Vestræn góðmennska fóstrar spillingu

frettinErlent, Innlent, Páll VilhjálmssonLeave a Comment

Páll Vilhjálmsson skrifar:

Vesturlönd eiga að sýna styrk sinni og yfirburði á alþjóðavettvangi og skapa útlönd í sinni mynd; velmegun, mannréttindi og pólitískan stöðugleika.

Á þessa leið skrifar Janet Daley dálkahöfundur Telegraph. Daley er borgaralegur hægrimaður og öfgalaus, gæti verið kjósandi Sjálfstæðisflokksins ætti hún kosningarétt á Fróni.

Sjónarmið Daley eru án efa þau sömu og margra velviljaðra og hófsamra hægri- og vinstrimanna sem vilja gjarnan leysa stjórnkerfisvanda þeirra ríkja sem ekki teljast vestræn.

Uppskriftin er að taka höndum saman við hófsöm umbótaöfl í framandi ríkjum og hjálpa þeim efnahagslega og hernaðarlega að ná tökum á stjórnkerfi ríkja sinna. Eftir stund, fáein ár eða einn til tvo áratugi, komast heimamenn upp á bragðið og búa sér til vestrænt samfélag. Þar með er ekki lengur neitt ves með flóttamenn. Stór bónus þykir að almennt gildir að vestræn lýðræðisríki efna ekki til styrjalda við nágranna.

Í viðtengdri frétt segir af spillingu í Úkraínu. Þessi tiltekna frétt segir af stórfelldri sölu á undanþágum frá herþjónustu. Yfirmenn herskráningar í öllum héruðum Úkraínu urðu moldríkir á því að selja mönnum undanþágu frá herskyldu. En bíðum við, okkur á vesturlöndum er sagt að Úkraínumenn upp til hópa vilji fórna lífi og limum til að landið fái að vaxa og dafna sem vestrænt lýðræðisþjóðfélag? En svo kaupa menn sig unnvörpum frá herskyldu.

Úkraína er gerspillt, var það löngu fyrir stríðið. Sama gilti í Suður-Víetnam, Írak og Afganistan þar sem störfuðu í lengri eða skemmri tíma vestrænar leppstjórnir. Alls staðar þar sem vestræn góðmennska kemur færandi hendi, hergögn og fjármagn, eru áköfustu viðtakendur þeir spilltustu. Heimamenn ýmist láta sér fátt um finnast eða snúast gegn spilltum valdhöfum og vestrænum bakhjörlum.

Hvers vegna verða þeir spilltustu ávallt helstu bandamenn vestrænu góðmennskunnar? Gefur auga leið. Vestræna góðmennskan vill heyra blekkinguna um að framandi menning geti ekki beðið eftir að verða vestrænar í siðum, háttum og lífskjörum. Þeir spilltu fóðra blekkinguna og verða skjólstæðingar vestursins og auðgast í leiðinni sjálfir.

Daley og sálufélagar taka ekki með í reikninginn að almennt kjósa menn stjórnvald er sprettur úr heimaakri, ekki innflutt góss. Í hverju samfélagi takast á ólík öfl sem verða að finna málamiðlun til að lifa af. Fái samfélög frið til gera upp sín mál kemst á stjórnvald sem hæfir þeim. Ef óvandaðir fá völdin verður stjórnarfarið til samræmis.

Oft verða blóðug átök á meðan þjóðir finna fjölina sína. En hvernig varð frjálsa vestrið til? Tvær heimsstyrjaldir takk fyrir, með helför og atómsprengjur í kaupbæti.

Vestrið á aðeins tvo möguleika á alþjóðavísu. Í fyrsta lagi að koma á vestrænum friði með valdboði og hernaði, líkt og Rómverjar gerðu aldirnar báðu megin við burð Krists. Í öðru lagi að leyfa þjóðríkjum heims að finna taktinn upp á eigin spýtur, reyna að leggja gott til en sættast á að stundum kemur það fyrir lítið og óöldin heldur áfram. Þá er hlutverk vestursins að takmarka skaðann, sjá til þess að innanlandsófriður í einu ríki valdi sem minnstum skaða í nærsveitum.

Í vestrinu er æ minni löngun til hernaðaríhlutunar og ríkisstjórnarskipta í fjarlægum löndum. Það þykir endurtekning á nýlendustefnu frá 19. öld er gaf ekki góða raun. Seinni kosturinn er raunhæfur, halda að sér höndum og leyfa íbúum heimsbyggðarinnar að bera heimafengna bagga. Þeir eru hollastir.

Hvað Úkraínu varðar sérstaklega ætti vestrið að senda þau skilaboð til Selenskí í Kænugarði að láta af blóðfórnum og semja við Pútín.

Skildu eftir skilaboð