Víglínan: Ferðin til Garðaríkis

Erna Ýr ÖldudóttirErlent, Erna Ýr Öldudóttir, Pistlar, Stjórnmál, Úkraínustríðið2 Comments

„Megir þú lifa á áhugaverðum tímum“, segir gamalt kínverskt spakmæli. Þessa dagana gerast atburðir þeir, er ákvarða munu framgang sögunnar.

Fjölmiðlum á Íslandi bauðst fyrir milligöngu Konráðs nokkurs Magnússonar að senda fjóra fréttamenn, sér að kostnaðarlausu, í Bjarmalandsför. Um einstakt tækifæri var að ræða til að komast á stríðsátakasvæðið í Donbass/Úkraínu. Þar skyldi þjóðaratkvæðagreiðsla um sjálfstæði tveggja og inngöngu fjögurra svæða í austur Úkraínu í Rússneska ríkjasambandið, fara fram. Greina mátti frá atvikum mála við víglínuna, þar sem orrustan um framtíðina geisar þessa dagana. Um hagsmunastríð og alþjóðapólitískt einvígi á milli stórvelda er að ræða, ásamt uppgjöri menningar og þjóða, á sögulegu svæði blóðhefnda sem ná aftur í aldir.

Ég hafði eldað mat fyrir gesti og gangandi á heimili mínu eins og stundum áður. Það var venjulegt miðvikudagskvöld, 21. september. Eftir borðhald og frágang um kl. 21 settist ég niður fyrir framan tölvuna eitt augnablik og rak augun í frétt Ríkisútvarpsins um málið:

„Eins og áður segir hefur enginn fjölmiðill þegið boð rússneskra stjórnvalda, svo vitað sé. Konráð segist reikna með því að fara einn síns liðs og harmar að íslenskir fréttamenn vilji ekki fá „rétta mynd af stöðunni“ á yfirráðasvæðum Rússa í Úkraínu.“

Almenningur á rétt á upplýsingum

Gat það virkilega verið að íslenskir fjölmiðlamenn ætluðu að sitja blauðir fyrir framan lyklaborðið heima? Að láta erlendar fréttastofur matreiða fréttir af stórviðburðum sögunnar ofan í sig, án þess að kanna málið frá fyrstu hendi? Þekkt er að sannleikurinn er fyrsta fórnarlambið í stríði. Upplýsingaþokan þykknar og rökhugsun víkur fyrir tilfinningum, sem rótað er upp af óábyrgum stjórnmálamönnum og óvönduðum, hlutdrægum æsifréttum. Afar þröngum sjónarmiðum er telft fram af miklu afli, til að réttlæta blóðsúthellingar og sóun á almannafé. Meginreglan um rétt almennings á upplýsingum um það sem máli skiptir, verður þá sorglega víðs fjarri. Stríðsglæpir og styrjaldir fæðast í eitruðu umhverfi sem þessu.

Frettin.is hafði ekki verið boðið og ég ritaði vonsvikin skilaboð til ritstjórans, Margrétar Friðriksdóttur, um málið. Ritstjórinn vaski brást umsvifalaust við og hringdi í Konráð. Hún sagði honum að ritstjóri ásamt blaðamanni Fréttarinnar væru reiðubúnar að þiggja boðið. Konráð tók því vel. Hann hafði bara ekki séð Frettin.is áður, því hann fylgdist lítið með og fjölmiðillinn er ungur og upprennandi.

Margrét Friðriksdóttir, stofnandi og ritstjóri Fréttin.is. Myndbirting með hennar leyfi.

Tíminn var runninn út, og Konráð vildi fá upplýsingar í einum hvelli, í von um að enn yrði hægt að forvinna umsóknir um vegabréfsáritanir. Komið var framyfir miðnætti í Garðaríki. Alls enginn tími var til að spyrja spurninga eða velta málinu frekar fyrir sér. Nú varð að hrökkva eða stökkva. Dagurinn á eftir fór í að ganga frá flugmiðum, pappírum, kaupa búnað til ferðarinnar og pakka niður í handfarangurstöskur. Við fengum að vita að ferðalög og gisting með mat, ásamt öryggisgæslu, yrði í boði. Nánari „smáatriði“ lágu ekki ljós fyrir.

