Netverji nokkur skrifaði opið bréf á facebook í hópnum Heildarmyndin til Þórólfs Guðnasonar sóttvarnarlæknis, innleggið fékk góð viðbrögð og fjölda "likes" og virðist hafa hitt beint í mark miðað við viðbrögðin.
Kæri Þórólfur Guðnason, sóttvarnarlæknir Íslands.
Þú varst skipaður í embætti sem hefur það að markmiði að "skipuleggja og samræma sóttvarnir og ónæmisaðgerðir um land allt, m.a. með útgáfu leiðbeininga um viðbrögð við farsóttum" og "hafa umsjón með forvörnum gegn smitsjúkdómum, m.a. upplýsingum og fræðslu til almennings um þessi efni" (lög nr. 19/1997 5. gr.). Um leið er það landlæknir sem "ber ábyrgð á framkvæmd sóttvarna undir yfirstjórn ráðherra" (4. gr.). Þung er kórónan og eðlilega finnst þér eðlilegt, í ljósi embættis þíns, að einblína á sóttvarnir sem hina einu réttu leið til að stjórna heilu samfélagi.
En vittu til, lífið snýst ekki bara um að halda lífi og góð heilsa er ekki bara spurning um að forðast veiru. Þú finnur kannski fyrir miklum þrýstingi að láta allt snúast um veiru en það er misskilningur. Þér verður ekki kennt um smitin sem kunna að koma upp ef fólk fær að lifa lífinu. Þú missir ekki fálkaorðuna sem þú fékkst fyrir langa vinnudaga í upphafi faraldurs sem var þá lítt þekktur en er nú vel þekktur. Sprauturnar voru því miður ekki lykillinn frekar en grímurnar, lokanirnar, skerta ferðafrelsið, stofufangelsi heilbrigðs fólks allt niður í ung börn og allt annað sem Kínverjar sögðu okkur að væri málið.
Þú þarft ekki að láta samviskubitið knýja þig áfram. Þú þarft ekki að telja þig vera ábyrgan fyrir hverju einasta smiti sem loftborin og þrautseig veira veldur. Þú ert búinn að gera nóg, af bæði því góða og því slæma.
Kannski finnst þér gaman að hafa eyra ráðherra og athygli fjölmiðla. Skiljanlega. Þú færð sennilega álíka marga aðdáendapósta og gagnrýnispósta en velur að einblína á þá fyrrnefndu. Þú ert orðinn frægur maður, búinn að syngja í sjónvarpi og þiggja blómvendi og jafnvel álagsgreiðslur fyrir ómakið.
En núna þurfum við hin að halda áfram. Við þurfum að geta heimsótt ættingja erlendis og fá þá í heimsókn án sóttkvíar og forskráningar. Við þurfum að hittast, skemmta okkur saman, mæta í skóla og vinnu, takast í hendur og faðmast, grímulaus í 0 metra fjarlægð. Við lesum fregnir frá stærri ríkjum með galopin landamæri og traust heilbrigðiskerfi og viljum það sama. Við viljum gamla normið, ekki hið nýja.
Gerðu það, sendu nú eitt minnisblað í viðbót sem segir: Kæri ráðherra, lífið er ekki veira. Ekki skrifa lög og reglur út frá minnisblöðum. Hafðu þau til hliðsjónar en líka heilbrigða skynsemi, og mundu að þú ert kjörinn fulltrúi, ekki ég. Ég er ráðinn til að horfa á veiru. Þú átt að horfa á samfélagið.
One Comment on “Opið bréf til Þórólfs Guðnasonar sóttvarnarlæknis”
Vel skrifað, tek undir hvert orð..