Leiðir til að brjóta Vesturlönd

frettinErlent, Geir Ágústsson1 Comment

Geir Ágústsson skrifar:

Eftir lestur á lítilli frétt um hvernig Kínverjar eru mögulega að reyna knésetja Vesturlönd (satt eða ekki) varð mér hugsað svolítið til leiða til að knésetja Vesturlönd. Kannski er ég bara að endurtaka uppskrift Kínverja, ef slík er til, en mín áætlun yrði mögulega á þessa leið:

Að fá Vesturlandabúa til að hata sjálfa sig: Þeir eru jú gamlir nýlenduherrar og sitja á miklum auð. Þeir hljóta því að mega skammast sín og telja að auðsköpun þeirra sé byggð á vinnu þræla og kúgaðra í sólbjartari heimshlutum. Hvíta skinnið er táknmynd þess og þar með alls sem er að í heiminum.

Að fá Vesturlandabúa til að ráðast á hvern annan: Það gerum við vissulega. Sumir vilja gelda börn og aðrir ekki. Við tökum afstöðu í átökum í fjarlægum heimshornum og sendum vopn og seðla á stríðandi aðila, jafnvel báða í átökum tveggja, og hnakkrífumst svo um það hvor er rasistinn og hvor ekki. Við rífumst líka um það hvort vestræn siðmenning, byggð á kristnum rótum og gildum (en ekki endilega trúarlegum í öllum tilvikum), sé góð eða slæm. Kannski bara jafngóð og hver önnur? Eða jafnvel verri? Um þetta má rífast.

Að tæma sjóði Vesturlanda: Það er frekar auðvelt. Vopnasendingar, þróunaraðstoð, kaup á varningi sem er framleiddur utan Vesturlanda vegna skatta Vesturlanda á eigin framleiðslu.

Að fá Vesturlandabúa til að ritskoða sjálfa sig: Það er líka auðvelt. Málfrelsið sem áður var í hávegum haft er núna brandari.

Að gera Vesturlandabúa orkulausa: Segir sig sjálft. Það er jú hamfarahlýnun og hún er Vesturlöndum að kenna og á meðan ríki utan Evrópu og Norður-Ameríku raða á sig nýjum kolaorku- og kjarnorkuverum þá keppast Vesturlönd við að reisa vindmyllur. Var ekki til eitthvað máltæki um að berjast við vindmyllur? Kannski mætti gefa því nýja túlkun.

Að gera Vesturlandabúa fátæka: Skuldir, verðbólga og sífellt óviðráðanlegra velferðarkerfi eru lykilþættir hér. Við erum á fullu að innleiða þetta allt.

Að gera Vesturlandabúa vopnlausa: Það er nú þegar búið að eða unnið að því að afvopna almenning. Núna streyma líka öll hergögn út úr Vesturlöndum og framleiðsla nýrra er að sjúga framleiðslumáttinn úr annars konar framleiðslu. Hin nýju hergögn eru svo send til útlanda, að sjálfsögðu.

Að þynna út Vesturlandabúa: Ekkert mál! Láttu þá bara moka inn fólki með aðra sýn og önnur gildi og í nógu miklum mæli þá hverfa vestræn gildi. Til að byrja með er það staðbundið, en smátt og smátt nær slíkt yfir allt samfélagið. Heilu hverfin í stórum borgum eru í dag orðin að litlum skikum óvestrænnar menningar og eru að breiða úr sér víða.

Að gera Vesturlandabúa trúlausa: Nú er ég sjálfur ekki trúaður maður nema að því leyti að ef ég þarf að reiða mig á hin nýju trúarbrögð, eins og fasisma (samstarf ríkisins og stærri fyrirtækja) og Vísindin (sem eru ekki það sama og vísindin), að þá er ég í vandræðum. Kannski Biblían bjóði upp á betri leiðbeiningar en stjórnmálamenn og sóttvarnalæknar.

Listinn er eflaust lengri, ef Kínverjar eru með slíkan. En það er verið að brjóta Vesturlönd bæði að innan og utan. Hvað kemur þá í staðinn? Eitthvað verra. Það er næstum því á hreinu.

One Comment on “Leiðir til að brjóta Vesturlönd”

  1. Góð grein, það er augljóslega verið að stuðla að hruni Vesturlanda með markvissum aðgerðum. Manndjöflarnir sem stjórna heiminum tala um The Great Reset og stefna að alheimsstjórn 2030 að kínverskri fyrirmynd. Þetta mun gerast nema að almenningur fari að hugsa sjálfstætt og láti ekki einhliða áróður fjölmiðlanna stjórna skoðunum sínum. VAKNIÐ!

Skildu eftir skilaboð