Tónleikaferðalagi kanadísku söngkonunnar Céline Dion, Courage World Tour, sem átti að hefjast í Las Vegas í næsta mánuði hefur verið aflýst vegna
ófyrirsjáanlegra veikinda, segir í fréttatilkynningu á heimasíðu hennar. Tónleikarnir voru á dagskrá frá byrjun nóvember n.k. til febrúar á næsta ári.
Söngkonan hefur verið undir læknishendi sökum alvarlegra og viðvarandi taugakrampa sem koma í veg fyrir að hún geti tekið þátt í frekari æfingum fyrir sýninguna.
„Ég er niðurbrotin," segir Celine Dion í tilkynningunni. Ég og mitt teymi höfum verið að vinna að nýju sýningunni í átta mánuði og að geta ekki hafið sýningar í nóvember hryggir mig meira en orð fá lýst. Samstarfsaðilar mínir í leikhúsinu Resorts World Las Vegas og AEG hafa unnið allan sólarhringinn til að ná þessu. Glænýtt og fullkomið leikhús tilbúið, alveg stórglæsilegt. Mér þykir svo leitt að valda þeim og öllum aðdáendum mínum sem hafa skipulagt ferðir sínar til Las Vegas, vonbrigðum. Nú verð ég að einbeita mér að því að ná heilsu, ég vil ná mér eins fljótt og ég get."
Söngkonan áætlar að hefja tónleikaferð sína 9. mars 2022. Allir miðar verða endurgreiddir fyrir sýningum sem hefur verið aflýst.