Sigríður Á. Andersen, fráfarandi þingmaður Sjálfstæðisflokksins,
segir engar lagalegar eða læknisfræðilegar ástæður renna stoðum
undir núverandi sóttvarnaráðstafanir.
Svandís Svavarsdóttir, heilbrigðisráðherra, samþykkti tillögu
sóttvarnalæknis í gær um að framlengja gildandi
sóttvarnaráðstafanir vegna faraldurs covid-19 til 20. október.
„Það er ekkert þannig neyðarástand í gangi sem réttlætir að menn séu að
beita ákvæði í sóttvarnarlögum sem heimilar sóttvarnalækni, og
heilbrigðisráðherra að tillögu hans, að gefa út reglugerð um þessar
aðgerðir,“ segir Sigríður og bætir við að aðgerðirnar séu
sýndarmennska.
Hún segir aðgerðirnar hafa slæm áhrif á andlega heilsu þjóðarinnar og
að tilmælin hjálpi ekki fólki að komast aftur á rétt ról.
„Það eru 1500 manns í sóttkví hérna. Í sóttkví. Hún er náttúrulega
algjörlega tilgangslaus þessi sóttkví. Það kemur að því að fólk
hættir að hlusta á svona,“ segir Sigríður og ítrekar að reglurnar hafa
ekki lagastoð.
„Þetta er komið á grátt svæði því sóttvarnarlögin heimila tilteknar
aðgerðir við tilteknar aðstæður en þessar aðstæður eru ekki til
staðar í dag.“
„Röngum upplýsingum haldið að Íslendingum“
Í minnisblaði sóttvarnalæknis til heilbrigðisráðherra segir að
þróun faraldursins sé rakin frá því að öllum opinberum
sóttvarnaaðgerðum hér á landi hafi verið aflétt 26. júní
síðastliðinn og slakað á sýnatökum hjá farþegum á landamærunum.
Sigríður segir hins vegar landamæraeftirlitið hafa hvað mest
áhrif á íslenskt efnahagslíf.
„Þetta landamæraeftirlit er enn ein sýndarmennskan og tekur mestan
toll af efnahagslífinu. Það liggur fyrir að menn koma ekki hingað
til lands sem þurfa að fara í einhverjar skimanir við inngöngu,“ segir
Sigríður.
„Svo er búið að halda fram röngum upplýsingum að Íslendingum um að
þeir þurfi að fara lögum samkvæmt í einhverjar skimanir erlendis. Það
reyndist síðan bara rangt en þessu var samt haldið fram af fólki og fólk
eyddi tíma, miklum peningum og einhverri angist við að uppfylla þessar
kröfur. Það var engin lagaheimild fyrir þessu,“ segir Sigríður.
„Verða að láta af þessari þráhyggju“
„Það nýjasta er að fara senda þúsundir barna í einhver hraðpróf og
skimanir til að fá að komast á skólaböll. Menn bara verða að fara
komast út úr þessu. Þeir verða að láta af þessari þráhyggju. Þetta er
bara þráhyggja,“ segir Sigríður og bætir við að sóttkví og skimun séu
íþyngjandi læknisfræðileg inngrip.
„Það er bara fullt fólki sem vill ekki láta pota upp í nefið á sér og
það er talað um þetta hérna eins og þetta sé ekkert mál en þetta er bara
mjög mikið mál fyrir marga. Svo hefur þetta ekki bara bein áhrif heldur
hefur þetta miklu djúpstæðari andleg áhrif á fólk,“ segir Sigríður.
„Það er bara ekki hægt að senda 1500 manns í sóttkví því það fundust
sex börn smituð á Akureyri sem eru ekki einu sinni veik.“