Fréttin hefur undanfarin misseri sagt frá fjölda stjarna úr skemmtiiðnaðinum sem hafa ýmist dáið, hnigið niður eða veikst alvarlega eftir að byrjað var að sprauta fólk með Covid-19 tilraunabóluefnunum.
Frægt varð þegar Ice Cube sagðist hafa hafnað hlutverki og 9 milljónum dollara í laun því hann vildi ekki þetta „fjandans sprautuefni“ sem honum var gert að skilyrði.
Núna hefur stór hópur Hollywood leikara ákveðið að stíga fram og berjast enn frekar gegn bólusetningaskyldunni sem ráðamenn í Hollywood hafa viðhaft gagnvart skemmtikröftum eftir að tilraunabóluefnin við COVID komu út um áramótin 2020/2021.
Fjölmiðillinn The Epoch Times fjallaði ítarlega um þetta mál í gær. Þar kemur fram að stór hópur Hollywood leikara hafi verið lokaður úti úr byggingum og þeim hafi verið bannað að sækjast eftir hlutverkum vegna þess að þeir ákváðu að láta ekki sprauta sig með COVID-19 tilraunabóluefninu.
Hollywoodstjörnurnar hafa sent yfir 800 tölvupósta til stéttarfélags síns SAG-AFTRA (Screen Actors Guild–American Federation of Television and Radio Artists) vegna áframhaldandi þvingana til „bólusetninga“ sem brjóti gegn stjórnarskrárréttindum þeirra, þar sem með því sé brotið gegn rétti þeirra til upplýsts samþykkis og til verndar gegn því sem einkennir læknisfræðilegar tilraunir þar sem yfirgnæfandi sannanir eru um mögulega hættu fyrir heilsuna.
Tölvupóstar, minnisblöð og önnur bréfaskipti sem The Epoch Times hefur fengið sýna að COVID-bólusetningaskyldan er í raun jafn mikið baráttumál í Hollywood og það hefur verið fyrir hermenn og heilbrigðisstarfsmenn í Bandaríkjunum.
Eins og komið hefur fram hjá öðrum starfsstéttum, þá sögðu leikarar við The Epoch Times að beiðni þeirra um undanþágu frá „bóluefninu“ á trúarlegum forsendum hafi verið hunsuð þrátt fyrir samninginn Return To Work Agreement sem SAG-AFTRA setti á laggirnar segi beinlínis að framleiðendur kvikmyndaefnis verði að taka þær beiðnir til greina.
Samkvæmt minnisblaði SAG-AFTRA er fjórði hver framleiðsluaðili með sprautuskyldu fyrir svokallaða "Zone A" starfsmenn, sem eru meðal annars leikararnir sjálfir.
Sumir leikarar sögðu einnig frá heilsufarsvanda sem þeir hafa orðið fyrir eftir að hafa látið undan og farið í COVID „bólusetningu,“ eins og t.d. Hollywood áhættuleikarinn og leikkonan Michelle Jubilee Gonzles, sem sagðist hafa þróað með sér bæði kvilla í æxlunarfærum sem og hjartaskaða strax eftir að hafa fengið sprautu.
„SAG-AFTRA er ekki lengur að vinna eins og meðlimarekið stéttarfélag heldur sem harðstjórn með Duncan Crabtree við stjórnvölinn“ sagði Stargate leikkonan Jubilee, en hún kom meðal annars að sjónvarpsþáttaröðinni Stargate Origins og áhættuleik í Marvel stórmyndinni Black Panther: Wakanda Forever frá 2022. „Það er glæpsamlegt það sem er að gerast undir stjórn hans,“ sagði hún.
Crabtree-Ireland er framkvæmdastjóri SAG-AFTRA. Hann svaraði ekki fyrirspurnum frá Epoch Times.
Andspyrna leikaranna eykst eftir framlengingu sprautuskyldunnar
Deilan harðnaði enn frekar fyrir þremur vikum þegar SAG-AFTRA, ásamt Bandalagi kvikmynda- og sjónvarpsframleiðenda, ákváðu að hætta ekki með, heldur framlengja sprautuskylduna og aðrar samskiptareglur fyrir félagsmenn.
Í síðustu viku kallaði leikarahópurinn eftir rökræðum um málið meðal þeirra eigin lækna gegn „barnalækni á eftirlaunum“ sem SAG-AFTRA stéttarfélagið hefur haft í þjónustu sinni til að koma á bólusetningaskyldunni. Stjórnendur stéttarfélagsins, þar á meðal forseti þess, höfnuðu þessari beiðni leikaranna.
Umræðan hélt áfram síðustu helgi þegar Woody Harrelson tók málið upp í Saturday Night Live á laugardagskvöldið þar sem hann líkti lyfjarisunum við eiturlyfjahringi sem höfðu keypt upp alla fjölmiðla og stjórnmálamenn eins og Fréttin sagði frá.
Tvískinnungur bólusetningaskyldunnar birtist svo vel síðastliðna helgi þegar hin árlega SAG-verðlaunahátið skjáleikara var haldin á sunnudagskvöldið. Þar var engin krafa gerð um „bólusetningu“ frekar en í eftirpartýinu sem People Magazine stóð fyrir.
Aukinn þungi í andspyrnu leikaranna er skiljanlegur. Fólk í skemmtanaiðnaðinum er enn að veikjast og deyja skyndilega. Ekki eru liðnir nema rétt um 10 dagar síðan hinn 28 ára gamli leikari Jansen Panettiere, bróðir leikkonunnar Hayden Panettiere, lést skyndilega vegna hjartavandamála. Í ljósi „bólusetningaskyldunnar“ í Hollywood má gera ráð fyrir að Jansen hafi verið sprautaður með tilraunabóluefni, enda hafa engar upplýsingar komið fram um að svo hafi ekki verið.