Töluverð andstaða hefur verið við Covid bólusetningar í Ástralíu þar sem rétt um 35% þjóðarinnar er tvíbólusett og hafa stjórnvöld boðað ýmsar takmarkanir gegn þeim sem ekki láta bólusetja sig. Meðal annars eiga Ástralir það á hættu að geta ekki stundað atvinnu og í Victoria fylki hefur verið sett bólusetningarskylda á atvinnu-og afreksíþróttafólk.
Ónafngreindur hópur „örlátra góðgerðarmanna og fyrirtækja" hafa hrint af stað nokkurs konar happadrætti undir nafninu Million dollar vax til að ýta undir bólusetningar í landinu. Bólusettir geta unnið til ýmissa vinninga, þar á meðal eina milljón ástralskra dala.
„Því fljótar sem við náum hærra bólusetningarhlutfalli á landsvísu, þeim mun fyrr getum við snúið aftur til eðlilegs samfélags og viðskiptalífs," segir á „happadrættismiðanum."
Happadrættið er auglýst á götum úti og sýnir mynd af handleggi með „plástri" á sprautustað þar sem á stendur $1.000.000.