Nú er um mánuður liðinn síðan Danir afnámu svo til allar innanlandstakmarkanir vegna heimsfaraldurs. Á einstaka stað eins og flugvöllum er beðið um grímu og skimanir eru reglulega framkvæmdar þar sem ástæða er talin til en annað er frá. Lestir og strætisvagnar keyra á fullum afköstum, fólk mætir í vinnuna og treðst í lyfturnar, heilsar með handabandi og dansar á næturklúbbum, grímulausir og án fjarlægðar- og fjöldatakmarkana.
Nú bæta Danir enn í. Í gær gáfu yfirvöld út fréttatilkynninguþess efnis að ríki heims verði ekki lengur flokkuð eftir stöðu heimsfaraldurs, þ.e. ekki lengur litakóðuð, og gilda þær reglur frá og með morgundeginum og í 10 daga og rýmkast svo enn frekar. Ferðalangar án sprautu þurfa að fara í próf fyrir brottför eða í seinasta lagi 24 tíma eftir komu til Danmerkur en aðgerðir á landamærum hverfa að mestu og landamæragæsla vegna COVID-19 hættir.
Þessi frekari opnun Danmerkur er rökstudd með því að benda á hátt hlutfall þeirra sem hafa þegið sprautu. Í Danmörku er það hlutfall 75% á meðan það er 80% á Íslandi skv. Our World in Data.
Um 500-600 smit greinast daglega í Danmörku sem svarar til um 35-40 smita á dag á Íslandi miðað við höfðatölu. Á Íslandi er smitfjöldinn svipaður.
Danmörk er með öðrum orðum minna sprautuð og svipað smituð og Ísland, en án innanlandstakmarkana og bráðum nánast án landamæratakmarkana óháð því hvaðan ferðalangur kemur.
Nú er að sjá hvort Danir haldi ró sinni nú þegar haustpestirnar ganga yfir hver á fætur annarri. Já, flensan er komin aftur í Danaveldi.