Emmanuel Macron forseti Frakklands, hefur gefið út að orkuverð í Frakklandi muni hækka um 15% snemma á næsta ári, og hvetur hann evrópsk stjórnvöld til að halda áfram að leita leiða til að hefta háa verðbólgu.
„Það verður 15% hækkun á raforku- og gasverði á fyrstu mánuðum ársins 2023,“ sagði Macron í viðtali á sjónvarpsstöðinni France 2 í gær, og bætti við að þökk sé aðgerðum stjórnvalda hafi verið komist hjá meiri hækkunum.
„Þegar það hefði átt að vera 100% hækkun á raforkuverði en vegna aðgerða okkar verður hækkunin 15%,“ segir hann.
Forsetinn lofaði að halda áfram að veita viðkvæmum hópum markvissa aðstoð, eins og námsmönnum, og talaði fyrir því að leiðrétta laun á meðan há verðbólga er áfram við lýði. Hann lofaði einnig „tugmilljóna evra“ aðstoð við fyrirtæki.
Svipað og í mörgum öðrum Evrópulöndum hefur Frakkland glímt við hækkandi orkuverð og framfærslukostnaðarkreppu vegna Úkraínustríðsins.
Elisabeth Borne, forsætisráðherra, kynnti áætlun í síðasta mánuði til að draga úr áhrifum verðbólgu, þar á meðal svokallaða „undanþágu orkumiða“ að verðmæti 100 evra og 200 evra, sem verða veittar 12 milljónum heimila í lok ársins.
Verðbólga á evrusvæðinu nam 9,9% í síðasta mánuði, en var 9,1% í ágúst samkvæmt Eurostat.
Bloomberg greinir einnig frá.