vikið varð Rússland ekki gelt í ramma komandi átaka Bandaríkjanna við Kína. Mikill ósigur sem leiddi til annars ófyrirséðs atriðis:

Bandaríki Norður-Ameríku gátu ekki fylkt heiminum öllum um sig í and-rússnesku verkefni sínu, þrátt fyrir að fordæmalausum þrýstingi hafi verið beitt.

Atburðirnir eftir 24. febrúar 2022 höfðu þveröfug áhrif: Hröðun hruns  einpóla líkans undanfarinna áratuga með velgengni Rússa í að takast á við sameinuð Vesturlönd. Þetta leiddi til mikilla fráhvarfa og ljóst eða leynt til upptöku afstöðu, hjá stærstu aðilum í efnahagslífi heimsins utan Vesturlanda, nema Japan og Suður-Kóreu - hefðbundnum fylgitunglum bandarískra stjórnmála. Fráhvörf og afstöður sem treysta undirstöður nýs fjölpólaheims.

Þessi annar stóri ósigur skapar tilvistarógn fyrir Bandaríkin þar sem hann setur áframhaldandi yfirráð bandaríska fjármálakerfisins í bráða hættu til lengri tíma litið.

Óafturkræft ferlið gerir það að verkum að það er óráðlegt að endurskoða verulega stefnu Bandaríkjamanna gagnvart Úkraínu, sérstaklega umtalsverðri viðbótaraukningu í megindlegum og eigindlegum fjárstuðningi við herinn. Slíkt gæti aukið hlutfallslega hættuna á kjarnorkuárásum á yfirráðasvæði Bandaríkjanna.

Nálæg framtíð mun sýna okkur hvert mótspil Washington verður.

Greinin er eftir Oleg Nesterenko. Hún birtist fyrst undir nafninu „CONFLICT IN UKRAINE. GENESIS“ í vefritinu Geopolitika þann 21. desember 2022. Hún var endurbirt hjá The Postil Magazine á Nýársdag 2023, en þar segir að höfundur sé forseti Centre de commerce et de l’industrie européen (European Trade and Industry Center), í París.


Þýðing: Erna Ýr Öldudóttir

2 Comments on “Dollarastyrjaldirnar miklu”

  1. Loks analýsa á málum fyrir fólk með 70+ í IQ, ekki þessi ótrúlega grunna ísl blaða-/ fréttamennska.
    Fréttin stendur km uppúr í ísl. blaðamennsku !

Skildu eftir skilaboð