Óvænt hindrun í upphafi ferðar

Ég átti erfitt með að sofna af spenningi. Ég hafði aldrei komið til Rússlands, hvað þá til Úkraínu eða á stríðsátakasvæði. Ég hafði þó lengi fylgst grannt með röð atburða þar og hlakkaði til ferðarinnar, en kveið samtímis fyrir. Ferðin byrjaði á að ég svaf yfir mig eftir tveggja tíma svefn, en tókst þó að hendast af stað nógu tímanlega til að sækja Margréti og Konráð. Þegar ganga átti um borð í flugvél Icelandair upphófst heilmikið japl, jamm og fuður. Flugfreyjurnar meinuðu ritstjóranum að fara um borð á nokkuð hæpnum forsendum, eins og frægt varð. Við Konráð fengum okkur sæti að skipun freyjanna galvösku. Grímaðir farþegar störðu stjarfir fram fyrir sig í forundran. Vélin fór af stað um það bil 15-20 mínútum of seint eftir nokkuð þras og óbilgirni. Eigi varð útséð um að við næðum fluginu frá München til Istanbúl, þaðan sem flogið yrði til Moskvu.

Við Konráð sátum grímuklædd og hljóð í sætunum okkar. Skyndilega breyttist viðmót flugfreyjanna, sem kepptust við að gera grein fyrir atvikum frá sínum bæjardyrum séð og vera ofur almennilegar. Við sögðum fátt, en ég var með augun á verkefninu framundan. Þær buðust til að færa okkur, ásamt farangri, fremst í vélina til að við næðum næstu vél. Við fengum súkkulaði og flögur að gjöf, eins og við værum aftur orðin átta ára. „Grímuskyldan“ virtist einungis eiga við þegar upp var staðið, en ekki í sætunum. Við veltum fyrir okkur hvernig ritstjóranum reiddi af og öllum mögulegum ástæðum fyrir stífni Icelandair gagnvart henni, en urðum litlu nær. Kvíðinn yfir óvissunni framundan magnaðist talsvert við streituna sem hlaust af þessu stórfurðulega atviki.

Leiður misskilningur

Nú var úr vöndu að ráða, myndavélabúnaður og blaðamannapassar höfðu orðið eftir á Íslandi, í umdeildustu handfarangurstösku ársins. Konráð var miður sín, nú varð hann ekki hið einasta að gera grein fyrir því hversvegna ritstjórinn varð eftir. Miklu fé hafði verið til kostað til einskis. Áhyggjur af misskilningi í fréttaflutningi á Íslandi, um boð og fjármögnun ferðarinnar, gerðu einnig vart við sig. Að sögn Konráðs, var óánægja með fréttir um að boðið væri á vegum Rússneska ríkisins. Það hafði víst einungis haft milligöngu um, og aðstoðað við, útgáfu vegabréfsáritana með hraði. Mér hafði á skömmum tíma ekki tekist að komast að því hver bauð, og Konráð virtist ekki vita það nákvæmlega heldur. Þannig varð okkur um megn að leiðrétta þennan leiða misskilning. Við störðum alla leiðina til Þýskalands á skjái á sætunum fyrir framan okkur, í von um meðvind til að vinna flugtíma. Ég áttaði mig betur á að ég var orðin ein með verkefnið, og ferðinni var heitið út í óvissuna.

Hlutir fara úrskeiðis. Blaðamaður með eina hljóð- og myndavélabúnað ferðarinnar. Ljósmynd/Erna Ýr Öldudóttir

En ég treysti Konráði sem er ljúfur, hjálplegur og kurteis maður og við kynntum okkur betur í fluginu. Konráð kvaðst mundu reyna að útvega búnað, annars yrði ég bara að nota símann minn. Líðanin skánaði ögn og við bjuggum okkur undir að hlaupa sem fætur toguðu út úr vélinni eftir lendingu. Í München sá Icelandair í iljarnar á okkur, og við stoppuðum móð og sveitt við næstu brottfarartöflu. Vél Türkish Airlines myndi hefjast á loft án okkar. Við litum á hvort annað og vorum eiginlega alveg að fara að grenja. Þá skyndilega hljómaði kallkerfið á þýsku: Vélinni til Istanbúl seinkar.

