Furðuveröld vinstri vitleysunnar

frettinInnlent, Jón Magnússon, SkólamálLeave a Comment

Jón Magnússon skrifar:

Af tilviljun heyrði ég umfjöllun í útvarpi allra landsmanna í morgun, þar sem amast var við heimalestri og heimanámi skólafólks. Mig rak í rogastans. Af hverju var amast við heimanámi? Jú þá gæti orðið mikill munur á milli námsfólks. 

Þeir sem þannig hugsa telja það af hinu illa að einhver skari fram úr og sé betri en aðrir. Hugsunin sem liggur á bakvið í furðuveröld vitleysunnar, er að þá muni þeir sem læra heima skara fram úr þeim sem ekki gera það. 

Boðskapurinn er sá, að það megi engin skara fram úr heldur verði allir að vera jafn illa læsir og reiknandi til þess, að allir geti hjakkað í því meðalhófi sem furðuveröld vinstri vitleysunnar gerir kröfu til.

Hvernig rímar það svo við samkeppnisþjóðfélagið að engin megi skara fram úr?

Sjálfsagt vel því samkeppni er ekki markmið í íslenskum skólum. Ekki heldur að kenna nemendum og sjá til þess, að þeir geti fullnýtt það sem Guð gaf þeim. Meginmarkmiðið er ekki námið, heldur að öllum líði vel í skólanum. 

Af sjálfu leiðir, að Siggi má ekki fá hærri einkunir en Jón því að þá gæti Jóni liðið illa og taka verður foreldra Sigga til bæna á næsta foreldrafundi og brýna fyrir þeim að valda ekki vanlíðan hjá Jóni með því að hjálpa Sigga að læra og hvetja hann til að dáða á vettvangi menntagyðjunnar. 

Er það furða að við skulum stöðugt lækka í Pisakönnunum þar sem borin er saman geta nemenda mismunandi þjóðlanda. Við endum með því að verða lægst með sama áframhaldi, en getum þá státað af því að öllum líði svo vel í íslenskum skólum þó engin kunni neitt og skólarnir séu ekki að rækja upphaflegt verkefni. 

Skildu eftir skilaboð