Af hverju er svona auðvelt að blekkja gáfað fólk?

frettinKrossgötur, PistlarLeave a Comment

Eftir :

“Sem lögmál, hef ég komist að því að því gáfaðri sem maður er og því betur menntaður, því auðveldara er að rugla hann í ríminu.”

Svo sagði sjónhverfingameistarinn Harry Houdini. Hann sagði það þegar hann deildi við skapara Sherlock Holmes, Sir Arthur Conan Doyle, vegna trúar þess síðarnefnda á miðilsfundi og álfa. Þrátt fyrir að vera bókmenntasnillingur var Conan Doyle engu að síður haldinn ranghugmyndum.

Hann var ekki einn um það. Vísindamenn hafa meira að segja skilgreint „Nóbelsheilkennið“ sem vísar til tilhneigingar sumra Nóbelsverðlaunahafa til að aðhyllast óhefðbundnar skoðanir. Charles Richet, til dæmis, vann 1913 Nóbelsverðlaunin í lífeðlisfræði eða læknisfræði en trúði einnig á spákvista og drauga.

Ef við tökum ýkt dæmi, þá gekk næstum helmingur allra þýskra lækna á þriðja áratugnum snemma í nasistaflokkinn, sem var hærra hlutfall en hjá nokkurri annarri starfsstétt. Menntun þeirra og greind vörðu þá ekki frá brjálæði – þvert á móti.

Við erum öll að drukkna í tilraunum til að afvegleiða okkur, frá stóru tæknifyrirtækjunum og stjórnmálamönnum til sölufólks og samstarfsmanna. Það er hughreystandi að hugsa til þess að þetta sé aðeins áhyggjuefni fyrir þá sem eru minna vitsmunalega hæfileikaríkir: við töfrum fram staðalmyndir af afturhaldssömum „samsæriskenningasmiðum“ og „vísindaafneitendum“ sem þarfnast verndar gegn rangfærslum.

Samt er raunveruleikinn sá að menntamenn eru jafn viðkvæmir fyrir hlutdrægni, ef ekki enn frekar. Vísindahugtakið er dysrationalia (rökblinda). Sálfræðiprófessor Keith Stanovich rannsakaði það ítarlega og komst á sínum tíma að þeirri niðurstöðu að „engin þessara [skekkja] sýndi neikvæða fylgni við [greind]… Ef eitthvað var þá fór fylgnin í hina áttina.

Af hverju gæti það verið?

Fyrsta skýringin er hvatræn rökhugsun, þar sem rökfræði er notuð til að fullnægja undirliggjandi tilfinningalegum hvötum. Conan Doyle, til dæmis, gæti hafa sannfært sjálfan sig um raunveruleika álfa og miðilsfunda vegna þess að hann var að fást við nýlegt andlát sonar síns. Conan Doyle beitti einfaldlega ofurgreind sinni til að uppfylla djúpstæða sálræna þörf.

Fólk kemst að þeim niðurstöðum sem það vill komast að og hagræðir síðan í kjölfarið – en gáfaðara fólk er færara í að koma með þessar réttlætingar. Svo orð George Orwell séu umorðuð, þá er sumt svo fáránlegt að aðeins menntamaður gæti trúað því.

Ein rannsókn leiddi í ljós að vísindaleg skilaboð um loftslagsbreytingar væru líklegri til að vera samþykkt af frjálslyndum ef þeir væru snjallari, en vitsmunir gerðu frjálsa markaðskapítalista líklegri til að hafna skilaboðunum og segja að þau væri ýkjur.

Önnur ástæða þess að menntamenn gætu verið sannfærandi er tilgátan um menningarmiðlun. Þessi kenning bendir til þess að gáfað fólk sé betur í stakk búið til að átta sig á því hver ríkjandi menningarviðmið eru og því hvað eigi að hugsa og segja til að komast áfram í lífinu. Líklegra er að gáfumenn séu frjálslyndir í dag, svo kenningin segir, af sömu ástæðu gengu svo margir læknar í hinn mjög ófrjálshyggjulega nasistaflokk á þriðja áratug síðustu aldar.

