Baráttukonan Candace Owens frumsýndi heimildamynd sína um Black Lives Matter hreyfinguna, „The Greatest Lie Ever Sold", hinn 12 október í Nashville að ýmsu frægu fólki, svo sem Ye West, Kid Rock og Ray J. viðstöddu. Brandon Tatum, annar stofnanda Blexit (Svart fráhvarf frá Demókrötum), kynnti hana og var henni innilega fagnað áður en sýning myndarinnar hófst. Nýlega kom hún fram í þætti Tucker Carlson, Tonight, til að ræða af hverju hún hefði ráðist í gerð þessarar myndar. Hún sagði þar: „Þau nýta sér þjáningu svartra til að skapa óreiðu og hafa milljónir á milljónir ofan, tugi milljóna, af fólki," sagði hún um BLM og tengda hópa. „Og í hvað fara peningarnir Tucker? Það er einmitt viðfangsefni heimildarmyndarinnar, fólk mun hneykslast."
Á Fréttin.is kom fram í maí á þessu ári að bandarískir fræðimenn teldu sumir að samfélög svartra væru verr stödd eftir að BLM mótmælin fóru eins og logi um akur um Bandaríkin, t.d. hefði morðum á svörtum fjölgað. Þar kemur fram að kallið um minni löggæslu (helsta krafa BLM) sé ekki meirihlutakrafa svartra því skv. Gallupkönnun frá því í ágúst 2020 vildi 81% svartra Bandaríkjamanna hafa lögregluna jafn lengi eða lengur í sínu hverfi. Í greininni segir: „Leiðtogar BLM virðast hafa stjórnast af eiginhagsmunum. Langstærsti hluti þess söfnunarfjár er þeim barst virðist horfinn en fréttir berast af húsakaupum í dýrum, hverfum, svo sem af 6 milljóna dollara glæsihýsi í Kaliforníu, partíum og fleiru. Bókin um Félaga Napóleon kemur upp í hugann."
Strax í upphafi BLM mótmælanna mótmælti Candace þeirri stefnu fjölmiðla síðustu árin að gera svarta glæpamenn að fórnarlömbum hvítrar yfirburðahyggju og hetjum blökkumanna. Fyrir það var henni úthúðað og sýnir hún illgjörn ummæli þáttastjórnenda Young Turks og Dave Chappelle um sig.
Í fyrri hluta myndarinnar sýnir Candace ýmislegt efni, viðtöl og fleira til að gefa fyllri mynd af því sem gerðist í tengslum við dauða George Floyd. Sambýlingar hans til nær 5 ára bera honum vel söguna, hann hefði verið félagslyndur og almennilegur og hafi reynt að losna undan efnafíkn sinni en karlarnir á heimilinu kynntust einmitt í meðferð. Candace sýnir langa sakaskrá hans þar sem ránið á heimili Aracely Henriques 2007 ber hæst. Floyd bankaði uppá og sagðist vera frá vatnsveitunni og félagar hans ruddust inn og létu greipar sópa. Sjö ára sonur konunnar horfði upp á móður sína barða og ógnað og var svo kallaður til að bera kennsl á Floyd. Candace sýnir dánarvottorðið og ræðir við glæpasérfræðinginn Dr. Ron Martinelli sem segir að bæði hafi Floyd verið með skuggalega mikið a fentanyl og methamphetamin í líkamanum en einnig með stækkun á hjarta sem auki stórlega líkur á skyndidauða, eða 150 falt.
