Hver er Kári?

frettinPistlarLeave a Comment

Eftir Ögmund Jónasson fyrrv. alþingismann og ráðherra:

Ég hef haldið úti eigin heimasíðu í allmörg ár. Þar birti ég eigin pistla og greinar, bréf frá lesendum svo og aðsendar greinar undir heitinu Frjálsir pennar. Þar eru á ferðinni ýmsir sem velja þennan vettvang í samráði við mig til að viðra skoðanir sínar. Það gera þeir undir nafni en þó með undantekningum. Einn slíkur er Kári.

Hann hefur skrifað mikið um Evrópulöggjöf, margar greinar um raforkumál og þá sérstaklega orkupakkana og almennt þóttu innlegg hans upplýsandi þegar mest var rætt um orkupakka 3 enda fór hann af þekkingu í saumana á lögum og reglugerðum.

Stundum hefur Kári farið út á grátt svæði umdeildra skoðana. Það gerði hann nýlega þegar hann fjallaði einmitt um skoðanir og vaxandi tilhneigingu til að setja skorður við tjáningu þeirra. Það gerist nú í sívaxandi mæli um heiminn allan. Um það verður varla deilt.

Við þekkjum flest þá þróun sem á sér stað á samfélagsmiðlum þar sem lokað er á tilteknar veitur, einstaklinga og hópa. Ég hef séð mörg dæmi þessa og þekki þetta að auki af eigin raun.

Kári gekk langt í samanburði sinum og kvað hollt að horfa til regluverks ættaðs frá Brussel sem stangaðist orðið á við yfirlýst grunngildi Evrópusambandsins og mannréttindasáttmála Evrópu um skoðana- og tjáningarfrelsi. Minnti hann á þegar Þriðja ríkið - ríki nasismans – tók að þrengja að tjáningarfrelsinu og vísaði þar í lög frá þeim tíma þar sem ríkisvaldið kvað upp úr um rétt og rangt, æskilegt og óæskilegt, leyfilegt og óleyfilegt.

Þetta fór illa í marga. Var verið að líkja Evrópusambandinu við nasisma Hitlers? – það er fyrir neðan þína virðingu að birta slík skrif, fékk ég að heyra en svo alltaf klykkt út með spurningunni um hver væri Kári.

Já hver skyldi hann vera? Í þeim gagnrýnu athugasemdum sem mér bárust var þetta þungamiðjan; hneyksli að birta vangaveltur af þessu tagi og það eftir nafnlausan mann. Hver er kennitalan var spurt með þjósti?

Minna fór fyrir tilraunum til að hrekja röksemdirnar, skoða lögin sem voru til  umfjöllunar og hvort fótur væri fyrir því að skoðanakúgarar væru að færa sig upp á skaftið, ríkisvald eða auðvald nema hvort tveggja væri.

Skoðanakúgun getur átt sér stað – og á sér stað með margvíslegum hætti. Ríkið getur bannað skoðanir, eigendur fjölmiðla geta bannað tilteknar skoðanir eða bannað tilteknum aðilum að tjá þær og síðan er náttúrlega hægt að grípa til persónuníðs; níða skóinn af þeim sem talar fyrir “óheppilegum“ málstað. Þá er farið í manninn og hann látinn finna til tevatnsins.

Og erum við nú aftur komin að Kára. Það er nefnilega erfitt að afgreiða mann án heimilisfangs og kennitölu. Menn neyðast þá til að taka miðilinn sem leyfir hinn „óheppilega“ málstað og dangla í hann.

En setjum nú svo að við viljum alls ekki hafa þetta svona, viljum málefnalega og gagnrýna umræðu jafnt með „heppilegum“ og „óheppilegum“ skoðunum. Hvað er þá til ráða?

Ég ætla að leyfa mér að setja fram tilgátu og hún er þessi: Ef allir hættu að skrifa í eigin nafni og þá einvörðungu undir dulnefni – og vel að merkja, ég er ekki að tala um nafnlaus skrif þar sem vegið er að æru manna - þannig að enginn gæti gengið að því vísu hver það væri sem rýndi í málin hverju sinni, þá yrði umræðan önnur. Enginn vissi með öðrum orðum hvort viðkomandi væri framsóknarmaður eða samfylkingar-, borgarbúi eða dreifbýlismaður, vélstjóri eða verkfræðingur, lesendur yrðu einfaldlega að takast á við skoðanir án þess að vita nokkur deili á höfundi umfram það sem mætti ráða af skrifunum, nefnilega, málefnum og rökstuðningi fyrir þeim.

Elinora Roosevelt var glúrin kona. Hún sagði eitthvað á þá leið að víðsýnt fólk og stórhuga gæti rætt málefni, þeir sem væru smærri í hugsun ræddu í besta falli um atburði, ekki hina stærri umgjörð en smásálirnar héldu sig einvörðungu við persónur. Og þannig er það, þau síðastnefndu draga iðulega umræður niður að gólflistanum eins og dæmin sanna.

Þess vegna er spurt: Ef við nú gæfum persónunum frí - allir skrifuðu nafnlaust - væri þá von til þess að gætum betur einbeitt okkur að málefnunum?

Greinin birtist fyrst í Morgunblaðinu 22.5.2022 og á Ögmundur.is

Skildu eftir skilaboð