Margrét greind neikvæð í sýnatökuprófi sem ekki var tekið

frettinInnlendar2 Comments

Margrét Friðriksdóttir ritstjóri hjá Fréttinni pantaði tíma í sýnatöku með hraðprófi á síðunni Covidtest.is í gær sem er á vegum Arctic Therapeutics.

Margrét fékk undanþágu frá Landlækni síðasta sumar til að láta aðeins taka PCR próf með hálsstroku, en undanþáguna fékk hún þar sem dóttir hennar hlaut skaða eftir PCR prófi sem tekið var úr nefkoki. Dóttirin fékk í framhaldinu reglulegar blóðnasir og tár láku úr augum þeim megin sem pinnanum var stungið. Á þessum forsendum var Margréti og dætrum hennar veitt undanþága frá sýnatöku úr nefkoki.

Margrét tók staðfestinguna frá Landlæknisembættinu með í sýnatökuna sem undirrituð er af Kamillu S. Jósepsdóttur. Til að byrja með þurfti Margrét að bóka tíma á síðunni covidtest.is og fékk barkóða sendan sem skannaður er af starfsmanni á staðnum sem einnig afhendir sýnatökuglas.

Ómenntað fólk tekur sýnin

Þegar komið var að Margréti spurði hún fyrst ungan mann um tvítugt sem ætlaði að taka sýnið hvort hann væri heilbrigðismenntaður. Hann svaraði að svo væri ekki og spurði hún þá hvað hann væri menntaður. Hann sagðist ekkert vera menntaður. Margrét gerði honum þá grein fyrir því að hún væri með undanþágu og einungis mætti taka munnstroku hjá henni og sýndi bréfið frá Landlækni.

Ung stúlka sem einnig var að vinna við sýnatökur sagði að ekki væru teknar munnstrokur hjá þeim, það væri einungis gert á Suðurlandsbrautinni. Margrét spurði þá á hvers vegum fyrirtækið væri, en þau gátu hvorugt svarað því en vísuðu á síðuna Covidtest.is.

Af þessum sökum þá ákvað Margrét að hætta við sýnatökuna og panta frekar tíma á Suðurlandsbrautinni þar sem undanþágan er tekin gild. Hún gekk því úr röðinni en beið eftir dóttur sinni sem fór í sýnatökuna.

Fölsk niðurstaða

Það gerðist svo einum og hálfum tíma síðar að Margrét fékk sent SMS frá staðnum þess efnis að hún hafi greinst neikvæð. Það verður að teljast nokkuð undarlegt því aldrei var neitt sýni tekið úr Margréti.

Þar að auki áttaði Margrét sig á því að hún héldi enn á sýnatökuglasinu þegar hún var komin út í bíl og ætlaði sér að henda því þegar heim kæmi því ekki hefði hún nein not fyrir það. Sýnatökuglasið er með barkóðanum og númeri sýnatökunnar.

Margrét fékk einnig tölvupóst með heilbrigðisvottorði sem staðfestir að hún sé ekki með COVID-19 og getur notað til að komast inn á staði þar sem krafist er hraðprófs.

Takmarkaðar upplýsingar um fyrirtækið

Þegar blaðamaður fór síðan að skoða upplýsingar um fyrirtækið kemur í ljós að heimasíðan veitir afar takmarkaðar upplýsingar, ekki er hægt að sjá hver stendur á bak við fyrirtækið og ekkert símanúmer eða heimilisfang er skráð.

Arctic Therapeutics er skráð í Sóltúni 12 hjá Fyrirtækjaskrá en engin starfsemi á vegum fyrirtækisins er staðsett þar. Þá er fyrirtækið skráð á Hákon Hákonarson sem er skráður með lögheimili í Bandaríkjunum en skráður tengiliður er sonur hans, Ívar Örn Hákonarson.  Símanúmer Ívars virðist óvirkt og næst ekki í hann. Ívar er skráður til heimilis í Sóltúni 11 við hliðina á fyrirtækinu þar sem starfsemin á að vera til heimilis samkvæmt RSK. Auk þess er samkvæmt Fyrirtækjaskrá stofnað annað félag í júní 2020 sem heitir Arctic Therapeutics Holding ehf., einnig til heimilis í Sóltúni 12.

Þegar eigandinn, Hákon Hákonarson, er skoðaður betur þá kemur fram að hann hefur verið að fást við genarannsóknir sem er skráð undir Arctic Therapeutics. Hér má einnig sjá að fyrirtækið hefur leyfi til að reka lífsýnabanka.

Hugrún Lísa Heimisdóttir er skráð sem ábyrgðaraðili sýnatökunnar og skrifar hún undir umrætt vottorð, en þegar blaðamaður Fréttarinnar náði sambandi við hana í dag tjáði hún blaðamanni að hún væri í jólafríi og búin að vera síðan 18. desember. Því er einkennilegt að hún sé að skrifa undir vottorð ef hún er fríi..

Út frá þessum upplýsingum verður að spyrjast hvort þessi próf séu eitthvað grín, í það minnsta þá eru samkvæmt þessum upplýsingum send út vottorð með jákvæðri eða neikvæðri niðurstöðu þrátt fyrir að ekkert sýni hafi verið tekið.

Lögmenn að skoða málið

Margrét hefur haft samband við lögmenn vegna málsins sem vilja láta skoða ferlið á sýnatökunum og hefja rannsókn á málinu.

Margrét bað síðan vinkonu sína að bóka sýnatöku í dag og leika sama leikinn þ.e. biðja um munnstroku og þegar því er neitað, að hætta þá við. Konan gerði þetta og var henni rétt í þessu að berast niðurstaða um að hún hafi einnig greinst neikvæð í sýnatöku sem fór aldrei fram.  Því er nokkuð ljóst að ekki er um einstök mistök að ræða.

Þess má geta að mbl.is fjallaði um sýnatökustaðinn Covidtest.is og vakti athygli á því að margt væri líkt með síðunum covidtest.is og Covid.is sem er á vegum embætti Landlæknis og Almannavarna. Meðal annars eru sömu litir notaðir í bakgrunni, appelsínugulur og blár, og því eflaust margir sem taka feil og gera ráð fyrir að fyrirtækið sé á vegum Covid.is en svo er ekki.

Blaðamaður hjá Fréttinni hafði einnig samband við Heilbrigðisráðuneytið til að spyrja á hverra vegum Arctic Therapeutics væri og hvenær það hafi fengið leyfi frá ráðuneytinu. Fátt var um svör í þeim efnum en blaðamanni var bent á að kalla eftir þeim upplýsingum með tölvupósti.

Þess má geta að íslenska ríkið greiðir um 4000 kr. fyrir hvert hraðpróf og fyrir um 6000 kr. fyrir hvert PCR próf.

Myndir af vottorðinu og SMS má sjá hér að neðan.


ImageImageImageImageImageImage

2 Comments on “Margrét greind neikvæð í sýnatökuprófi sem ekki var tekið”

  1. Seinustu stafir í númerinu á glasinu eru ekki sýnilegir, þar af leiðandi er ekki hægt staðfesta að þetta sé sama sýnatakan.

  2. Jón Einarsson, you are not visible at all, therefore it can not be confirmed that you are not a pig.

Skildu eftir skilaboð