Móðir kallar eftir því að einelti verði gert refsivert með lögum

frettinInnlendar

Móðir barns sem lent hefur í alvarlegu einelti í skóla sem utan skóla skrifar:

Í síðustu viku var einelti í skólum í Frakklandi gert refsivert og verður það samkvæmt lögum gert refsivert frá og með febrúar á næsta ári. Þetta var niðurstaða kosninga í franska þinginu og hlaut frumvarpið yfirburðarkosningu.

Nýju lögin varða við  allt að þriggja ára fangelsi og sektir varða allt að 45.000 Evrur. Ef fórnarlambið fremur sjálfsmorð verður fangelsisdómur allt að 10 ár og sektin hækkar í 150.000 evrur.

Nýju lögin gilda um börn í skólum og fullorðna í háskólum. Eineltið hafði tekið stakkaskiptum og aukist þegar gerendur fóru að nota farsíma og samfélagsmiðla til að niðurlægja fórnarlömb sín eftir skólatíma, sem og í skóla. Frakkar vonast til þess að nýju lögin verði til þess stöðva þetta skaðlega fyrirbæri.

Í síðastu viku var birt frétt þess efnis hér á landi að kórónuveirufaraldurinn hafi kostað heil­brigðis­kerfið um 27 milljarða á síðustu tveimur árum og að heil­brigðis­stofnanir hafi fengið þau skila­boð úr Heil­brigðis­ráðu­neytinu að spara hvergi í bar­áttu sinni gegn veirunni, öllum kostnaði verði mætt. En hver ætlar að senda slík skilaboð gegn eineltisfaraldrinum?

Mun Alþingi sem er löggjafarvald okkar setja lög hér á landi í þessum málaflokki því þörfin er brýn og þessi flokkur hefur verið látinn sitja á hakanum í allt of langan tíma með tilheyrandi skaða fyrir samfélagið.

Það væri eðlilegast ef frumvarp um refsingu vegna eineltis myndi því koma frá menntamálaráðuneytinu sem hefur allar upplýsingar og mismunandi skoðanir um einelti í skólum.

Hér að neðan má sjá svör frá mennta- og menningarmálaráðuneytinu og svo dómsmálaráðuneytinu þegar óskað var eftir svörum:

Upplýsingafulltrúi mennta- og menningarmálaráðuneytisins: ,,Því miður eru þetta mjög annasamir dagar á skrifstofum okkar en við munum gera okkar besta til að svara þér eins fljótt og auðið er.”

Upplýsingafulltrúi dómsmálaráðuneytisins: „Einelti í skólum og utan skóla er ekki viðfangsefni sem dómsmálaráðuneytið ber ábyrgð á. Menntamálaráðuneytið ber ábyrgð á þessu sviði.“

Mun löggjafarvaldið viðurkenna faraldurinn og meðhöndla sem slíkan?

Er ekki að kominn tími til að taka þetta brýna mál föstum tökum og hætt að hlaupast undan ábyrgð, því á meðan ekkert er aðhafst eru mörg líf í húfi, meðal annars líf barnanna okkar sem eru framtíðin.  Ég kalla til þess að gripið verði til aðgerða og komið í veg fyrir þetta vaxandi vandamál með löggjöf um að einelti verði gert að refsiverðu athæfi.

Í Covid faraldrinum stóðu stjórnvöld saman með öllum tiltækum ráðum og eyddu  miklum fjármunum í að reyna takmarka skaðann eins og mögulegt var. Væri þá ekki eðlilegt að fara sömu leið í að takmarka einelti eins og mögulegt er sem er einnig lýðheilsumál og ógnar lífi og heilsu margra, mál sem hefur verið viðvarandi vandamál í áratugi en lítið sem ekkert hefur verið aðhafst í málaflokknum nema tal og hjal sem breyta litlu.