Þjakaðir ráðamenn

frettinPistlarLeave a Comment

Jón Hjaltason hefur sent Fréttinni eftirfarandi pistil um ástandið á Íslandi:

Þing og þjónkun

Þingforseti stóð í stafni er óvæntir aðdáendur birtust á þingsvölum. Forsetinn hugumprúði áttaði sig skjótlega á að þingsalur er hvorki vel fallinn til fallhlífastökks né strípisýninga og stöðvaði þingfund. Ekki er vitað hvar forseti stóð þegar tjaldarar settust að við dyragættina, en svo virðist sem nú um stundir sé tíska hjá hinu háa Alþingi og víðar, að heykjast undan ruddaskap og bölbænum háværs minnihluta fremur en halda trúnað við þöglan meirihluta. Lítilsigldir eru þeir sem kikna undan ofstæki netriðla!

Efasemdir sækja að hvað áhrærir undarlegt ferðalag Alþingis umliðin ár. Sú ferð er ekki án fyrirheits, þvert á móti! Er fróun í því að velja sífellt grýttustu leiðina í viðleitni að hjálpa þeim er frekast þurfa? Er svalt og geggjað að verja sem mestu fé í það sem minnstum árangri skilar? Hversvegna er íslenskum ráðamönnum svo mikið í mun að innleiða allt hið versta sem Norðurlönd hafa tekið til ráða, en sneiða hjá því besta er frá þeim kemur? Er borin von að valdhafar geti sameinast um heildstæð úrræði sem duga með vel ígrundaðri langtíma fyrirhyggju?

Okkur ber að rækja kvótaflóttamenn, ekki bótaflóttamenn! Einfalt heilræði til stjórnvalda:

„Að þeim skal hlúa þar sem þeir búa.“

Dómgreindarskortur

Er ofvaxið skilningi Alþingismanna og Útlendingastofnunar að til þess að komast hjá örlögum annarra Norðurlanda er nauðsyn að handvelja þá umsækjendur sem líkur standa til að vilji verða góðir og gegnir Íslendingar. Er stjórnvöldum fyrirmunað að skilja að fylgjendur trúarsamfélaga sem líta á eiginkonur sem húsdýr, drepa dætur sínar til verndar „heiðurs“ líta á homma sem úrkynjaða og réttdræpa, snípaskera stúlkubörn og umskera drengi, eiga ekkert erindi hingað.

Tvöfalt siðgæði

Fyrr á árum vaknaði áhugi Saudi Araba á að kaupa íslenskt lambakjöt. Ekki náðist samkomulag því skilyrt var að slátrunin færi eftir arabískri „halal“ aðferð, sem stjórnvöld hér höfnuðu sem dýraníði. Nú telja stjórnvöld vel við hæfi að bjóða velkomið fólk sem limlestir eigin börn. Þeirri ósvinnu verður haldið áfram, leynt eða ljóst hvað sem íslenskri löggjöf líður! Er ríkari áhersla á dýravernd en barnavernd? Hvernig hyggjast stjórnvöld framfylgja lögum t.a.m. hvað varðar fleirkvæni og barnaníði?

Öfughyggja

Gamalt máltæki kveður svo. „Þangað leitar klárinn hvar hann kvaldastur er.“ Svo virðist sem helstu aðgerðistar og aðdáendur Hamas séu Feministar, Hommar og Vókarar. Óskoraður stuðningur, þrátt fyrir að í lögum og atferli ódæðismanna séu konur niðurlægðar og hommar útskúfaðir. Gamla máltækið stendur fyrir sínu! Felst ekki í þessu einhverskonar 180 gráðu öfughyggja hinna ástríðufullu fylgjenda Hamas?

Handritið heim

Ókunnugt var mér að við ættum tilkall til merkilegs handrits í Svíþjóð, og það meira að segja komið heim. Ríkislögreglustjóri hefir heimt hina ómissandi bók úr hendi hins sænska kollega síns. Í handritinu eru áréttuð öll trixin er varða feluleiki í málefnum hælisleitenda. Skítt með vegabréf og aldursgreiningar. Þöggun, nafnleynd, fréttabönn, falsfréttir, útúrsnúningar, upplýsingaóreiða, feluleikur með þjóðerni og kæruleysi, afsakið, ákæru-leysi, eftir augljós lögbrot. Umburðarlyndis-lögleysa ofl. ofl. Í niðurlagi hins gagnmerka handrits kveður svo; „Tvöfaldur lagarammi, tvöföld réttvísi.“ Hvað varð um speki Þorgeirs Ljósvetningagoða er mælti fyrir liðlega 1.000 árum „Hafa skulum vér ein lög og einn sið“

Látbragðsleikar í Hörpu

Rishi Sunak, forsætisráðherra Bretlands, flytur ávarp í Hörpu.

Hörpufundur Evrópuráðs skilaði tveggja millljarða sóun ríkissjóðs ásamt tvöföldum Svarta Pétri. Áður hafði utanríkisráðherra hafnað undanþágu frá flugsköttum er eyþjóðinni buðust. Ekki þótti taka því stússi, um tittlingaskít væri að ræða. Fyrir framan Ursulu Leyen tók forsætisráðherra hné og fékk að launum tveggja ára greiðslugrið frá dritskattinum. Trúir einhver að Katrín krjúpi á kné fyrir kríuskít? Fyrr en varir verða tittlingagjöldin orðin mykjuhaugur. Vanmáttarkenndin skein í gegn þegar ráðherra snupraði forsætisráðherra Breta fyrir að nefna það mál er hvað þyngst á honum hvíldi, með orðunum „Þetta mál er ekki á dagskrá hér.“ Það sem brann á Rishi Sunak þá, er eitt helsta vandamál okkar Íslendinga nú, tæpum meðgöngutíma síðar.

Spéhræðsla og minnimáttarkennd

Allt frá Gamla Sáttmála hafa íslenskir valdamenn þjáðst af spéhræðslu gagnvart erlendum aðli og valdsmönnum. Afleiðingarnar eru að sífellt er reynt að sýnast meiri að burðum en tilefni er til þ.e.
að vera mestir, bestir, fyrstir og fremstir í von um skjall að utan fyrir metnað, snilld og örlæti. Ágæt dæmi þegar stjórnvöld einsettu sér að mylja auðæfi undir erlenda Garka og Hrægamma. Sauðsvartur almúginn skyldi greiða skuldir óreiðumanna. Sem og sýndarmennskan gagnvart Evrópuráðinu.

Nú hreykja sér þýlindir

En viti menn! Sem hönd sé veifað er ráðamönnum, ríkisstjórn, Alþingi og löggæslu rétt sama þótt þeir séu aðhlátursefni vítt um veröld og hvunndagsmenn eins og Elon Musk og Jane Doe dragi dár
að þeim? Tvær stúlkukindur taka bólfestu í útkikks-tunnum hvalbáta. Hvað er til ráða? Aðhöfumst ekkert! Þær koma niður þegar salernið kallar. Vanþakklátir gestir slá upp vetrarbúðum á helgum reit! Hvað nú? Bíðum fárviðris. Kempur miklar láta dólgslega á hásvölum Alþingis! Hvað skal gert? Keyrum þá heim. Lögregla fylgir vandræðagemsa úr landi í járnum. Sá slær þeim við, og er á undan til baka. Hvað skal þá? Hliðin virka ekki, tökum þau af hjörum. Til hamingju með nýfengið sjálfstraust virtu ráðamenn, en gangið ekki að þakklæti landsmanna sem vísu.

Jón Hjaltason

Höfundur var athafnamaður.

Skildu eftir skilaboð