Sinn er siður í landi hverju

Við ætluðum varla að trúa þessu láni í óláni, og tókum gleði okkar á ný. Türkish Airlines bauð grímulaust upp á afbragðs mat og vín, farþegum að kostnaðarlausu á almennu rými. Við þáðum matinn en afþökkuðum vínið. Ekkert mátti trufla lausn þrautarinnar við að komast á áfangastað. Mikligarður og Bosphorus-sund ljómuðu í sólinni við innhöfin tvö, Miðjarðar- og Svartahaf. Þegar við lentum þurfti að finna PCR-prófunarstöð, en í samskiptum Rússlands og Tyrklands er þess enn krafist að farið sé í slíkt próf áður en flogið er á milli landanna. Til þess varð að fara út af geysistórum flugvellinum og inn á hann aftur.

Mikligarður og Bosphorussund í fjarska. Ljósmynd/Erna Ýr Öldudóttir

Að lokum fundum við prófunarstöðina undir leiðsögn latra og óhjálplegra flugvallarstarfsmanna. Bíða varð í einn og hálfan klukkutíma eftir niðurstöðum. Þetta var mitt fyrsta PCR-próf og upplifunin var eins og það væri hreinn málamyndagjörningur, til að tefja og féfletta ferðalanga. Í millitíðinni náði ég að skrifa og senda eina stutta frétt um að atkvæðagreiðslan væri hafin. Blaðamaður mbl.is hringdi í mig, Icelandair dramað hafði komist í fjölmiðlana heima. Ég hugsaði með eftirsjá til Margrétar og kveið niðurstöðu prófsins. Jákvæð niðurstaða myndi stöðva för mína hjá Tyrkjasoldán. Svarið var neikvætt, kórónuveiru gleðileikurinn gat ekki lengur stöðvað ferð okkar. Við urðum að tékka okkur inn aftur og hlaupa á heljarstórum flugvellinum til að ná flugvél Aeroflot til Moskvu. Gríðarmikið öryggiseftirlit og pappírasýningar voru á landamærunum. Að því loknu stigum við löðursveitt inn í risaflugvél Aeroflot, með tíu sætaröðum og tveimur göngum. 

Rússarnir kunna að ferðast. Flugvélin var snyrtileg en íburðarlaus. Afslappað andrúmsloft var í vélinni og engar grímur eða tuð yfir farangri. Flugliðarnir voru kurteisir og klæddust einkennisbúningum með gylltum, ísaumuðum hamar og sigð með vængjum. Farangursgeymsluhólfin voru rúmgóð og boðið var upp á góðan heimilismat, farþegum að kostnaðarlausu. Mér til undrunar stunduðu farþegarnir að standa upp eftir flugtak, labba um, sækja sér kaffi og te úr sjálfsafgreiðslu og spjalla. Margir þvældust um vélina og settust í laust sæti hjá næsta ókunnuga manni, án þess að spyrja kóng né prest. Konráð hló og sagði mér að svona væri þetta bara þegar Rússar ferðuðust með flugfélaginu sínu. Ég sat sem fastast, en maður, kona á miðjum aldri og öldruð kona settust um stund í autt sæti við hliðina á mér, án þess þó að trufla.

