Jóhann grefur undan Kristrúnu formanni

frettinInnlent, Páll Vilhjálmsson, Stjórnmál1 Comment

Eftir Pál Vilhjálmsson:

Samfylkingin rekur tvöfalda ESB-stefnu. Kristrún formaður segir aðild að Evrópusambandinu ekki lengur á dagskrá. Jóhann Páll Jóhannsson þingmaður flokksins segir aðild að ESB enn á dagskrá, bara ekki á næsta kjörtímabili. Þingmaðurinn Helga Vala Helgadóttir talar á sömu nótum og Jóhann.

Samfylkingin ber kápuna á báðum öxlum, segist vera ESB-flokkur og vilji aðild en ekki þó í bili.

Eitt einkenni Samfylkingar frá stofnun, fyrir liðlega tveim áratugum, er að aka seglum eftir vindi. Í ríkisstjórn Geirs H. Haarde var Samfylking meiri frjálshyggjuflokkur en Sjálfstæðisflokkurinn. Í stjórnarandstöðu síðustu ára er Samfylking til vinstri við Vinstri græna. Tækifærishyggja og trúverðugleiki eru andstæður.

Kristrún Frostadóttir var kjörin formaður Samfylkingar, réttara væri að segja krýnd, til að gera flokkinn stjórntækan. Frá árinu 2013, þegar flokkurinn beið sögulegt afhroð, fór úr 30 prósent fylgi í 12,9 prósent, er flokkurinn á eyðimerkurgöngu með ESB-aðild sem eina stefnumálið.

Tilraun Kristrún, að boða ,,mjúka" ESB-aðild til langs tíma er dæmd til að mistakast. Þrennt kemur til. Í fyrsta lagi skilja þingmenn flokksins ekki skriftina á veggnum; fylgisdauði er afleiðing af ESB-stefnunni frá og með Jóhönnustjórninni 2009. Í öðru lagi ekki hægt að vera bæði með og á móti aðild að Evrópusambandinu, spurningin er annað hvort eða en ekki bæði og.

Í þriðja lagi verður Samfylking aldrei trúverðugt stjórnmálaafl ef vafi leikur á hvar flokkurinn stendur í stærstu málum. ESB-aðild er, svo notað sé orðfæri fyrrum forsetafrúar, stórasta mál 21stu aldar. Hrunið svokallaða gekk yfir á einu kjörtímabili í efnahagslegum skilningi þótt pólitísk áhrif hafi varað nokkru lengur. Aðild að ESB myndi móta Ísland til áratuga ef ekki lengur.

Ísland átti að græða á ESB-aðild, samkvæmt áróðrinum frá aldamótum. Tilfallandi höfundur, sem var stofnfélagi Samfylkingar, rifjaði upp fyrir ári hvernig þáverandi forysta flokksins svindlaði til að gera ESB-aðild að stefnumáli:

Samfylkingin gerðist ESB-flokkur með svindli. Tilfallandi höfundur veit það því hann var í flokknum á þeim tíma.

Haustið 2002, fyrir tuttugu árum, efndi Samfylkingin til innanflokkskosninga um þessa spurningu:  „Á það að vera stefna Samfylkingarinnar að Íslendingar skilgreini samningsmarkmið sín, fari fram á viðræður um aðild að Evrópusambandinu og að hugsanlegur samningur verði síðan lagður fyrir þjóðina til samþykktar eða synjunar?"

Þessi lævísa spurning var lögð fyrir flokksmenn í póstkosningum haustið 2002. Forysta flokksins vildi ekki umræður á vettvangi flokksins. Safnað var liði til að taka hús á flokksmönnum að innheimta atkvæðaseðla. Um þriðjungur flokksmanna hafði fyrir því að svara og meirihluti þeirra sagði já. Það þýðir að rétt um 15% flokksmanna jánkuðu því að skilgreina samningsmarkmið Íslands. En þau markmið voru aldrei skilgreind.

Er nokkur von til að fá fylgi í dag við þá firru að Ísland „græði“ á ESB-aðild? Evrópusambandið var um aldamót á flugi, tók upp sameiginlegan gjaldmiðil og stefndi að yfirráðum yfir álfunni og heimsvaldastöðu í framhaldi. Hver er staðan nú um stundir?

Í bakgarði ESB, Úkraínu, geisar heljarslóðarorusta þar tvö sem stórveldi, Bandaríkin og Rússland, etja kappi um Garðaríki og framtíð Evrópu. ESB er áhorfandi. Sléttustríðið er svanasöngur Evrópusambandsins sem heimsveldis. Bandaríkin, Rússland og Kína eru heimsveldi, Brussel-félagið er saumaklúbbur. Enginn gróði er fyrir Ísland að fá aðild, nema kannski fyrir diplómatínuna og fáeina háskólamenn, sérfræðinga, sem auka atvinnumöguleika sína.

Hvað með öryggismál á norðurslóðum? Bretland sleit sig frá ESB með Brexit árið 2016. Evrópusambandið á engan útvörð á Norður-Atlantshafi. Dettur einhverjum í hug að það þjóni hagsmunum Íslands að verða ESB-eyja á hafsvæði sem sögulega er breskt-bandarískt og Rússar og Kínverjar gera sér dælt við?

Kristrún formaður Samfylkingar reyndi að tala fyrir skynsemi í Evrópumálum. Þingmenn flokksins grafa undan henni með ESB-orðræðu sem er úrelt og beinlínis hættuleg hagsmunum Íslands í bráð og lengd.

One Comment on “Jóhann grefur undan Kristrúnu formanni”

  1. Við erum að taka við tilskipunum frá ESB sem sent er til EES til framfylgi að viiðhaldri hörðum refsingum verði þær ekki teknar upp.Min hugsun er er betra að vera útá eða innan með svona refsivendi yfir sér.

Skildu eftir skilaboð