Prófessor í klíniskri sálfræði: ,,Óttaástandið skýrist af múgsefjun“

frettinErlentLeave a Comment

Matthias Desmet, prófessor í klínískri sálfræði við háskólann í Ghent í Belgíu hefur fjallað um og greint sálfræðilega óttaástandið sem nú hefur gripið heiminn heljartökum. Samkvæmt Desmet skýrist þetta ástand af því sem á ensku kallast "mass formation" eða "mass hypnosis". Íslenska orðið múgsefjun á vel við og einnig hugtakið dáleiðsla.

Þetta á sér samfélagslegar rætur, það eru fjórar forsendur sem þurfa að vera til staðar:

1. Óbundinn kvíði - fólk er kvíðið en hefur ekkert til að tengja kvíðann við.
2. Sívaxandi einangrun fólks.
3. Tilgangsleysi í lífi og starfi.
4. Óbundin árásarhneigð.

Veiran kemur fram á sjónarsviðið og Desmet, sem einnig er tölfræðingur, segist í fyrstu hafa velt mikið fyrir sér hvers vegna ekki færi saman hljóð og mynd annars vegar í raunverulegum gögnum um hættuna af henni og hins vegar í hræðsluáróðri og ótta fólks. Skýringuna á þessu segir hann þá að með tilkomu veirunnar gerist fernt:

1. Kvíðinn fær skyndilega viðfang, ógn sem hann getur beinst að.
2. Í stað einangrunar finnur fólk til samkenndar í baráttunni við þetta viðfang.
3. Baráttan skapar tilgang.
4. Árásarhneigðin beinist gegn þeim sem efast eða taka ekki þátt í baráttunni.

Með þessu skapast múgsefjunin, eða leiðslan sem hefur heltekið stóran hluta samfélagsins. Í slíku ástandi hættir allt annað en viðfang kvíðans að skipta máli. Og það óhugnanlega er að fyrir einstakling í slíku ástandi verður það markmið í sjálfu sér að viðhalda kvíðanum, viðhalda dásvefninum. Þetta skýrir hvers vegna gögn og upplýsingar hætta að skipta máli, hvers vegna öllu sem ýtir undir óttann er tekið fagnandi, sama hversu fjarstæðukennt það er. Og Desmet segir jafnframt að því fjarstæðukenndara sem innihald áróðursins verður, því móttækilegra verður fólk - þetta er mikilvægt einkenni múgsefjunar. Við vitum til dæmis núna að meginhluti Bandaríkjamanna trúir því að helmingur þeirra sem smitast af pestinni leggist á sjúkrahús, meðan raunin er að það eru 2-3%. Þetta skýrir einnig hvers vegna bólusetningarnar, sem maður trúði að yrðu lausn vandans, breyta í raun engu: Það skiptir engu máli hversu hverfandi hættan er orðin, því markmið einstaklings í leiðslu er að viðhalda henni. Að lokum skýrir þetta árásargirnina gagnvart öllum sem andmæla, og væntanlega einnig hinn ríka vilja til að mismuna fólki.

Þessu fylgir jafnframt það að horft er framhjá öllum þeim hörmungum sem sefjunin sjálf hefur í för með sér. Það er öllu fórnandi í baráttunni. Hundruðum milljóna ýtt undir hungurmörk - skiptir engu máli. Átta af hverjum tíu börnum búa við skerta geðheilsu - skiptir engu máli. Milljónir deyja vegna skorts á læknismeðferð þar sem stofnunum er lokað - skiptir engu máli. Níu ára barn er innilokað við fáránlegar aðstæður dögum saman án nokkurrar minnstu réttlætingar - skiptir engu máli.

Því þegar múgsefjun hefur gripið um sig er viðfang óttans það eina sem skiptir máli og þá hverfur allt siðferði.

Það var mér opinberun þegar ég horfði fyrst á viðtal við Desmet. Og sama gildir um aðra sem ég veit um sem hafa séð þetta. (Sumir sem ég hef bent á það hafa hins vegar neitað að horfa á það - kenningar hans skýra hvers vegna).

Viðtal við Desmet má meðal annars sjá hér

Þorsteinn Siglaugsson tók pistilinn saman.

Skildu eftir skilaboð