Candace telur ósannað hvað olli dauða George Floyd og það að lögreglumaðurinn Derek Chauvin hafi fengið 22 og hálfs ára fangelsi fyrir að myrða hann hafi komið til eingöngu vegna fjölmiðlanna sem skiluðu sektardómi fyrirfram, ásamt Joe Biden og fleiri valdamönnum. Hún tekur viðtal við Bob Kroll, sem er í forsvari fyrir stéttarfélag lögreglumanna í Minneapolis og konu hans, Liz Collins, sem var flæmd úr starfi sem fréttaþulur í borginni. Hatrið á lögreglunni var svo mikið að menn útbjuggu af þeim myndir í líkamsstærð og börðu þær með kylfum á götu úti. Hún tekur einnig viðtal við séra Charlos Karuku í Minneapolis. Þau skoða helgidóminn sem hefur verið komið upp þar sem Floyd dó. Hann segir að fyrir óeirðirnar hafi þetta verið venjuleg borg en flestar verslanir hafi verið eyðilagðar og standi nú tómar. Skotárásum og morðum hafi fjölgað og allt horfið þar til verri vegar. Peningarnir sem komu inn vegna dauða Floyd hafi ekki ratað til þeirra.
En hvert fóru þá peningarnir? Candace dregur fram skattaframtal samtakanna. Uppgefnar tekjur voru tæpar 80 milljónir USD. Vitað var áður að leiðtogi samtakanna, Patrisse Cullors hafði keypt margar dýrar eignir, þar á meðal 6 milljóna dollara glæsihýsi í Kaliforníu. Hún virðist hafa gert vel við ættingja og vini. Bróðir hennar fékk 840 þúsund dollara á ári fyrir öryggisvörslu, barnsfaðir hennar fékk 970 þúsund. Átta milljónir fóru til að kaupa eign í Kanada fyrir eiginkonu Patrisse (sem er reyndar transmaður). Fjöldinn allur af félögum transfólks og LBGTQ fengu 200 þúsund dollara styrki, samanlagt 2.6 milljónir. Eitt þeirra var félag vændisfólks og BDSM. Ekkert félaganna hefur skilað skattskýrslu, skv. Candace, og aðeins var svarað í síma hjá einu þeirra, þar sem starfssemin fólst í stuðningi við þá sem höfðu verið handteknir vegna mótmæla. Stærsti styrkurinn, 2.3 milljónir fór til félagsins Living Through Giving, þar sem ekki er nein starfssemi, og virðist ekki hafa verið. Candace rakti félagið til vinar Patrisse, kaffihúsaeiganda í Kaliforníu og spáir í hvort hún sé meðeigandi.
Í lok myndarinnar fer Candace (sem er sjálf svört) í heimsókn til Patrisse í glæsieignina í LA. Hún sagðist vilja vita hvort hún stæði svörtu fólki opin eins og upphaflega var sagt, en var ekki hleypt inn um hliðið og sá ekki neinn svartan mann, aðeins einn hvítan - hundurinn var ekki einu sinni svartur. Hún sýnir einnig viðbrögð Patrisse við þessari mislukkuðu tilraun til að heimsækja hana, þar sem hún kvartar með tárin í augunum undan ofsóknum, hún finni til óöryggis og það sé verið að reyna að eyðileggja hreyfinguna.
Í lok heimildamyndarinnar, sem má finna á Daily Wire (ekki ókeypis), segir Candace að hefðu menn lagt áherslu á fíknivanda George Floyd þá hefði það getað sameinað fólk. Hann var reyndar að reyna að kaupa sígarettur með falsaða seðlinum sem hann var handtekinn fyrir að framvísa. Dópsali hans, sem var með honum í bílnum hafði áður verið gerður afturreka með falsaða seðla skv. búðareiganda er tekið var viðtal við í myndinni. Kannski átti Floyd ekki einu sinni seðilinn. Var dópsalinn einu sinni yfirheyrður? Candace kennir fjölmiðlunum um eyðilegginguna er BLM olli - þeir hafi þvingað alla til að ganga í takt, líka kviðdómendur og stjórnmálamenn. Þeir hafi tekið að sér að markaðssetja svikamyllu og fólk sem var kúgað til að láta af hendi peninga í hana ætti að vera reitt út í þá.
Brot úr myndinni má sjá hér og þar er einnig hægt að kaupa aðgang til að sjá í fullri lengd.