Fyrrverandi dómarinn Arnar Þór Jónsson mun taka að sér málsókn fyrir fjölmennan hóp kvenna sem telja sig hafa orðið fyrir skaða í móðurlífi eftir Covid bólusetningar. Þær hafa ýmist kvartað undan ofsablæðingum, stöðvun blæðinga, verkjum sem líkjast fæðingarhríðum, eymslum í brjóstum og blæðingum eftir tíðahvörf. Nokkrar þeirra hafa sagt frá fósturmissi skömmu eftir sprauturnar.
Á síðu Lyfjastofnunar kemur fram að 17 tilkynningar um vanda tengdum meðgöngu hafi borist stofnuninni og 922 í tengslum við móðurlíf. Í hópnum sem Rebekka Ósk Sváfnisdóttir stofnaði í sumar eru þó um 2300 konur sem glíma við þessa kvilla
Arnar Þór sem var í framboði fyrir Sjálfstæðisflokkinn og er nú varaþingmaður flokksins, var í viðtali við Arnþrúði Karlsdóttur á Útvarpi Sögu og sagði frá málinu.
Arnar bendir á að hópur kvenna sem krafðist þess af Lyfjastofnun og landlæknisembættinu að rannsakað yrði hvort aukaverkanir sem þær hafi fengið eftir Covid bólusetningu tengdust bóluefninu, hafi fengið svör undirrituð af þremur sérfræðingum, svör sem Arnari þykja benda til þess að tengsl einkennanna hafi ekki verið rannsökuð.
„Til dæmis er ekkert í svörum sérfræðinganna sem bendir til þess að rætt hafi verið við þær konur sem kvörtuðu undan einkennunum, þá er ekkert í svörunum sem gefur til kynna að svörin byggist á nokkurri alvöru rannsókn. Það eru atriði sem eru svo alvarleg að það verði að kalla eftir nánari svörum," sagði Arnar Þór.
Hann mun kalla eftir skýrum svörum af hálfu Lyfjastofnunar og fleiri aðila.
Útvarp Saga sagði frá.