Með öðrum orðum, snjallt fólk og forréttindafólk er líklegra til að finna út og tileinka sér svokölluð „lúxusviðhorf.“ Í skoðanagrein í New York Times, var þetta dregið saman á kaldhæðnislegan hátt:  „Til að líða eins og heima hjá þér á svæðum þar sem tækifæri eru rík, þá verður þú að … hafa rétt viðhorf varðandi David Foster Wallace, barnauppeldi, kynjaviðmið og kerfislæga kúgun minnihlutahópa.

Í þriðja lagi, samkvæmt tilgátunni um klára vitleysinga, hefur greind í för með sér tilhneigingu til að ofnota rökhugsun við lausn vandamála og vannýta eðlishvöt og skynsemi sem hefur þróast í þúsundir ára. Fólk sem vinnur í vitsmunalegum starfsgreinum – eins og vísindum og æðri menntun – hefur einnig tilhneigingu til að hafa sérstakan persónuleika prófíl. Þeir eru líklegri til að vinna vel með öðrum og fylgja reglunum. Þetta gerir mann að góðum lækni, en býr líka til persónu sem fylgir reglunum; einhvern sem er undirgefinn meginstraumnum og valdinu.

Svo, fyrir utan lóbótómíu (ennisblaðsskurð), hvert er svarið?

Treystu innsæinu þínu. Innsæi okkar hefur orðið til í yfir milljóna ára þróun og þó við getum kallað það óskynsamlegt, hefur það í raun þjónað okkur mjög vel. Án tilfinningalegs innsæis okkar værum við í raun frekar léleg í ákvarðanatöku. Eins og frægi taugavísindamaðurinn Antonio Damasio skrifaði: „Í stað þess að vera lúxus eru tilfinningar mjög gáfuleg leið til að knýja lífveru í átt að ákveðnum útkomum.”

Ein rannsókn leiddi í ljós að 15 mínútna núvitundartími minnkaði tíðni ákveðinnar vitrænnar hlutdrægni um 34 prósent. Önnur lét lækna skrifa niður skyndihvöt sína og túlka hana síðan meðvitað, sem leiddi til þess að greiningarnákvæmni jókst um allt að 40 prósent.

Sömuleiðis þá er gamla góða almenna skynsemin góð vörn gegn heilaþvotti. Sálfræðingurinn Igor Grossman byggði á klassískri heimspeki og braut hugtakið visku niður í fjórar meginreglur: Leitaðu að sjónarmiðum annarra, jafnvel þótt þau stangist á við þitt eigið; samþættu mismunandi sjónarhorn í heildar milliveg; viðurkenndu að hlutirnir geta breyst, þar á meðal þín eigin sannfæring; og sýndu auðmýkt varðandi þína eigin takmörkuðu skynjun.

Eftir að hafa lesið frásögn af réttarhöldunum yfir Sókratesi ákvað Benjamin Franklin að efast alltaf um eigin dómgreind og virða dómgreind annarra. Hann lagði sig fram um það af ásettu ráði að forðast orð eins og ‚áreiðanlega, án efa, eða önnur slík sem gefa til kynna vissu.

Þannig að með aðeins meira næmni fyrir innsæi þínu og aðeins minni trú á vissu skynsamlegra ályktana þinna gætirðu komið í veg fyrir að heilinn þinn taki þig, eins og Conan Doyle, í burtu með álfunum.


Höfundar: Laura Dodsworth og Patrick Fagan, útdráttur úr kaflanum ‘Don’t Overthink It’ í bókinni “Free Your Mind: The new world of manipulation and how to resist it” sem var að koma út. Frumtextann má finna hér.

Helgi Örn Viggósson þýddi

Greinin birtist fyrst á Krossgötur 25.7.2023

Skildu eftir skilaboð