Leiðrétting eða lygaáróður fyrir frekari bólusetningum barna?

frettinPistlar

Á síðu stjórnarráðsins 25. október sl. birtist tilkynning um að ekkert 12-15 ára fullbólusett barn hefði smitast af Covid-19. Fjölmiðlar slógu flestir upp frétt með þessum tíðindum og ályktuðu rétt eins og Heilbrigðisráðuneytið að þetta þýddi að bóluefnið veitti 100% vörn gegn sjúkdómnum. Frettin.is óskaði um hæl eftir gögnum frá landlæknisembættinu yfir bólusetningar; smit eftir aldri og bólusetningarstöðu, ár fyrir ár, ekki bara skiptingu yfir börn og fullorðna. Von er á gögnunum skv. svari embættisins.

Nú hefur sóttvarnarlæknir leiðrétt þessar upplýsingar og segir: „Vegna tæknilegra vandamála þá hefur komið í ljós að þetta er ekki rétt. Af um rúmlega 12.000 fullbólusettum börnum 12-15 ára þá hafa 9 greinst með COVID-19 eða 0,07%. Til samanburðar þá hafa um 3.750 af um 266.000 fullbólusettum einstaklingum eldri en 15 ára greinst með COVID-19 (1,4%). Vísbendingar eru því um að bólusetning barna kunni að vera áhrifaríkari en bólusetning fullorðinna til að koma í veg fyrir smit af völdum COVID-19."

Í þessu sambandi er rétt að minna á upplýsingar á vef landlæknisembættisins þar sem segir:

Eru börn og unglingar í hættu?

„Hlutfallslega fá smit af COVID-19 greinast hjá börnum á leik- og grunnskólaaldri, flest börn fá væg einkenni og einnig benda upplýsingar til að börn smiti sjaldan aðra þó það geti gerst og þá sérstaklega innan heimilis. Allir geta samt sýkst af kórónuveiru og þó mjög lítið sé um alvarlegar sýkingar meðal barna er þeim þó lýst." 

Hér er sóttvarnaræknir að bera saman tvo ólíka hópa, annan sem smitast síður enn hinn. Að telja því lægra smithlutfall meðal bólusettra barna vera vísbendingu um að bóluefnið virki betur á þann hóp heldur en fullorðna sem smitast frekar, er hugsanaskekkja, jafnvel lygaáróður fyrir frekari bólusetningum yngri barna.

Þessu tengt má líka nefna að vísindamenn á Bretlandi áætla nú að tveir af hverjum þremur á aldrinum fimm til fjórtán ára hafi þegar komist í snertingu við veiruna og þar með myndað ónæmi.

Börn á Íslandi, 12-15 ára, hafa nýlega verið bólusett, um einu og hálfu ári eftir að sjúkdómurinn barst til landsins. Hversu mörg þeirra voru því þegar komin með ónæmi gegn veiru sem sóttvarnarlæknir vill þakka bóluefnum um lágt smithlutfall?

Fréttir um ónæmi barna á Bretlandi má lesa Telegraph.