Yfirvöld á Tonga (Vinaeyjum) í Suður-Kyrrahafi hafa staðfest að fyrsta tilfellið af Covid-19 hafi nú greinst á eyjunni. Um hundrað þúsund manns búa á Vinaeyjum en ekki eitt einasta smit hefur greinst þar hingað til þó hver bylgja faraldursins á fætur annarri hafi riðið yfir heimsbyggðina síðustu átján mánuði.
Í frétt New York Times kemur fram að smitið hafi greinst hjá fullbólusettum einstaklingi sem var nýkominn til eyjarinnar með flugi frá Nýja-Sjálandi. 215 manns voru í flugvélinni sem kom frá borginni Christchurch.
Ljóst er að yfirvöld taka þessu alvarlega og sagði Pohiva Tuionetoa, forsætisráðherra Tonga, að íbúar gætu þurft að búa sig undir takmarkanir á næstu dögum og jafnvel útgöngubann ef fleiri smit greinast.
Um þriðjungur fullorðinna á Tonga er fullbólusettur og hafa yfirvöld nú ákveðið að leggja aukinn þunga í bólusetningar meðal landsmanna þrátt fyrir að engin smit höfðu greinst áður en bólusetningar hófust og fyrsta smitið greinist hjá fullbólusettum einstaklingi.
Forsætisráðherrann, Pohiva Tuionetoa, varar við því að fleiri gætu verið smitaðir. Heilbrigðisstarfsmenn, lögreglumenn og aðrir sem komust í snertingu við þann smitaða eru nú í sóttkví.