Foreldrar í Indiana ríki í Bandaríkjunum sögðu frá því að fjögurra og fimm ára gömul börn þeirra hafi fyrir mistök fengið fullorðinsskammta af Covid bóluefni, í staðinn fyrir flensubóluefni.
Atvikið átti sér stað í apóteki verslunarkeðjunnar Walgreens 4. október sl. Eftir bólusetninguna hringdi starfsmaður apóteksins í foreldrana til að upplýsa þau um mistökin. Bóluefnaskírteini barnanna sýndu sömuleiðis að börnin hefðu fengið skammt af Pfizer. Bóluefnið hefur ekki verið samþykkt fyrir yngri en 12 ára. Sjónvarpsstöðin WFIE-TV í Indiana flutti fréttirnar.
Farið var með börnin til barnahjartalæknis og var fjölskyldunni tilkynnt að bæði börnin væru með einkenni hjartakvilla.
Í svari til dagblaðsins Newsweek neitaði talsmaður Walgreens að tjá sig um málið og vísaði í persónuverndarlög.
„En almennt eru slík tilvik sjaldgæf og Walgreens tekur mál sem þessi mjög alvarlega," segir í svarinu. „Ef mistök sem þessi eiga sér stað er áhyggjuefnið fyrst og fremst velferð sjúklinga okkar. Bólusetningarferli okkar felur í sér þó nokkrar öryggisathuganir til að lágmarka líkurnar á mannlegum mistökum og við höfum farið yfir ferlið með starfsfólki okkar í apótekinu til að koma í veg fyrir að slíkt endurtaki sig."
Í apríl sl. átti sér staða svipað atvik í Walgreens í Norður-Karólínu en þar fengu nokkrir einstaklingar saltvatnslausn í stað Covid bóluefnis.