Hótel Úkraína

Flugleiðin var löng, en flogið var yfir Svartahafið í austur til að forðast flugbanns- og átakasvæði á leiðinni, en þó helst víglínuna í Úkraínu. Við sátum í miðjuröð og ég náði ekkert að sofna. Lengi var flogið í austur áður en vélin snerist og flaug aftur vestur í átt að Moskvu. Við lentum á Sheremetyevo Alexander S. Pushkin alþjóðaflugvellinum klukkan fjögur að staðartíma um nóttina. Ég komst að því að Konráð var nokkuð vel fær í rússnesku og andaði léttar. Eftir að hafa komist klakklaust í gegnum pappíraskoðun og öryggiseftirlit, stóðum við útgang flugvallarins. Allt var skínandi hreint, gólfin gljáðu og leiðbeiningar voru með kírýllísku letri, en einnig á ensku og kínversku. Ungur sjálfboðaliði átti að sækja okkur en hafði, eins og ég, sofið yfir sig. Við biðum í klukkutíma, standandi upp á endann gjörsamlega örmagna. Úti var dimmt, kalt og rigning. Leigubílstjórar reyndu að harka farþega. Kona með þrjú börn beið við útganginn og barn í kerru sem æpti af gleði við að taka á móti föður sínum. Hann varð eitt sólskinsbros við að sjá þau, faðmaði og kyssti þau öll og fjölskyldan hélt glöð í bragði á brott.

Sjálfboðaliðinn birtist að lokum, lágvaxin og vingjarnleg ung kona í kápu. Fyrir utan beið svartur sendiferðabíll með skyggðum rúðum, leðursætum og bílstjóra. Við settumst inn og keyrðum um hálftíma leið að hótelinu okkar í miðborginni. Konráð spjallaði við stúlkuna og bílstjórann. Ég velti því fyrir mér fyrir hvern hún væri sjálfboðaliði, en var of svöng og þreytt til að blanda mér í samtal á rússnesku. Úti var of dimmt og blautt til að sjá mikið. Vegirnir voru sléttir með fjölda akreina, bílarnir virtust nýir, byggingarnar voru alveg feikilega stórar og fallega lýstar að utan. Áin Moskva rann í gegnum borgina. Ég gapti af undrun þegar í ljós kom að við skyldum gista á hinu glæsilega Hótel Úkraínu. Hótelið er fjallhátt, í nýklassískum stíl og uppljómað að utan. Á 34 hæðum er hótelið það hæsta í Evrópu, byggt á Stalín-tímanum og opnaði árið 1957.

Hótel Úkraína í öllu sínu veldi. Byggingin náðist ekki á mynd í heild sinni nema úr fjarskanum. Ljósmynd/Erna Ýr Öldudóttir

Klukkan var orðin sex og morgunverður á næsta leyti. Fleiri ungir sjálfboðaliðar á háskólaaldri tóku á móti okkur á íburðarmiklu hótelinu. Marmari, freskur í lofti og stóreflis blómaskreyting stóð á borði í anddyrinu miðju. Dýrar glæsiverslanir voru á jarðhæðinni, þar á meðal bílaumboð með lúxusvagna. Þau færðust undan svörum um, fyrir hvern þau væru í sjálfboðavinnu. Mér varð þó ljóst að um einhverskonar mannúðarmálasjóð gæti verið að ræða og andaði ögn léttar. Einn sjálfboðaliðinn lofaði að veita nánari upplýsingar að kosningunum loknum. Ég ákvað að láta þar við sitja, enda upp á náð þeirra komin að svo komnu máli. Við Konráð tékkuðum okkur inn, skiluðum farangrinum upp á herbergin og fórum glorhungruð aftur niður í morgunmat. Við pöntuðum kampavín og blinis með kavíar af matseðli. Það lögðum við á okkur, þrátt fyrir að hafa vakað og ferðast í meira en sólarhring. Tæknilega hefði verið hægt að segja að ég hafi verið komin til Úkraínu. Ferðin var þó rétt aðeins hafin.

Anddyri Hótel Úkraínu var tilkomumikið. Ljósmynd/Erna Ýr Öldudóttir

2 Comments on “Víglínan: Ferðin til Garðaríkis”

  1. Glæsilegt framtak hjá Fréttinni og Ýr en skammarlegt af þeim „Íslensku“ fjölmiðlum sem var boðið að hafa hafnað boðinu.

Skildu eftir skilaboð