Matvælastofnun (MAST) hefur að undanförnu sýnt af sér mikla forræðishyggju vegna sex ára gamals refs sem rapparinn Ágúst Beinteinn Árnason, er búin að eiga og ala upp sem gæludýr í sex ár. Refurinn ber nafnið Gústi Jr. og hefur verið alinn upp eins og hundur frá því hann var yrðlingur og þekkir því ekkert annað umhverfi en heimilið sem hann ólst upp í með rapparanum, og eru þeir miklir vinir. Ágúst segir Gústa ofdekraðan ref sem fái allt sem hann vill, fái nóg að borða og sé reglulega baðaður.
Rapparinn Ágúst hefur að undanförnu birt skemmtileg myndbönd af sér og refnum Gústa Jr. sem hafa notið mikilla vinsælda og ekki hægt að sjá annað en að ekki væsi um refinn og hann sé sáttur við tilveruna.
Lögreglan mætti hins vegar í kjölfarið á heimili Ágústs með leitarheimild vegna þess að MAST hefur nú kært Ágúst fyrir að ala upp dýrið og vill fjarlægja hann af heimilinu og koma fyrir í Húsdýragarðinum með villtum refum sem Ágúst telur að hann myndi ekki lifa af, þar sem hann þekkir hvorki umhverfið né vanur því að vera í návist annarra refa. Lögreglan kom hins vegar að tómum kofanum og fann refinn Gústa Jr. hvergi, en hún leitaði um allt hús og m.a. inni í fataskápum.
MAST hefur sýnt rapparanum mikinn fjandskap vegna málsins og hótar því að málinu sé ekki lokið og allt verði gert til að hafa uppi á dýrinu.
Á Íslandi eru refir réttdræpir og eru hundruð drepnir hér á landi árlega. Verður þetta að teljast nokkuð fornaldarleg lög og spurning hvort ekki sé kominn tími til að breyta þeim þar sem það getur ekki talist annað en dýraníð að fjarlægja dýr úr öruggu umhverfi þar sem því líður vel, aðeins til að fylgja gömlum kreddum og lagabókstöfum sem virðast barn síns tíma.
Visir greindi frá málinu og má sjá viðtal við rapparann hér að neðan.