Katrín prinsessa af Wales þjáist af illkynjuðu krabbameini

Gústaf SkúlasonErlent, Gústaf Skúlason, Konungsfjölskyldur, KrabbameinLeave a Comment

Eftir að hafa horfið af sjónarsviðinu í nokkra mánuði sem varð til þess að alls kyns sögur og getgátur voru á kreiki um, hvað hefði komið fyrir Katrínu prinsessu af Wales, verðandi drottningamóður Bretlands, þá sendi hún frá sér myndband, þar sem hún útskýrir, að hún hafi greinst með illkynjað krabbamein (sjá að neðan).

Prinsessan, sem fór í stóra kviðaðgerð í janúar, segir í myndbandsyfirlýsingunni sem birt var 22. mars, að upphaflega hefði verið talið að ástand hennar væri ekki krabbamein en að síðari rannsóknir sýndu, að krabbamein hafði verið til staðar. Þrátt fyrir uppskurðinn tókst ekki að útrýma krabbameininu og er hún núna í fyrirbyggjandi krabbameinslyfjameðferð. Hún lýsti greiningunni sem „miklu áfalli.“ Prinsessan segir í tilkynningunni:

„Í janúar fór ég í stóra kviðarholsaðgerð í London og á þeim tíma var talið að ég væri ekki með krabbamein. Aðgerðin heppnaðist vel. Hins vegar leiddu rannsóknir eftir aðgerðina í ljós, að krabbamein var til staðar. Læknateymið mitt ráðlagði því, að ég ætti að fara í fyrirbyggjandi krabbameinslyfjameðferð og ég er núna á frumstigi þeirrar meðferðar.“

„Þetta kom auðvitað sem mikið áfall og við William höfum gert allt sem við getum til að vinna úr þessu og stjórna þessu einslega fyrir unga fjölskyldu okkar.“

„Við vonum að þið skiljið, að við sem fjölskylda þurfum núna smá tíma, pláss og næði á meðan ég lýk meðferðinni. Vinnan mín hefur alltaf veitt mér djúpa gleði og ég hlakka til að koma aftur til baka þegar ég get, en í bili verð ég að einbeita mér að því að ná fullum bata.“

Það þarf lítið ímyndunarafl til að átta sig á, hvað móðir með þrjú ung börn hlýtur að ganga í gegnum með krabbameinsgreiningu 42 ára að aldri. Í yfirlýsingunni segir prinsessan, að hún og eiginmaður hennar Vilhjálmur, prins af Wales, hafi tekið sér góðan tíma til að útskýra fyrir börnunum George, Charlotte og Louis og  „fullvissa þau um að ég muni ná bata.“

Skildu eftir skilaboð