ómega-3-fitusýrur er neysla lýsis og fiskmetis ein besta leiðin til að sjá líkamanum fyrir ómega-3. Snemma á síðustu öld voru heilsusamleg áhrif D-vítamíns uppgötvuð. Þar sem þorskalýsi er ein helsta náttúrulega uppspretta D-vítamíns varð það fljótt vinsælt hráefni til framleiðslu vítamínsins. Það var því áhugavert að lesa í ViðskiptaMogganum hinn 18.3. 2020, daginn áður en öllum var gert skylt að fara í tveggja vikna sóttkví við komuna til landsins, eftirfarandi undir fyrirsögninni „Þróa veiruhamlandi efni úr lýsi“. Í fréttinni var greint frá því að „Lýsi hf. sé ásamt teymi lækna og vísindamanna að vinna að þróun og framleiðslu á vöru sem hugsanlega gæti lagt lóð á vogarskálarnar í baráttunni gegn veirusmiti með fyrirbyggjandi hætti“.
Ítarlegri frétt um þróun efnisins mátti lesa í Fiskifréttum Viðskiptablaðsins 28.11. 2020 þar sem greint var frá því að hópur vísindamanna, undir forystu Einars Stefánssonar, prófessors í læknisfræði við Háskóla Íslands, hefði sýnt fram á að magn SARS-CoV-2, kórónuveirunnar sem veldur Covid-19, í frumurækt minnkaði um 99,9% við útsetningu fyrir lýsi með 1% og 2% magni frírra fitusýra. Rannsóknin var gerð með bandarískum samstarfsaðilum. Haft var eftir Einari í fréttinni að „Halldór Þormar, prófessor emeritus við Háskóla Íslands, hafi hafið rannsóknir á fitusýrum fyrir 30 árum og sýnt fram á að þessar fitusýrur eyðileggi hjúpaðar veirur. Það eru veirur sem eru með fituhimnuhjúp í kringum sig, til dæmis herpesveirur, RS-veirur og kórónuveirur.“ Fram kom hjá Einari að hópurinn hefði fengið samþykki vísindasiðanefndar fyrir rannsókn á áhrifum þessa efnis á menn. Fyrsti fasi rannsóknarinnar væri að hefjast með þátttöku 30 sýktra einstaklinga. Þeim yrði gefið lýsi á Landspítalanum með hærra hlutfalli frírra fitusýra.
Í Fiskifréttum Vb 7.1.2022 er aftur greint frá þróun vörunnar, sem Einar telur rétt að flokka sem lækningatæki sem verði hluti af sóttvörnum fremur en lyf. Í millifyrirsögn í fréttinni kemur fram að styrkur til þróunar vörunnar hafi verið dreginn til baka. Á vefmiðlinum Fréttin (frettin.is) 7.6. 2022 er greint frá afturköllun Rannís á styrk til rannsóknar á virkni lýsis við Covid-19. Rannís hafði samþykkt „myndarlegan styrk til rannsóknarinnar“ að sögn Einars sem stofnunin dró síðan til baka án útskýringa. Einar bætti því við að svo virtist sem „ekki hafi verið nægur stuðningur vísindasamfélagsins við vísindarannsóknina um virkni hins íslenska lýsis og því miður þurfti að hætta við verkefnið“.
Tilgangur þessarar greinar er ekki að velta vöngum yfir sinnaskiptum stjórnar Rannís um styrkveitingu til rannsóknarinnar. Hins vegar að hvetja Áslaugu Örnu Sigurbjörnsdóttur háskóla-, iðnaðar- og nýsköpunarráðherra til að hafa forgöngu um að þráðurinn verði tekinn upp að nýju milli frumkvöðlanna og Rannís. Aðrar aðstæður ríkja í dag en þegar loforðið um styrkinn var dregið til baka. Bóluefnin sem þá voru í framleiðslu og miklar vonir voru bundnar við hafa sýnt sig að vera gagnslaus til varnar smiti. Kórónuveiran og aðrar slíkar eru því miður komnar til að vera.
Ísland getur lagt lóð á vogarskálar til varnar eyðileggingarmætti veirunnar með því að styðja við bakið á innlendum frumkvöðlum við þróun á tæki sem góðar vonir eru um að gagnist í baráttunni við veiruna.
Greinin birtist fyrst í Morgunblaðinu 22. maí 2023 og birt hér með leyfi höfundar.