Atlas eða Úral, Biden eða Pútín?

frettinPáll Vilhjálmsson, Pistlar, StjórnmálLeave a Comment

Páll Vilhjálmsson skrifar:

Úkraínustríðið veldur hruni annars tveggja heima. Annar á heimkynni við Atlantshaf en hinn beggja vegna Úralfjalla. Biden Bandaríkjaforseti er fulltrúi Atlantsheims en Pútín Úralveraldar.

Á spýtunni hangir 500 ára saga og gott betur. Ferð Kólumbusar yfir Atlantsála batt saman Vestur-Evrópu og nýja heiminn. (Innan sviga: sú saga gæti verið hálfu lengri ef samtímamönnum Leifs heppna hefði auðnast betur landtaka Vínlands). Fyrsta kastið var bandlagið undir spænsku forræði en lengstum engilsaxnesku. Rússland er bræðingur með eilítið lengri sögu, munar eitthvað þrem öldum. Rússastofn er þriggja þátta. Norrænir víkingar, slavar og Mongólar sem herjuðu í vestur á tíma Sturlunga á Íslandi.

Úkraína er á ítrustu austurmörkum Atlantsheims. Fái vestrið sigur þar á gresjunum stenst ekki Rússaveldi. Hvort Rússar myndu hopa hægt eða hratt er opin spurning. En skriftin á veggnum er öllum læs; Bjarmaland yrði vestræn hjálenda á landamærum Kína.

Sigri Rússar stöðvast vestræn framrás í austur sem hófst með Napóleon 1812 og endurtekin af Hitler 130 árum síðar. Tilraun Karls tólfta á 18. öld telst ekki með, hún var norræn ekki vestræn.

Atlantsheimur stendur veikari fótum en andstæðingurinn sé tekið mið af afstöðu alþjóðsamfélagsins. Gamla vestrið heldur enn samhljómi. Austur-Evrópa og fylgiríkin Japan og Ástralía eru spök. Að öðru leyti er fátt um fína drætti. Pútín er með Kína og vinsamlegt Indland. Forn fjandi, Tyrkland, er fremur hliðhollur. Í Afríku mæta Rússar vinum og sama gildir í Suður-Ameríku. Meðal múslímaríkja styrkjast Rússar en vestrið veikist.

Borgaraleg hugmyndafræði var, frá amerísku og frönsku byltingunum að telja, helsti styrkleiki Atlantsheims. Á seinni tíð víkja borgaralegar dygðir fyrir heimsendaspámennsku með sænska barnið Grétu Thunberg í fylkingarbrjósti og andlegri uppdráttarsýki kennd við woke. Menning sem heldur kynin þrjú, fimm eða seytján fær ekki marga kaupendur hjá henni alþjóð.

Pútín býður praktískari hugmyndafræði. Í fjölpóla heimi, segir hann, er vítt til veggja og hátt til lofts. Sinn sé siður í hverju landi og ekki annarra að kássast upp á framandi háttu þótt ströngustu skilyrði lýðræðis og algildra mannréttinda séu ekki uppfyllt. Alþjóð sér fjölpóla heim Pútín öllu umburðalyndari en síðpúritanisma sænska stúlkubarnsins. Hagnýt Pútínspeki tengist veruleikanum. Bidenfræði eru gamalmenni gengið í barndóm.

Gjaldi Atlantsheimur afhroð í Garðaríki er hætta á klofningi bandamanna. Rússar yrðu með flest ráð Vestur-Evrópu í hendi sér; öll Austur-Evrópa væri túnfótur Kremlarherra. Bandaríkin eru langt-í-burtu-land þegar kemur að orkuöflun. Heimtaug frá Síberíu er ódýrari svo miklu munar.

Með innlimun fjögurra úkraínskra héraða í Rússland lagði Pútín allt undir. Atlantsheimur teflir ekki sóknarskák í Garðaríki, fórnar aðeins efnislegum gæðum, ekki blóði. Þeir sem veðja á vestrænan sigur ganga með sólgleraugu í skammdeginu. Pútín er bæði með hrók og riddara í endataflinu en Biden aðeins peð.

Skildu eftir skilaboð