Við borgum ekki – bótasjóður fyrir þróunarlönd vegna hamfarahlýnunar

ThordisJón Magnússon, Loftslagsmál, Pistlar1 Comment

Eftir Jón Magnússon hæstaréttarlögmann:

Á loftslagsráðstefnunni í Egyptalandi krafðist Pakistan að stofnaður yrði bótasjóður, sem þjóðir Evrópu og N. Ameríku, sem bera ábyrgð á iðnbyltingunni greiddu þróunarríkjum eins og Pakistan, Kína og Indlandi, bætur fyrir tjón sem við eigum að hafa valdið vegna framþróunar,sem hefur orðið á vegna vestræns hugvits og dugnaðar.

Margir vestrænir leiðtogar þ.á.m. Svandís Svavarsdóttir tóku vel í hugmyndirnar og Svandís lofaði f.h.íslensku ríkisstjórnarinnar án allra heimilda, að leggja auknar byrðar á íslenskt alþýðufólk til að bæta þetta meinta tjón sem við eigum að hafa valdið. 

Hvað höfum við gert? Skiptir ekki máli segir VG við erum og höfum verið vondir kapítalistar og eigum að bæta fyrir þá synd. Syndaaflausn í formi nútíma aflátsbréfa vegna hamfarahlýnunar.

Fulltrúi Pakistan grét og vísaði í hræðileg flóð nýverið í Pakistan, sem hefðu kostað gríðarlega mörg mannslíf og allt væri það manngerðri hnattrænni hlýnun að kenna,sem kapítalistarnir í iðnvæddu ríkjunum bæru ábyrgð á. Þróunarlöndin tóku undir þetta einum rómi enda alltaf eygt auravon í loftslags bullfræðinni.

Þegar Pakistan fékk sjálfstæði frá Bretum 1947 voru 33% landsins skóglendi. Í dag er það einungis 5% landsins. Gæti það haft þýðingu varðandi afleiðingar mikilla rigninga?

Árið 1950 voru meiri flóð í Pakistan en á árinu 2022, þar sem helmingi fleira fólk fórst en núna þrátt fyrir að fólksfjöldi væri þá mun minni en nú. Á síðustu 50 árum hefur fólksfjöldinn í Pakistan vaxið úr 65 milljónum í 225 milljónir. Gæti það haft einhver áhrif. Eigum við að borga fyrir það?

Eiga íslenskir skattgreiðendur eða skattgreiðendur og neytendur í V. Evrópu og N.Ameríku að borga fyrir það að vegna framþróunar í kjölfar iðnbyltingarinnar og vestræns hugvits og dugnaðar hefur lífaldur lengst og fátækt og hungur í heiminum minnkað 

Það er svo alvarlegt mál fyrir Vesturlönd, að eiga fulltrúa á alþjóðaráðstefnum, sem eru rifnir úr tengslum við söguþekkingu og raunveruleikann og eru haldnir þvílíkri skömm á sjálfri sér og þjóðum sínum, að að þeir telja að allt sem misferst hefur í heiminum sé þeim að kenna og fyrir það verði skattgreiðendur og neytendur á Íslandi og víðar að greiða miklar bætur. 

Varla er hægt að finna verri stjórnmálamenn en þá, sem vilja rýra lífskjör eigin borgara vegna hluta sem þeim kemur ekkert við og er ekki þeim að kenna. Við stöndum á okkar rétti og virðum okkar gildi og dugnað.  Við neitum því að borga fyrir aflátsbréf Vinstri grænna í loftslagsbótasjóðinn.

One Comment on “Við borgum ekki – bótasjóður fyrir þróunarlönd vegna hamfarahlýnunar”

Skildu eftir skilaboð