Á hvítasunnu

frettinBjörn Bjarnason, PistlarLeave a Comment

Björn Bjarnason skrifar:

Á hvítasunnu minnumst við kristnir menn þess þegar heilagur andi birtist lærisveinum Krists í Jerúsalem og þeir öðluðust styrk og þrek til að útbreiða boðskap hans.

Fyrir rúmum tveimur áratugum sat ég ráðstefnu um trú og menningu í Vatíkaninu í Róm. Trúarlegar og heimspekilegar umræður fóru fram. Sérstaklega er í minni að ungur hálærður prestur gekk í ræðustól og flutti innblásna ræðu um að ekki mætti gleyma heilögum anda og hvernig hann birtist í öllu sköpunarverkinu, listum jafnt sem öðru. Án hans væri til lítils unnið.

Í trúarjátningunni segjum við: Ég trúi á heilagan anda, heilaga almenna kirkju, samfélag heilagra, fyrirgefningu syndanna, upprisu mannsins og eilíft líf.

Á hvítasunnu minnumst við kristnir menn þess þegar heilagur andi birtist lærisveinum Krists í Jerúsalem og þeir öðluðust styrk og þrek til að útbreiða boðskap hans. Hvítasunnudagurinn er talinn fæðingardagur kristinnar kirkju.

Lærisveinarnir voru í Jerúsalem til að fagna Shavuot, gyðinglegri hátíð, sem var upphaflega uppskeruhátíð á fimmtugasta degi eftir páska.

Upphaflegt heiti hátíðarinnar, pentekosté eða fimmtugasti dagurinn, var tekið í arf frá grískumælandi gyðingum. Nú heitir hátíðin pentecost á ensku og pinse á dönsku.

Á Vísindavefnum segir Hjalti Hugason að til forna hafi heitið hvítadagur verið notað. Algengt var að skíra fólk á aðfaranótt hvítasunnu. Eftir skírnina voru þeir sem skírst höfðu færðir í hvít klæði eða hvítavoðir sem skírnarkjólar nútímans eiga rætur að rekja til. Hinir hvítklæddu skírnarþegar settu því mikinn svip á hátíðarhald dagsins og raunar alls páskatímans. Á ensku er einnig talað um Whitsunday.

Heilagur andi hefur auðveldað kristnum mönnum að sætta sig við að kirkja þeirra skiptist í ólíkar deildir sem boða á sinn hátt ólíkar leiðir til að rækta trúna og nálgast Krist. Allir eru innblásnir af heilögum anda. Skipti hann ekki síst miklu við siðaskiptin þegar mótmælendur kaþólsku kirkjunnar sóttu einnig styrk til hans og orða Biblíunnar.

Hvítasunnuhreyfingin kom síðan til sögunnar meðal mótmælenda á 19. öld og er nú mjög öflug um heim allan.

Í franska blaðinu Le Figaro segir í dag, hvítasunnudag (28. maí), að bæði innan kaþólsku kirkjunnar og kirkjudeilda mótmælenda hafi menn haft varann á sér gagnvart þeim sem hafi sótt kraft beint í heilagan anda með lestri Biblíunnar án guðfræðilegrar gagnrýni og leiðbeininga kirkjufeðranna.

Það er líklega þess vegna sem prestinum sem tók til máls á ráðstefnunni í Vatíkaninu um árið þótti svo miklu skipta að minna okkur hin, preláta og aðra, á mikilvægi þess að átta okkur á gildi heilags anda og opna hugann gagnvart honum.

Skildu eftir skilaboð