Félagar í MÍR bjóða til opins fundar

frettinErlent, InnlentLeave a Comment

Fréttatilkynning

Félagar í MÍR, Menningartengslum Íslands og Rússlands, bjóða til opins fundar, þar sem ræddur verður nýfallinn dómur í máli félagsins og framtíð þess. 

Fundurinn verður haldinn í safnaðarheimili Laugarneskirkju við Silfurteig 2, 105 Reykjavík, þann 18. apríl nk. og hefst kl. 19:30.

Ítarefni

Félag um menningartengsl Íslands og Ráðstjórnarríkjanna (MÍR) á sér merka sögu, allt frá því þegar Sovétvinafélagið var stofnað fyrir rúmlega 90  árum. Undir núverandi nafni var félagið stofnað árið 1950. Margir merkir einstaklingar voru við stjórnvölin, þ.m.t. Halldór Laxness og Þórbergur Þórðarson. Eftir fall Sovétríkjanna urðu óhjákvæmilegar breytingar á starfi MÍR, en reynt var þó eftir fremstu getu að halda menningartengslum við Rússland sem og önnur fyrrum Sovétríki.

Undir síðustu stjórn hafa orðið umdeildar breytingar í starfseminni. Slitin voru tengsl við rússnesku rétttrúnaðarkirkjuna á Íslandi og við rússneskumælandi hópa. Þar sem rússneskumælandi hér á landi eru um nokkur þúsund manns, var í raun lokað á mjög stóran hóp. Einnig voru slitin tengsl við vináttufélag Rússlands og Íslands (ODRI) í Rússlandi og við sendiráð Rússlands hér á landi. Enn fremur tókst þeim á örfáum árum að fækka talsvert í röðum félagsmanna, svo þeir telja einungis 20 manns skv. félagatali sem var sett fram í október 2023. 

Félagsmenn, sem voru ekki sáttir við þessar breytingar og kæra sig um félagið og framtíð þess, gerðu ítrekaðar tilraunir til að ræða stöðu mála og finna úrlausn. Síðast en ekki síst snerist ágreiningur um síðasta aðalfund félagsins í júní 2022, þ.e. hvort aðalfund ætti að kalla, og ákvarðanir sem þar voru teknar. Reynt var að stofna til samtals í marga mánuði án árangurs. Þegar ljóst varð að sú leið var fullreynd, ákvað hópur félagsmanna að höfða mál.

Í stefnunni var krafist þess að ógilda ákvarðanir hinnar meintu stjórnar, þ.e. ákvörðun um sölu húsnæðis félagsins að Hverfisgötu 105, ákvörðun um að láta andvirði sölu þessarar fasteignar félagsins mynda stofnfé Menningarsjóðs MÍR og kjör stjórnar. Dómsúrskurður, sem féll nýlega, er afdráttarlaus: allar þessar ákvarðanir eru ógildar, þ.m.t. kjör stjórnar sem telst því ólögleg og umboðslaus.  

Í ljósi dómsins telja stefnendur að þessir umboðslausu aðilar eigi að stíga til hliðar og afhenda húsnæðið, skjöl og reikninga félagsins o.þ.h. Hins vegar mæta stefnendur þrjósku, óbilgirni og ólund af hálfu mótaðilans. Þrátt fyrir mjög skýra dómsniðurstöðu er staðan enn óleyst. Því bjóða stefnendur öllum sínum félögum í MÍR og áhugafólki um málefni félagsins á opinn fund um félagið og framtíð þess.

Annað efni: 

Skildu eftir skilaboð