Haraldur segir andrúmsloft múgsefjunar varasamt eins og gerðist í Covid

frettinInnlent, ViðtalLeave a Comment

Haraldur Erlendsson geðlæknir var gestur í hlaðvarpi Sölva Tryggvasonar. Hann sagði gríðarlegt upplýsingaflóð og upplýsingaáreiti vera eina stærstu heilsuógn okkar tíma og að geðheilsuvandi þjóðarinnar væri orðinn stærsta samfélagsmálið.

Haraldur segir að samkvæmt samtölum við kollega sína hafi þörfin eftir geðheilsuaðstoð aukist gríðarlega eftir Covid. Sá tími hafi aukið á vanda margra sem þeir voru í fyrir þann tíma.

Múgsefjun hættuleg

Haraldur sagði Covid faraldurinn hafi sýnt fram á mikilvægi þess að ekki verði til andrúmsloft múgsefjunar, og þar sem opin umræða er stöðvuð.

„Ein mesta ógn við lýðræðisréttindi okkar í dag er þegar ríkisvaldið ætlar sér að ganga of langt í að hafa áhrif á líf borgaranna. Það er aldrei gott þegar það verður til ástand þar sem bara ein skoðun sé leyfð og réttindi tekin af fólkinu og engin opinská umræða fari fram að alvöru. Við þurfum andstæðar skoðanir, það er lífsnauðsynlegt í lýðræðissamfélagi. Öll ferli í þjóðfélaginu þarf sífelldt að endurskoða. Á sínum tíma var búin til þrískipting valdsins og síðan hafa fjölmiðlar tekið að sér fjórða valdið. En þeir hafi í raun ekki fjárhagslegt umboð til að standa undir hlutverkinu. Mín skoðun er sú að við þurfum að ræða það hvernig við getum haft fjórða valdið formlegt í okkar samfélagi. Þá myndi það sinna því hlutverki að vera eins konar "devil‘s advocate" og fara í gegnum öll ferli með gagnrýnum augum. Er dómsvaldið of hliðhollt undir framkvæmdavaldið? Eru fjölmiðlar að standa undir hlutverki sínu og svo framvegis? En þetta yrði auðvitað vandasamt í framkvæmd,“ segir Haraldur og heldur áfram:

„Stóra spurningin í samfélögum í gegnum tíðina er oft sú sama. Hvenær er hinn almenni borgari orðinn þræll? Hvað er eðlilegt að almennur borgari hafi mikil réttindi og hvað er eðlilegt að hann vinni mikið? Nýju kynslóðirnar sjá þetta  í öðru ljósi en við og forfeður okkar og vilja losna úr þrældómnum á stanslausri vinnu og geta ekki notið lífsins. Margir eru að stíga út úr þessu kapphlaupi, sem ég held að sé gott, svo framarlega sem fólk gerir eitthvað uppbyggilegt.“

Allt viðtalið við Sölva:

Skildu eftir skilaboð