Heimurinn að klofna

frettinGeir Ágústsson, PistlarLeave a Comment

Geir Ágústsson skrifar:

Vesturlönd hafa haft það frekar náðugt seinustu áratugina. Þau eru ríkust allra, friðsælust allra og hreinust allra. Þau fá til sín mat og varning frá öllum heimshornum og borga fyrir það með smápeningum sem eru prentaðir á Vesturlöndum og allir samþykkja að taka við. Ef Vesturlöndum vantar orku þá bora þau holur í jörðina þar sem þeim sýnist og láta senda sér alla orkuna á meðan heimamenn halda áfram að brenna stráum og þurrkaðri mykju til að fá orku. Ef Vesturlöndum vantar strigaskó þá henda þau í verksmiðju í einhverju þróunarríki til að framleiða þá og borga berfættum heimamönnum smápeninga fyrir greiðann.

Örfáum ríkjum hefur tekist að nýta sér þetta fyrirkomulag heimsverslunar. Í Suður-Kóreu, Taívan, Singapore og núna Kína hefur þátttaka í heimsversluninni lyft heimamönnum upp í svipuð lífskjör og þekkjast á Vesturlöndum. Frjáls verslun og vel varin eignaréttindi hafa stuðlað að slíkri þróun. En víða í Afríku láta menn ennþá sósíalismann plaga sig og heimamenn græða ekkert (ef einræðisherrar þeirra, sem þiggja arðgreiðslur úr olíuvinnslu og hjálparfé úr góðgerðarstarfi, eru undanskildir).

Núna er mögulega eitthvað að breytast.

Fyrir einhverjum árum komu fulltrúar Brasilíumanna, Rússa, Indverja og Kína saman og mynduðu með sér samstarfsvettvang sem fékk gæluheitið BRIC og sem Suður-Afríka bættist síðar við og úr varð BRICS. Lítið er fjallað um þennan samstarfsvettvang í íslenskum miðlum sem má teljast furðulegt því þetta er aðeins meira en kaffispjall nokkurra leiðtoga. Þar á bæ er samstaða um að bjóða upp á valkosti við vestrænar lausnir og vestræn viðhorf. Til að mynda beita engin ríki BRICS Rússum neinum efnahagsaðgerðum vegna innrásar þeirra í Úkraínu. Þar er talað um að búa til gjaldmiðil sem valkost við bandaríska dollarann. Og umsækjendur flæða inn að því marki að það fer að verða áberandi á heimskortinu.

En hvað þýðir þetta? Að heimurinn sé að klofna? Að það sé að myndast mótvægi við vestræn áhrif? Að einhver spenna sé að myndast? Mögulega allt þetta. Ef dollarinn missir stöðu sína sem hinn eini sanni gjaldmiðill í alþjóðaviðskiptum þá verður erfiðara fyrir Vesturlönd að halda sér uppi á útfluttri verðbólgu (þar sem er hægt að kaupa raunveruleg verðmæti fyrir peninga sem í sífellu eru að tapa verðgildi sínu vegna peningaprentunar). Mögulega eru vaxandi viðskipti að eiga sér stað með olíu án aðkomu dollarans, sem væru nýmæli. Þegar Bandaríkin beita dollarnum eins og vopni þá er sjálfsagt fyrir þann sem er laminn með því vopni að einfaldlega halda sig fjarri því.

Við teljum okkur í trú um að vestræn ríki marki ennþá stefnuna á heimssviðinu. Að það sem þau telja að sé rétt að gera sé það sem allir telji að sé rétt að gera. Að allir klappi þegar leiðtogar vestrænna ríkja tala. Þannig eru jú svokallaðar fréttir matreiddar ofan í okkur á Vesturlöndum. En kannski er þetta rangt og að hið rétta sé að Vesturlönd eru að mála sig út í horn og heimurinn að klofna með nýjum bandalögum.

Verðum við þá ánægð?

Skildu eftir skilaboð