Verulegar jarðhræringar hafa verið á Reykjanesinu að undanförnu og niðurstöðurnar nú eru nokkur tíðindi, segir í samantektinni.
„Veruleg aukning hefur orðið í hraunrennsli í Fagradalsfjalli síðustu vikuna. Meðalrennslið yfir tímabilið mælist 13 m3/s sem er miklu meira en þeir tæplega 8 m3/s sem áður hafa mælst. Aukið flæði hefur haldist í hendur við hækkandi kvikustróka og öfluga framrás hraunsins í Meradölum. Gosið er nú tvöfalt öflugra en það hefur verið lengst af. Merki um aukningu hafa þó verið undanfarnar tvær vikur en mælingin nú tekur af öll tvímæli“, segir í tilkynningu á vef Jarðvísindastofnunar.
Rúmmál hraunsins er nú orðið rúmlega 30 millj. rúmmetrar og flatarmál þess tæplega 1,8 ferkílómetrar.
Einnig er að finna á vef Jarðvísindastofnunar áhugaverð samantekt á þróun gossins á þeim rúmlega 50 dögum sem liðnir eru frá upphafi þess.
Þá hafa fundist jarðskjálftar víða á höfuðborgarsvæðinu og á Suðurnesjum, skjálfti að stærð 3.7 mældist í gær og svo reið snarpur jarðskjálfti yfir suðvesturhornið nú á fjórða tímanum sem var um 4.2 að stærð og fannst hann vel víða á höfuðborgarsvæðinu.