Fyrrum krikketstjarnan Imran Khan var settur af sem forsætisráðherra Pakistans í apríl og hefur síðustu daga leitt hópferð til höfuðborgarinnar, Islamabad, til að krefjast nýrra kosninga. Hann komst til valda 2018 í kjölfarið á uppljóstrunum úr Panamaskjölunum sem sýndu að börn forsætisráðherra landsins, Nawaz Sharif, og fólk tengt bróður hans, Shehbaz Sharif, áttu verðmætar eignir erlendis er skráðar voru á átta aflandsfélög. Nawaz fékk tíu ára fangelsisdóm og ævilangt bann við stjórnmálaþátttöku en nú er Shehbaz Sharif orðinn forsætisráðherra. Khan er talinn laus við spillingu og sagður bera hag almennings fyrir brjósti. Honum er oftast lýst sem þjóðernissinnuðum popúlista.
Imran vissi að til stóð að leggja fram vantrauststillögu á sig, sagði af sér embætti og boðaði til kosninga en hæstiréttur greip inn í og setti hann í embættið aftur svo vantrauststillagan kom til framkvæmda og bróðir fyrrverandi forsætisráðherra hlaut embættið án kosninga. Á YouTube myndbandi frá 26. maí má sjá Imran koma á vagni inn í borgina og mannhaf fylgjenda hans sem lögregla tók á móti með táragassskothríð og herinn var kallaður út til að vernda mikilvægar byggingar. Í stað þess að halda "Frelsisgöngunni" áfram inn að hjarta borgarinnar þá aflýsti hann henni og gaf yfirvöldum sex daga frest til að samþykkja nýjar kosningar - ella fylltu stuðningsmenn sínir aftur göturnar.
Ásakanir gegn stjórn Bidens
Hinn 23. maí veitti hann fyrsta viðtalið eftir að honum var komið frá og féll það verkefni í skaut Becky Anderson á CNN. Þar segir Imran að stjórn Bidens hafi komið sér frá. Fulltrúi Bandaríkjastjórnar, sem hann nafngreinir, hafi lagt fram kröfu um að hann yrði settur af sakir þess að hann setti þjóð sína í forgang og neitaði að taka afstöðu gegn Rússum. Í Pakistan væru margir fátækir og Rússar hefðu boðið þeim 30% afslátt á eldsneyti og hveiti. Einnig tengdist þetta Afghanistan, sagði hann (en hann hafði neitað að veita BNA aðstöðu til árása á talibana). Becky spurði hann hvort það væri ekki æskilegt að hafa góð samskipti við BNA og hann sagðist hafa haft góð samskipti við stjórn Trumps, stjórn Bidens væri vandamálið. Einnig spurði hún hvort hann iðraðist þess að hafa verið í Moskvu daginn sem Pútín réðst inn í Úkraínu en hann sagðist myndu iðrast þess hefði hann haft vitneskju um að hvað Pútín hyggðist fyrir. Hann talar um að nú séu glæpamenn við stjórnvölinn, menn sem hefðu rænt landið í 30 ár, og óvild gegn BNA væri nú áberandi meðal landsmanna.
Bandaríkjastjórn sver af sér af sér alla ábyrgð á stjórnarskiptunum en ýmislegt bendir þó í þá átt. Samkvæmt Reuters tilkynnti Joe Biden forsætisráðherra Indlands, Narendra Modi, í apríl að það væri ekki Indverjum í hag að kaupa meiri olíu frá Rússum (þeir fá hana með afslætti). Haft er eftir fyrrum blaðafulltrúa Bidens, Jen Psaki, að: "Forsetinn kom því mjög greinilega til skila að það sé [Indverjum] ekki í hag að auka [olíukaupin]." Lítur Biden á Indland sem eins konar nýlendu sína?
Grunsamlegt er að Bill Gates kom í sína fyrstu heimsókn á ævinni til Pakistan í febrúar á þessu ári. Opinberlega tengdist það bólusetningu við lömunarveiki en í þakkarbréfi til forseta landsins, Arif Alvi, (dagsettu eftir að ákveðið var að Imran skyldi settur af) fyrir góðar móttökur segir Gates að stofnun sín vilji gjarnan dýpka tengsl landanna hvað varðar sameiginlega hagsmuni. "Ég hlakka til að sjá fram á nánari samvinnu við stjórnvöld Pakistans," sagði hann.
Strax í mars varð það ljóst að Imran ætlaði ekki að taka þátt í fordæmingu Rússa vegna stríðsins. Í frétt frá Reuters kemur fram að hópur diplómata frá 16 ESB löndum auk Ástralíu, Kanada, Japans, Noregs, Sviss og Bretlands sendi sameiginlegt bréf hinn 1 mars og hvatti Pakistan til að styðja ályktun á Allsherjarþingi Sameinuðu þjóðanna um að fordæma innrás Rússa í Úkraínu. "Hvað halda þeir að við séum? Erum við þrælar ykkar ... sem gerum hvað sem þið segið okkur að gera?" er Imran Khan sagður hafa svarað á kosningafundi.
Hvort sem Bandaríkin hafa komið Imran Khan frá völdum eður ei þá er víst að fylgismenn hans trúa því og hugsa Bandaríkjamönnum og "leppstjórn" þeirra þegjandi þörfina.