Hvers vegna hætti forstjóri Pfizer við að mæta fyrir nefnd Evrópuþingsins?

frettinErlentLeave a Comment

Í gær sagði Fréttin frá því að stjórnandi hjá Pfizer hafi staðfest á mánudag fyrir nefnd Evrópuþingsins sem fjallar um COVID-19 að Pfizer hefði ekki prófað hvort „bóluefni“ fyrirtækisins kæmi í veg fyrir dreifingu veirunnar áður en það var sett á markað.

Umræddur stjórnandi Pfizer sem mætti fyrir þingnefndina var Janin Small, framkvæmdastjóri alþjóðlegra markaða fyrirtækisins. Upphaflega ætlaði forstjóri Pfizer, Albert Bourla, að mæta fyrir nefndina en ákvað nokkrum dögum fyrir fund nefndarinnar að hætta við.

Ákvörðun Bourla um að mæta ekki fyrir þingnefndina kom í kjölfar úttektarskýrslu á innkaupastefnu bóluefna ESB sem birt var í september og vakti upp nýjar spurningar um samskipti Bourla og forseta framkvæmdastjórnar Evrópusambandsins, Ursulu von der Leyen, vegna margra milljarða evra bóluefnasamnings ESB og Pfizer.

Búist var við að Bourla yrði spurður erfiðra spurninga á nefndarfundinum sem var haldinn á mánudag um það hvernig hinir leynilegu bóluefnasamningar voru gerðir. Enda hafði formaður nefndarinnar, belgíski Evrópuþingmaðurinn Kathleen Van Brempt, sagt í september að hún hlakkaði til viðræðna „við aðra forstjóra“ þar á meðal „Herra Albert Bourla, forstjóra Pfizer“ þann 10. október.

Þessi nefnd Evrópuþingsins hefur verið að funda með helstu embættismönnum sem hafa tekið þátt í bóluefnaöflunarferli ESB til að draga lærdóm af því hvernig rétt sé að bregðast við heimsfaraldri í framtíðinni. Aðrir stjórnendur lyfjafyrirtækja hafa þegar komið fyrir nefndina, þar á meðal forstjóri Moderna og háttsettir stjórnendur frá AstraZeneca og Sanofi.

Hætti Bourla við að mæta til að forðast spurningar um samskiptin við von der Leyen?

Í skýrslu eftirlitsstofnunar ESB, European Court of Auditors (ECA), kom fram að von der Leyen hefði tekið beinan þátt í bráðabirgðaviðræðum um stærsta bóluefnasamning ESB, fyrir allt að 1,8 milljarða skammta af Pfizer bóluefninu, sem gerður var í maí 2021. Þarna vék von der Leyen frá samningaferlinu sem fylgt var við gerð annarra samninga, þar sem sameiginlegt samningateymi sem skipað var embættismönnum frá framkvæmdastjórninni og aðildarlöndum, stóðu fyrir könnunarviðræðum.

ECA benti einnig á að framkvæmdastjórnin neitaði að leggja fram skrár yfir viðræðurnar við Pfizer, annaðhvort í formi fundargerða, nöfnum sérfræðinga sem leitað var til, samþykktum skilmálum eða önnur sönnunargögn.

Þess má geta að í apríl 2021 greindi New York Times frá því „mjög notalegu sambandi milli Bourla og von der Leyen“, þar sem þau tvö hefðu skipst á textaskilaboðum í aðdraganda samningsins. Verklag sem kom til kasta umboðsmanns ESB, sem sagði von der Leyen brjóta reglur ESB með því að neita að birta þessi skilboð hennar og Bourla varðandi samninginn, eins og Fréttin hefur sagt frá og lesa má hér.

Er að komast upp um stærsta spillingarmál sögunnar?

Í morgun sagði króatíski Evrópuþingmaðurinn Mislav Kolakusic að kaup Evrópusambandsins á of mörgum „óprófuðum“ skömmtum af Covid bóluefni jafngilti „stærsta spillingarmáli í sögu mannkyns.“

Í þessu sambandi má geta að íslenska ríkið neitaði á síðasta ári íslenskum borgara að fá afrit af bóluefnasamningunum við lyfjaframleiðendurna og sagði að reglur um upplýsingaskyldu ættu ekki við í þessu tilfelli.

Heimild

Skildu eftir skilaboð