Rósa Guðbjartsdóttir bæjarstjóri Hafnarfjarðarbæjar, kallar eftir því að ríkið taki við þjónustu flóttafólks og hælisleitenda í stað þess að sveitarfélögin veiti hana. Bæjarstjórn Hafnarfjarðar ályktaði í gær um að bærinn gæti ekki veitt þá þjónustu sem ætlast væri til af honum og var ályktunin samþykkt einróma. Bæjarstjórinn segir lausnina ekki felast í því að fleiri sveitarfélög taki á móti fólki.
„Við erum búin að kvarta undan því um nokkurra missera skeið við Útlendingastofnun og ráðuneytið að straumur þessa fólks hingað, umfram þá sem við erum með samninga um, sé orðinn allt of mikill og að við séum að komast að þolmörkum í því að veita því fólki þjónustu,“ segir Rósa.
Lögum samkvæmt beri sveitarfélögum sem fólk er búsett í að veita því ákveðna þjónustu, hvort sem samningur um það er í gildi eða ekki.
„Þetta fólk kemur hingað og óskar eftir ýmiskonar þjónustu. Við höfum varað við þessu, bent á og kvartað yfir að hér séu leigð hótel og gistiheimili til að koma fólki í búsetu, án samráðs við okkur og án þess að ganga úr skugga um að við getum veitt því þá þjónustu sem okkur ber samkvæmt lögum,“ segir Rósa.
Viðræður við félagsmálaráðuneytið og önnur stjórnvöld um málið hafi ekki borið árangur
„Svo tók steininn úr núna fyrir um hálfum mánuði. Þá var okkur tilkynnt að til viðbótar við þennan mikla straum sem hefur verið undanfarna mánuði, séu fjögur hundruð flóttamenn frá Venesúela að koma til landsins og að helmingur þeirra muni hafa búsetu í Hafnarfirði. Það var ekki haft samráð við okkur, heldur leigð hótel og gistirými til að koma fólki í búsetu. Þá ber okkur að veita þjónustu, sama hvað,“ bætti Rósa við.
Lög geri ráð fyrir að sveitarfélagið veiti þjónustuna, jafnvel þó fólkið komi þangað án samráðs við þá sem því stjórna.
„Þetta er gert án samráðs og ég vil bara að ráðuneytið taki fulla ábyrgð á því að fólkið fái þá þjónustu sem ríkið vill að það fái. Við getum ekki veitt hana hér í Hafnarfirði. Það eru nú þegar tvö hundruð leik- og grunnskólabörn sem hafa komið hingað undanfarin ár á flótta, og við erum enn að reyna að koma börnum að. Nú er komin upp sú staða að við getum ekki meir.“
Hér að neðan má lesa ályktun bæjarstjórnar Hafnarfjarðar, sem var samþykkt einróma á bæjarstjórnarfundi í gær:
Ábyrgð á þjónustu við flóttafólk vísað til félagsmálaráðuneytisins
Hafnarfjarðarbær hefur frá árinu 2015 verið eitt þriggja sveitarfélaga landsins sem gert hefur samning við ríkisvaldið um móttöku einstaklinga í leit að alþjóðlegri vernd. Því mikilvæga samfélagslega verkefni hefur bærinn sinnt af alúð og metnaði og mikil sérþekking skapast. Auk þess hefur bæjarfélagið tekið á móti stórum hópi flóttafólks í gegnum samræmda móttöku. Nú er svo komið að hátt í 200 börn sem hafa komið til landsins á flótta eru í grunn- og leikskólum Hafnarfjarðar og leggur bæjarfélagið mikla áherslu á að sinna þeim einstaklingum vel. Undanfarna mánuði hefur Hafnarfjarðarbær ítrekað komið því á framfæri við félags- og vinnumarkaðsráðuneytið að bærinn geti ekki tekið á móti fleira flóttafólki í bili þar sem innviðir sveitarfélagsins séu fyrir all nokkru komnir að þolmörkum, sérstaklega hvað skólaþjónustu og stuðning til barna varðar.
Engu að síður hefur flóttafólki án samnings við bæjarfélagið fjölgað um nokkur hundruð á síðustu vikum. Fólkið er hingað komið og búsett í úrræðum sem Útlendingastofnun hefur komið upp í bæjarfélaginu algjörlega án samráðs við bæjaryfirvöld. Í erindum bæjarins til ráðuneytisins hefur því skýrt verið komið á framfæri að útilokað er að Hafnarfjarðarbær geti tekið við fleira flóttafólki og veitt því þá þjónustu sem lögum samkvæmt búsetusveitarfélaginu ber að gera, sbr. skólaþjónustu til barna. Þar sem viðræður og erindi til ráðuneytisins og Útlendingastofnunar hafa ekki skilað árangri, er ábyrgðinni á veitingu þjónustunnar hér með vísað til félags- og vinnumarkaðsráðuneytisins. Hafnarfjarðarbær skorast alls ekki undan þátttöku í verkefninu og vill sinna því vel áfram með hagsmuni flóttafólks og hælisleitenda að leiðarljósi. Ríkið verður hins vegar að standa undir sinni ábyrgð í málinu og koma til móts við bæjarfélögin sem hafa tekið að sér þessi verkefni.
Bæjarfélaginu ber lögum samkvæmt að gæta hagsmuna allra barna sem nú þegar eru í leik- og grunnskólakerfinu. Vegna skorts á samráði þola innviðir sveitarfélagsins hins vegar ekki frekari fjölgun flóttafólks án samnings og óskar Hafnarfjarðarbær því eftir því að félags- og vinnumarkaðsráðuneytið taki ábyrgð á því að viðeigandi þjónustu við flóttafólk verði sinnt.
One Comment on “Bæjarstjóri Hafnarfjarðar segir að bærinn geti ekki tekið við fleiri hælisleitendum og flóttafólki – ríkið verði að taka við keflinu”
Loksins að einhver þorir að koma hreint fram og segja sannleikann um þessa stjörnausu stefnu „góða fólksins“ sem sækir í athyglina og vill ekkert meira en vera talið til öðlinga og miskunnarsamra samverjanna en hugsar ekki heila hugsun né nokkurn skapaðan hlut fram i timann. Þetta raunveruleika fyrta gerfi góðmennsku lið þarf ekki að gera eitt né neitt eða taka åbyrgð á neinu þegar það krefst þess að dæla stöðugt inn erlendu flóttafólki.
„Orð fylgja åbyrgð“ en góða fólkið ber akkúrat enga åbyrgð á einu né neinu þegar það krefst þess að aðrir taki öll þessi vandamál og þann griðarlega fjárhagslega kostnað og félagslegu vandamål sem þetta kostar alla landsmenn.