Ritstjóri Kjarnans álítur höft á tjáningarfrelsi vera mannréttindi

frettinRitskoðun, Þorsteinn Siglaugsson1 Comment

Eftir Þorstein Siglaugsson formann Málfrelsis - samtaka um frjálsa og opna umræðu, lýðræði og mannréttindi:

Nýverið fjallaði Kjarninn um þá fyrirætlun Elon Musk að hætta sem forstjóri Twitter eftir að skoðanakönnun hans leiddi í ljós að það væri vilji meirihluta notenda miðilsins.

Í grein Kjarnans segir meðal annars: „Á meðal fyrstu verka hans sem eig­andi Twitter var að segja upp mörgum helstu stjórn­end­um, tæp­­­lega helm­ingi starfs­­­fólks og leggja mann­rétt­inda­­­deild fyr­ir­tæk­is­ins nið­­­ur.“

Nú er það rétt að Musk sagði upp þúsundum starfsmanna. Hann losaði sig þar á meðal við megnið af þeim sem séð höfðu um ritskoðun á Twitter. En að kalla þann söfnuð „mannréttindadeild“ er undarleg orðanotkun. Kannski höfundurinn, Þórður Snær Júlíusson hafi verið að ljúka við að lesa bók George Orwell, 1984, og líti á hana sem leiðbeiningarrit? Eitt lykiltæki valdhafanna í 1984 var nefnilega bjögun tungumálsins, nýtt tungumál raunar, "Newspeak" - „Nýmál“:

„Stríð er friður.“
„Þekkingarleysi er styrkur.“
„Frelsi er þrældómur“

Þessi slagorð þekkja allir sem lesið hafa 1984. Greinarhöfundur Kjarnans bætir nú við nýju slagorði:

„Ritskoðun er mannréttindi.“

Greinarhöfundur segir svo frá því að Musk hafi opnað miðilinn að nýju ýmsum sem bannaðir höfðu verið. Hann segir: „Þar er um að ræða fólk sem hafði verið sett í bann vegna hat­urs­orð­ræðu, upp­lýs­inga­óreiðu eða fyrir að fleyta sam­sær­is­kenn­ingum sem eng­inn fótur var fyr­ir.“

Einn þeirra sem þaggað var niður í á Twitter var Jay Bhattacharya, prófessor við Stanford háskóla, og ötull gagnrýnandi þeirrar samfélagslegu eyðileggingar sem Trump-stjórnin hófst handa við snemma árs 2020 og arftakinn hefur síður en svo látið af.

Musk bauð Bhattacharya á dögunum í heimsókn í höfuðstöðvar Twitter þar sem hann fékk að sjá með eigin augum hvernig „mannréttindadeild“ fyrirtækisins hindraði markvisst að sjónarmið hans kæmust á framfæri. Bhattacharya sem er nú að nýju orðinn öflugur notandi Twitter er meðal þeirra sem greinarhöfundur telur standa að „hatursorðræðu, upplýsingaóreiðu og samsæriskenningum.“

Ég lýk þessu með því að vísa í nýjustu „samsæriskenningu“ þessa virta, hugrakka og heiðarlega fræðimanns. Dæmi svo hver fyrir sig. Ég hvet ritstjóra Kjarnans eindregið til að láta nú í ljósi þá skoðun að staðreyndin sem Bhattacharya lýsir hér áhyggjum af sé lygi.

(Í færslunni fjallar Bhattacharya um nýja löggjöf í Kaliforníuríki sem gerir það refsivert ef læknar deila upplýsingum eða áliti sem ekki er í samræmi við opinbera stefnu eða fullyrðingar á hverjum tíma. Meðal þess sem verður refsivert samkvæmt lögunum er að mæla með þeirri stefnu sem Bhattacharya sjálfur ásamt fleirum mælti með haustið 2020 og snerist um að drepa ekki samfélög í dróma heldur beita markvissri vernd, stefna sem svipar mjög til stefnu Svía, sem ljóst er í dag að var miklu skynsamlegri og mannúðlegri en sú sem Bandaríkin fylgdu. Einnig yrði bannað að vísa í rannsóknir á borð við þessa  sem sýna hvernig smitlíkur aukast í hlutfalli við fjölda bóluefnaskammta, svo lengi sem staðhæfingar yfirvalda eru á skjön við slíkar niðurstöður.)

One Comment on “Ritstjóri Kjarnans álítur höft á tjáningarfrelsi vera mannréttindi”

  1. “Óþægilegar staðreyndir eru Hatursorðræða”
    “Tvö líffræðileg kyn er trans/homo-fóbîa”

    og svo mætti lengi telja.

Skildu eftir skilaboð