Ráðuneyti aðstoðar í byrlunarmáli Páls skipstjóra

frettinInnlent, Páll VilhjálmssonLeave a Comment

Páll Vilhjálmsson skrifar:

Utanríkisráðuneytið aðstoðar lögreglu að fá upplýsingar um tölvupóstsamskipti eiginkonu Páls skipstjóra Steingrímssonar við blaðamenn. Skipstjóranum var byrlað 3. maí 2021, síma hans stolið og hann afritaður. Efni úr símanum birtist samtímis í Stundinni og Kjarnanum 21. maí og daga og vikur þar á eftir.

Samskipti blaðamanna við eiginkonu Páls hófust áður en hún byrlaði honum. Lögreglan er með skrá yfir símtöl sem fóru á milli en ekki innihald þeirra. Tölvupóstum sem fóru á milli konunnar og blaðamanna var eytt eftir að lögreglurannsókn hófst í kjölfar kæru Páls skipstjóra 14. maí 2021. Þar sem konan er með google-tölvupóst er afrit geymt hjá tölvurisanum.

,,Já, Google er með gmail-ið. Við höfum ekkert farið í að skanna síma hjá blaðamönnunum. En við höfum áhuga á upplýsingum frá síma konunnar," segir Eyþór Þorbergsson saksóknari. Treglega gekk að fá tölvupósta konunnar og leitaði lögreglan til utanríkisráðuneytisins að hlutast til um að tölvupóstar eiginkonunnar yrðu afhentir.

Framan af beindist rannsókn lögreglu að meðferð blaðamanna á einkagögnum skipstjórans. Eiginkona Páls játaði að hafa byrlað honum, stolið síma hans og afhent blaðamönnum. Eftir afritun var eiginkonunni falið að skila símanum til Páls sem lá meðvitundarlaus á gjörgæslu.

Fjórir blaðamenn voru boðaðir í yfirheyrslu í byrjun árs 2022. Þórður Snær Júlíusson, Arnar Þór Ingólfsson, Aðalsteinn Kjartansson allir á Heimildinni sem varð til úr Stundinni og Kjarnanum, og Þóra Arnórsdóttir hjá RÚV. Síðar fékk Ingi Freyr Vilhjálmsson á Heimildinni stöðu sakbornings, líkt og fjórmenningarnir.

Þegar leið rannsókn málsins komu fram afgerandi vísbendingar um að blaðamenn hafi verið í sambandi við eiginkonu skipstjórans áður en hún byrlaði og stal. Þóra Arnarósdóttir keypti í apríl 2021 Samsung-síma, samskonar og Páll notaði, og fékk á símann óskráð númer 680 2140, en sími Páls er með keimlíkt númer, eða 680-214X. Samsung-síminn sem Þóra keypti var notaður til að afrita síma skipstjórans og til samskipta, m.a. við eiginkonu hans.

Eftir að uppvíst varð um kaup Þóru á Samsung-símanum, í byrjun árs 2023, hætti hún á RÚV og fékk stöðu hjá Landsvirkjun. Aðrir starfsmenn á fréttastofu RÚV sem látið hafa af störfum í skugga lögreglurannsóknarinnar eru Rakel Þorbergsdóttir fréttastjóri og Helgi Seljan fréttamaður. Tilkynnt var um starfslok Rakelar haustið 2021. Helgi kvaddi RÚV í byrjun árs 2022.

Páll skipstjóri Steingrímsson var í sumar í viðtali hjá Frosta Logasyni. Hann boðaði að í kjölfar rannsóknar lögreglu, væntanlegrar ákæru og dómsmáls, muni hann höfða einkamál á hendur blaðamönnum. Í viðtalinu spyr Frosti Pál hvers vegna hann hafi ekki komið fram í fjölmiðlum til útskýra sína hlið á málinu.  - Ég hef tvisvar boðist til að koma fram í RÚV, en verið hafnað í bæði skiptin, sagði skipstjórinn.

Þau rannsóknargögn sem komin eru í umferð til sakborninga og brotaþola ná einkum yfir tímabilið frá ágúst 2021. Þau sýna veruleg samskipti blaðamanna við fyrrum eiginkonu skipstjórans, sem glímir við andlega vanheilsu og hefur oftar en einu sinni verð öryggisvistuð á sjúkrastofnun. Gera má ráð fyrir að samskipti blaðamanna við konuna hafi byrjað í mars eða apríl 2021 en skipstjóranum var byrlað 3. maí 2021, sem fyrr segir.

Í viðtalinu við Frosta rekur Páll skipstjóri atburði í lok apríl og byrjun maí 2021 sem leiddu til byrlunar og gagnastuldar. Hann víkur að þeirri sérkennilegu staðreynd að Aðalsteinn Kjartansson fréttamaður RÚV hætti fyrir hádegi á Efstaleiti þann 30. apríl og er orðinn blaðamaður á Stundinni eftir hádegi - þrem dögum fyrir byrlun. Á Stundinni sá Aðalsteinn um að skrifa fréttir upp úr síma skipstjórans.

Vegna sumarleyfa og annarra anna hefur verið hægagangur í rannsókninni síðustu vikur. Nú þegar dregur að hausti tekur réttvísin til við að færa málið í endanlegan búning.

Skildu eftir skilaboð