Rangar sakargiftir fjölmiðla

frettinInnlent, Páll Vilhjálmsson1 Comment

Páll Vilhjálmsson skrifar:

Ein ástæða fyrir drætti á sakamálarannsóknum eru rangar sakargiftir fjölmiðla. Tvö stór sakamál, Seðlabankamálið og Namibíumálið, eru búin til á fréttastofu RÚV. Í fyrra tilvikinu var gjaldeyriseftirliti Seðlabankans att á foraðið en embætti héraðssaksóknara í því seinna.

Í báðum tilfellum keyrði RÚV af stað herferð með tilstyrk frá öðrum fjölmiðlum, Heimildinni og forverum, og þingmönnum vinstriflokkanna að gera ásakanir trúverðugar. Meginstofnanir í samfélaginu, Seðlabankinn og embætti héraðssaksóknara, létu undan þrýstingi að hefja sakamálarannsókn á grunni falskra ásakana, rangra sakargifta.

Það liggur fyrir játning Helga Seljan fréttamanns RÚV að hann falsaði gögnin sem voru tilefni til ásakana um gjaldeyrismisferli Samherja. Í Namibíumálinu er ógæfumaður gerður að heiðarlegum uppljóstrara af RÚV.

Ef Jóhannes Stefánsson væri grandvar maður sem hefði orðið vitni að rangindum, mútugjöfum, hefði hann farið rakleiðis til yfirvalda, lögreglu og ákæruvalds, með sinn vitnisburð og gögn. En hann fór til Kristins Hrafnssonar á Wikileaks og Helga Seljan á RÚV. Jóhannes hafði aldrei áhuga á réttlæti heldur viðskiptum. Kristinn Hrafnsson á aðgang að digrum sjóðum Wikileaks.

Úr varð fjölmiðlaherferð með engri efnislegri innistæðu, annarri en græðgi og siðleysi uppljóstrara og blaðamanna. Héraðssaksóknari fylgi í humátt á eftir enda fékk hann 200 milljónir króna í sérstaka fjárveitingu frá alþingi til að elta uppspuna drykkjumanns og tveggja akívista. Til að kóróna fáránleikann eru tveir bræður í aukahlutverkum, annar blaðamaður Heimildarinnar en hinn saksóknari hjá embætti héraðssaksóknara. Einn skáldar fréttir annar sakir. Sjoppuliðið er eins fjarri réttarríkinu og Huddersfield úrvalsdeildinni.

Hvers vegna eru rangar sakargiftir RÚV í Seðlabankamálinu og Namibíumálinu ekki rannsakaðar? Enginn ber fram þá kröfu í fjölmiðlum, ekki heldur í pólitískri umræðu og sakamálayfirvöld halda að sér höndum.

Rangar sakargiftir fjölmiðla eru stóralvarlegt mál. Siðlausir fjölmiðlamenn vaða inn í hús og heimili með fölsk gögn og hugaróra sem átyllu. Fyrst hirða þeir æru og mannorð af saklausu fólki í beinni útsendingu; síðan er opinberum aðilum sigað á mann og annan. Engir eftirmálar af hálfu hins opinbera sem á að vernda borgarana fyrir óréttlæti. Meira að segja sumum í stjórn RÚV er ofboðið og láta bóka í fundargerð:

mikilvægi þess að fréttastofa starfi í samræmi við lög og virði friðhelgi borgaranna í hvívetna.

Eftirlitslausir fjölmiðlar án aðhalds færast allir í aukana, valdeflast í ósvífnum vinnubrögðum og telja sig hafna yfir lög og rétt. Seðlabankamálið hófst 2012 og Namibíumálið 2019. RÚV komst upp með gagnafölsun og siðleysi og vatt sér þegar í næsta verkefni, byrlunar- og símastuldsmálið er hófst vorið 2021.

Er enginn ábyrgur fullorðinn á vaktinni?

One Comment on “Rangar sakargiftir fjölmiðla”

  1. Arðrán Samherja i Namibiu er engu að síður staðreynd en Ruv er samt skítastofnun

Skildu eftir skilaboð