Kosningarnar í Úkraínu: Meirihluti íbúa Donetsk búnir að kjósa í gær

Erna Ýr ÖldudóttirErlent, Erna Ýr Öldudóttir, StjórnmálLeave a Comment

Erna Ýr skrifar frá Moskvu:

Á öðrum degi atkvæðagreiðslunnar var meirihluti íbúa í Donetsk (Peoples Republic, DPR), eða rúmlega 55%, búnir að greiða atkvæði í kosningu um það hvort að sjálfsstjórnarríkið skuli verða hluti af Rússneska ríkjasambandinu seint í gær. Það hefur blaðamaður eftir ónefndum heimildamanni, sem kvað stjórnvöld á svæðinu hafa gefið það út. Það fékkst jafnframt staðfest hér.

Blaðamaður fór ásamt alþjóðlegum eftirlitsmönnum og fylgdist með utankjörfundaratkvæðagreiðslu í Moskvu í gær og í Sergyiev Posad í dag, en áætlað er að um 2,5 milljónir flóttamanna frá Úkraínu séu í Rússlandi. Rússneskir fjölmiðlar voru á svæðinu, en áhugi virðist vera fyrir því að sýna frá framkvæmd kosninganna og að þær séu opnar fyrir utanaðkomandi eftirliti.

Fjölmiðlar ræða við erlenda eftirlitsmenn.

Kjörstjórnir eru eingöngu mannaðar fólki frá svæðunum sem nú ganga til atkvæðagreiðslunnar, samkvæmt upplýsingum sem blaðamaður fékk á staðnum. Til að fá kjörseðil, þarf að sýna skilríki, vegabréf útgefið á umræddum svæðum og fylla út umsóknareyðublað. Blaðamaður fylgdist með í framkvæmd þegar kjósendur komu til að greiða atkvæði. Þeir sem myndu reyna að kjósa oftar en einu sinni eða reyna með öðrum hætti að „svindla“ verða sóttir til saka af stjórnvöldum, skv. kjörstjórn.

Frá utankjörfundaratkvæðagreiðslu í Sergyiev Posad í dag.

Óttaðist mest að fá ekki að greiða atkvæði

Kjörseðlarnir eru fernskonar. Á seðlunum fyrir Donetsk og Lugansk er einungis spurt hvort kjósendur vilji að ríkin, sem þegar hafa lýst yfir sjálfstæði (2014), verði hluti af Rússneska ríkjasambandinu. Á seðlunum fyrir Kherson og Zaporizhzhia er kosið um hvort fólk vilji að svæðin skilji sig frá Úkraínu, lýsi yfir sjálfstæði og verði hluti af Rússneska ríkjasambandinu. Einn kjörkassi er fyrir hvert svæði og talið verður upp úr þeim fyrir hvert svæði um sig.

Blaðamaður ræddi við kjósanda að nafni Olga frá Zaporizhzhia í gær, og spurði meðal annars hvort hún hefði fundið fyrir þrýstingi stjórnvalda eða annarra um að fara og kjósa í atkvæðagreiðslunni. Hennar svar var að hún hafi „óttast það helst að fá ekki að kjósa“. Að hennar sögn hafa íbúarnir lengi vonast eftir því að fá að ákveða um framtíð heimahaga sinna með atkvæðagreiðslu.

Kona greiðir atkvæði utankjörfundar í Moskvu.

Ónefndur heimildamaður greindi frá því að faðir hennar sé íbúi í Donetsk, sem sé undir stöðugum sprengjuárásum frá úkraínska hernum. Til viðbótar gerði úkraínski herinn sprengjuárás á hótel í Kherson í gær, þar sem tveir almennir borgarar létu lífið. Færa þurfti einn kjörstað vegna árásanna og annarsstaðar var rætt um að kjósa í loftvarnabyrgi. Talið er að árásirnar nú séu til að hræða fólk frá því að mæta á kjörstað. Að sögn heimildarmannsins var brugðið á það ráð að bjóða fólki sem ekki á heimangengt vegna árásanna, eða af öðrum ástæðum, að hafa samband við kjörstjórnir svæðanna, til að fá til sín fulltrúa til að taka við atkvæðagreiðslu samkvæmt reglum og skilyrðum þar um. Það fékkst staðfest af blaðamanni hjá kjörstjórn í Sergyiev Posad í dag.

Til viðbótar hafa stjórnvöld í Kænugarði hótað þeim allt að fimm og jafnvel tíu ára fangelsisvist sem taka þátt í atkvæðagreiðslunni.

Skildu eftir skilaboð