Lúxemborg mun verða fyrsta Evrópuríki til að lögleiða ræktun og notkun á kannabis plöntunni, að því er ríkisstjórn landsins tilkynnti á föstudag.
Með nýju lögunum verður öllum 18 ára og eldri í Lúxemborg leyfilegt að nota og rækta kannabis, allt að fjórar plöntur á hverju heimili. Lúxemborg verður þannig fyrsta ríkið í Evrópu til að lögleiða að fullu ræktun og neyslu kannabis jurtarinnar.
Afglæpavæðing mun einnig leiða til verulegrar lækkunar á fjársektum fyrir vörslu á þremur grömmum af kannabis eða minna. Neysla efnisins á almannafæri verður hins vegar áfram ólögleg.
Viðskipti með kannabisfræ verða einnig leyfð samkvæmt nýju löggjöfinni og ekkert takmark verður á magni tetrahýdrókannabínól (THC), innihaldi jurtarinnar sem hefur hugbreytandi áhrif.
Stefnubreytingin er tilraun stjórnvalda til að draga úr eiturlyfjatengdum glæpum og eiturlyfjaviðskiptum á svörtum markaði. Ráðherrar munu þannig geta haft stjórn á kannabismarkaðnum sem nú er ólöglegur.