Verulegt atvinnuleysi og starfsmannaskortur samtímis í Svíþjóð

frettinErlent, Ingibjörg Gísladóttir, PistlarLeave a Comment

Svíar eiga við ákveðið vandamál að stríða. Bæði skortir þá starfsfólk og fjölmargir eru atvinnulausir. Í nýrri skýrslu viðskiptaráðs Stokkhólms kemur fram að á síðasta ársfjórðungi 2021 vantaði fólk í 45.021 störf í Svíþjóð þar af 18.448 í Stokkhólmi, sem er hlutfallslega mikil vöntun. Höfundar kenna því um að framboð á námi í Stokkhólmi sé ekki nógu vel skipulagt og að húsnæðismarkaðurinn þar sé erfiður. Skortur á vinnuafli er sérstaklega mikill í þeim atvinnugreinum sem eru mikilvægar fyrir efnahag og atvinnulíf Stokkhólms.Má þar nefna upplýsingatækni, samskipti, fjármál, viðskipta-þjónustu, lögfræði og tækni. Af þessum 45.021 lausu störfum voru 8.826 í tölvugeiranum og 7.180 hjá fyrirtækjum sem veita viðskiptaþjónustu. Hlutur Stokkhólms í lausum störfum í þessum atvinnugreinum var um 50 prósent.

Á sama tíma og starfsmannaskortur hamlar framleiðni og samkeppnishæfni er erfitt með vinnu fyrir suma hópa. Árið 2020 unnu Johan Eklund og fleiri hjá Entreprenörskapsforum skýrslu um stöðu innflytjenda á sænskum vinnumarkaði. Skýrslan sýnir að atvinnuleysi hjá innfæddum (15-74 ára) var 3.8% 2018 en 15.4% hjá þeim er voru fæddir erlendis. Á árinu 2016 var atvinnuþátttaka innfæddra (aðrir Norðurlandabúar teknir með) 89% og 73% þeirra framfleyttu sér sjálfir. Samsvarandi tölur fyrir þá er voru fæddir í Afríku voru 68% og 38% og fyrir þá er koma frá Miðausturlöndum voru þær 56% og 36%. Þar sem markmið skýrslunnar var að skoða efnahagslega aðlögun innflytjenda og efnahagslegt sjálfstæði þá var aðeins fólk á aldrinum 20-64 ára tekið með.

Þeir hjá Entreprenörskapsforum segja að það sé mjög erfitt að framfleyta sér í Svíþjóð nútímans fyrir þá sem hafi litla menntun eða hæfni. Svíþjóð sé land sem bráðvanti hámenntaða og færa starfsmenn í mörgum starfsgreinum en atvinnuleysi sé verulegt. Margir haldi að menntun sé einhver töfralausn en það sé ekki alveg rétt. Komi menn þangað sem miðaldra flóttamenn með litla skólagöngu að baki þá þarf langan tíma á skólabekk til að verða vinnufær. Og þegar menn komist út á vinnumarkaðinn þá séu kannski bara nokkur ár í eftirlaunaaldurinn.

Skildu eftir skilaboð